22.03.1927
Efri deild: 34. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (2316)

63. mál, forkaupsréttur kaupstaða og kauptúna á jörð í nágrannahreppi

Einar Árnason:

Jeg held, að það vægasta, sem sagt verður um frv. þetta, sje, að það sje gagnslaust.

Frv. er bygt utan um nýjan forkaupsrjett, sem mig minir að sje sá 5. eða 6. í röðinni. Það lítur því út fyrir, að höfundur þess hafi mikla trú á forkaupsrjettum. En jeg verð að taka undir með háttv. 1. þm. G.-K. (BK), að jeg hefi litla trú á þeim, og þá eðlilega minsta á þeim síðasta.

Eins og tekið hefir verið fram, er aðaltilgangur frv. þessa sá, að gera kaupstöðum og kauptúnum auðveldara að ná landi til ræktunar. En jeg held, að sá tilgangur náist ekki með því. Þessu er svo háttað, að eigi ríkissjóður land það, sem næst liggur kauptúninu eða kaupstaðnum, þá ganga þeir altaf fyrir. En sje það einstakra manna eign, þá hefir ábúandinn forkaupsrjettinn. En sje jörðin í sjálfsábúð, og vilji eigandinn selja hana einhverjum ákveðnum manni, þá hefir hann nóg ráð til þess, hvað sem öllum forkaupsrjetti liður. Reyslan er margbúin að sýna það og sanna. Jeg held því, að frv. þetta veiti kaupstöðunum enga bót að þessu leyti.

Hinsvegar lít jeg svo á, að það geti verið mjög tvieggjað sverð, að kaupstaðirnir nái tangarhaldi á jörðum þeim, sem næst þeim liggja, því að hætta sú, sem háttv. þm. Seyðf. (JóhJóh) benti á, er altaf fyrir hendi, og það jafnvel, hvort frv. þetta verður samþykt eða ekki. Mjer finst því nauðsyn bera til, að tryggja hreppa þá, sem næst kaupstöðunum liggja, fyrir því, að ekki sje hægt að setja þangað væntanlega þurfamenn kaupstaðanna. Til þess að fyrirbyggja þessa hættu, sje jeg ekki annað ráð en að færa hlutaðeigandi jörð undir lögsagnarumdæmi kaupstaðarins eða kauptúnsins.

Það hefir komið fram brtt. frá minni hl. landbn., um að þrengja sviðið meira en frv. gerir ráð fyrir. Brtt. þessa tel jeg til bóta. En þess ber þó að gæta, að þegar kaupstaðurinn kaupir jörð þá, sem næst honum liggur, víkkar hringur hans. Hann fær þá samkvæmt brtt. forkaupsrjett á þeirri næstu og svo koll af kolli. Vægast sagt er því frv. þetta tilgangslaust. Mun jeg þó greiða atkvæði með brtt., en því næst á móti frv.