11.03.1927
Neðri deild: 27. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í C-deild Alþingistíðinda. (2326)

62. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Ólafur Thors:

Jeg hefði ekki talið mjer skylt að tala við 1. umr. þessa ináls, ef mjer hefði ekki borist brjefleg áskorun frá helstu stjórnmálaandstæðingum mínum innan kjördæmis míns um að fylgja málinu sem fastast fram, að viðlögðu vantrausti þeirra. Þykir mjer skylt að svara mönnum þessum nokkru, og með því að jeg er lítill brjefritari, en treysti því hinsvegar, að þau orð, er jeg tala á þessum vettvang, berist þeim til eyrna, kýs jeg að nota tækifærið til að láta þessa kjósendur í kjördæmi mínu vita, að jeg ætla að hafa hótanir þeirra að engu, og beita mjer þegar í stað gegn málinu.

Slíkar vantraustshótanir stjórnmálaandstæðinga eru broslegar. Hv. flm., hv. 4. þm. Reykv. (HjV), sem ef til vill kann að eiga einhvern þátt í þessu tiltæki Hafnfirðinganna, mun best skilja, hver áhrif slík skilaboð hafa á mig, ef hann hugsaði sjer, að hann sjálfur fengi áskoranir, að viðlögðu vantrausti, frá þeim kjósöndum í Reykjavík, sem eru meðlimir í stjórnmálafjelagi Íhaldsmanna í Reykjavík. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. (HjV) mundi glotta. Slikt hið sama geri jeg.

Frv. þetta er gamall kunningi hv. deildar, og lá síðast fyrir henni í fyrra. Jeg sje því eigi ástæðu til að orðlengja um það að þessu sinni. Þó skal jeg drepa á örfá rök fyrir andstöðu minni gegn frv.

Í fyrra var jeg mótfallinn málinu, vegna þess að mjer sagði svo hugur um, að meiri hluti þeirra kjósenda, sem hlut eiga að máli, væru andvigir skiftingunni.

Að þessu sinni verður andstaða min því harðari sem full vissa í þessum efnum leggur mjer á herðar þyngri skyldur en hugboðið. Jeg hefi nefnilega siðan í fyrra aflað mjer fullrar vitneskju um vilja þeirra, sem skifta á, og veit nú, að af þeim á 4. þúsund kjósendum, sem hlut eiga að máli, eru allra mest um 1000 fylgjandi skiftingunni, en hinir allir á móti henni, enda liggja fyrir skýlaus mótmæli sýslunefndar Gullbr.- og Kjósarsýslu um skiftinguna, og er það að vonum einnig vegna þess, að færi skiftingin fram og fái Gullbr.- og Kjósarsýsla aðeins einn þingmann, eru þær mjög afskiftar í samanburði við önnur einmenningskjördæmi.

Áskorunin um skiftinguna er komin frá jafnaðarmönnum í Hafnarfirði. Þeir búast við að geta með þessu móti unnið þingsæti, og kann að vera, að svo sje. En sje það rjett, er jafnaðarmönnum innan kjördæmisins — en þeir eru í hæsta lagi um 1000 — ætlað að ráða öðrum þingmanninum, en öllum öðrum kjósendum kjördæmisins, sem eru á þriðja þúsund, skilin eftir ráðin yfir kosningu hins. Slík ákvörðun miðar ekki að því að bæta úr ranglæti. Hún skapar ranglæti. Jeg hlýt því að beita mjer gegn málinu, eins og það liggur fyrir, en skal hinsvegar fylgja Hafnfirðingum að inálum um sjerstakan þingmann, ef Gullbr.- og Kjósarsýslu verða trygðir tveir þingmenn eftir sem áður.

Hv. flm. (HjV) sagði, að komið hefðu fram áskoranir á mörgum þingmálafundum í Hafnarfirði um skiftinguna. Þetta er ekki rjett. Askoranirnaf eru allar runnar frá jafnaðarmönnum í Hafnarfirði, og það er fullvíst að mörg hundruð kjósenda í Hafnarfirði eru andvígir skiftingunni.

Jeg vona, að hv. deild felli frv. þegar frá nefnd, meðfrem vegna þess, að það er óhagsýni af jafnaðarmönnum að leggja höfuðáherslu á einstakar breytingar í kjördæmaskipuninni. Slíkt er aðeins til að tefja framgang þeirrar endurskoðunar, sem bráðlega ætti fram að fara.