23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í C-deild Alþingistíðinda. (2334)

62. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. minni hl. (Árni Jónsson):

Hv. meiri hl. hefir borið fram þrjár ástæður fyrir rjettmæti þessarar skiftingar. Fyrstu ástæðuna telja þeir fólksfjöldann í hjeraðinu, í öðru lagi telja þeir atvinnuhætti kaupstaðarins aðra, og í þriðja lagi segja þeir, að á bak við liggi eindregin ósk Hafnfirðinga. Um fyrstu ástæðuna er það að segja, að þar sem slík skifting hefir farið fram, hefir hún ekki verið bygð á mannfjölda, heldur á atvinnuháttum. Hv. frsm. meiri hl. (HjV) benti á Akureyri til samanburðar, og það er rjett, að á Akureyri stunda nú margir landbúnað jafnframt öðru, en svo var síður, þegar skifting fór fram. Hv. frsm. meiri hl. hjelt því fram, að því er aðra kaupstaði snertir, sem hefðu fengið sjerstakan þingmann, þá væri ekki meiri munur á atvinnuháttum þeirra og hjeraðanna heldur en hjer væri um að ræða. T. d. má benda hv. þm. á Seyðisfjörð. Þar eru atvinnuhætir að öllu leyti aðrir heldur en í sýslunni. Hv. þm. hjelt því fram, að Hafnfirðingar óskuðu eftir skiftingunni. Það getur verið, að meiri hluti Hafnfirðinga sje með þessu, en jeg hefi haldið því fram í nál. minni hl., að þessar óskir væri bundnar við sjerstakan stjórnmálaflokk, og held því fram enn. Hv. þm. (HjV) minti á ósk bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Það er rjett, að fundargerðin er undirrituð af allri bæjarstjórninni, en í henni munu jafnaðarmenn hafa tvo þriðju atkvæða. Og á fundargerðinni er ekki hægt að sjá, hvernig atkvæði hafa skifst. Út af þeim samanburði, sem hv. þm. (HjV) gerði á Akureyri og Hafnarfirði, vil jeg segja það til viðbótar því, sem jeg sagði áðan, að jeg get ekki álitið framtíð Hafnarfjarðar eins vel trygða eins og framtíð Akureyrar. Framtíð Akureyrar er trygð á innlendum atvinnurekstri, en öl! afkoma Hafnarfjarðar byggist á atvinnurekslri erlends manns, sem þaðan getur horfið, þegar minst varir.

Að endingu vil jeg segja nokkur orð út af þeim orðum hv. þm. (HjV), að þessi skifting ætti að fara fram nú strax, vegna þess,að kosningar væru fyrir dyrum. Í því sambandi vil jeg minna þm. á mál, sem jeg ber mjög fyrir brjósti, en þessi hv. þm. og flokksbræður hans hafa lagst á móti og safnað mótmælum gegn, jafnsjálfsagt og það þó er. Það er færsla kjördagsins. Hv. þm. vildi láta Hafnfirðinga njóta síns rjettar, en legst svo á móti kröfum annara uin slíka rjettarbót. Í þessu sambandi vil jeg minna hv. þm. á enska spakmælið: „Charity begins at home“, sem þýðir á íslensku eitthvað á þessa leið: góðfýsin byrjar heima fyrir.