23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í C-deild Alþingistíðinda. (2335)

62. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg hjelt satt að segja, að skifting Gullbr.- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi væri hjer til umr., en ekki færsla kjördagsins. Og jeg get sagt hv. þm. (ÁJ) það, að það eru fleiri en jafnaðarmenn á móti þeirri breytingu, þar á meðal ekki fáir flokksmenn hans. Hv. þm. (ÁJ) sagði, að ekki bæri að taka tillit til fólksfjölda, en mjer finst, að það atriði hljóti altaf að valda mestu, enda mun altaf hafa verið nokkuð tillit tekið til þess, þegar um skifting hefii verið að ræða, og jeg hygg, að Hafnarfjörður sje töluvert mannfleiri en það kjördæmi, sem hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) er fulltrúi fyrir. Hann hefir viðurkent, að Hafnarfjörður sje ekki síður sjerstæður frá sýslunni umhverfis heldur en Akureyri. Jeg skal nú taka þann kaupstaðinn, sem Hafnarfirði er líkastur, sem sje Ísafjörð. Ef ástæða hefir verið til þess, að Ísafjörður væri skilinn frá N.-Ísafjs. og gerður að sjerstöku kjördæmi, þá er ekki síður ástæða til þessarar skiftingar, sem hjer er um að ræða, og jafnvel miklu meiri ástæða um Hafnarfjörð, þar sem bátaútgerð er mikil bæði á Ísafirði og í Norður-Ísafjarðarsýslu, og því ekki ósvipaðir atvinnuhættir, en stórútgerðar gætir ekki eins mikið á Ísafirði eins og í Hafnarfirði. Hv. þm. (ÁJ) sagði, að það væri ekki hægt að sjá, hvort öll bæjarstjórn Hafnarfjarðar væri með skiftingunni, en það er víst, að aldrei hefir komið atkvæði á móti, hvorki í bæjarstjórninni nje á fundum. Þá kom þm. að því, sem er mergurinn málsins hjá minni hl., sem sje kosningunum, sem í hönd fara. Vitanlega óttast þm. það, að það mundi fara eitthvað öðruvísi en ella mundi við næstu kosningar, ef Hafnarfjörður yrði gerður að sjerstöku kjördæmi. Flokkaeigingirni hjá hv. þm. sýnir sig þarna berlega, er hann vill fótum troða rjettlátar kröfur fámenns kaupstaðar, vegna þess, að yfirgnæfandi meiri hluti hans er andstæður Íhaldi. En þó vona jeg, að slík hugsun verði ekki ofan á. Íhaldsmenn á þingi játa það, að Hafnarfjörður ætti að vera sjerstakt kjördæmi.