23.03.1927
Neðri deild: 37. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (2336)

62. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. minni hl. (Árni Jónsson):

Hv. frsm. meiri hl. (HjV) undirstrikaði, að taka bæri tillit til fólksfjölda. Það er rjett, að fram hjá því má ekki ganga. En útkoman verður samt ekki honum í vil. Í Gullbringu- og Kjósarsýslu eru 3000 kjósendur, en meðmæli með skiftingunni hafa komið frá 7–8 hundruð manns. Það er þá um ¼ kjósenda, sem hjer er um að ræða. Hinsvegar hafa komið skýlaus mótmæli gegn skiftingunni frá sýslunefnd, sem telja verður í þessu efni fulltrúa kjósenda kjördæmisins utan Hafnarfjarðar. Og auk þess munu Hafnfirðingar, að undanskildum þessum 7–800, andvígir skiftingunni. Því væri hersýnilega framið langlæti, ef farið væri eftir kröfum l/4 kjósenda gegn vilja ¾ þeirra. — Hv. þm. (HjV) mintist á Ísafjörð. Jeg skal benda honum á, að þegar hann var gerður að sjerstöku kjördæmi, var honum bætt við. Hjer er um að ræða skifting kjördæmis, svo að þetta er tvent ólíkt. En jeg held, að hv. þm. (HjV) vilji ekki auka við tölu þingmanna.

Um afstöðu bæjarfulltrúanna í Hafnarfirði til þessarar skiftingar verður ekki annað sjeð af útdrætti gerðabókarinnar, sem fyrir liggur, en að hún hefir verið samþykt með einföldum meiri hluta. Hitt sjest ekki, hvort allir hafa greitt atkvæði. En jeg man ekki betur en að hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) hafi skýrt frá því í umræðunum, að sumir af bæjarfulltrúunum í Hafnarfirði væru móti skiftingunni.