29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (2343)

62. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. meiri hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Þessi ræða hv. frsm. (ÁJ) kemur mjer yfirleitt mjög undarlega fyrir sjónir. Hv. þm. (ÁJ) er sem sagt að lýsa stefnu Framsóknarflokksins, og er þó sjálfur Íhaldsmaður. Framsóknarflokkurinn hefir svo mörgum þm. á að skipa í þessari hv. deild, að þeir gætu sjálfir, ef þeir óskuðu, tekið til máls, til þess að ræða um stefnu flokks síns, og mundu síst fela það starf hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), enda má varla búast við því, að hann færi rjett með þau mál, Auk þessa eru ástæður þær, sem hann færði fram gegn skiftingunni, algerlega rangar. Í Gullbr.- og Kjósarsýslu er atvinnan bæði til landvers og skers, bæði um smáútgerð og landbúnað að ræða, venjulega í sameiningu, og því beggja hagsmuna að gæta. Og hvað snertir vilja hjeraðsbúa hjelt hv. þm. (ÁJ) því fram, að það væri ekki nema um 7–8 hundruð kjósenda, sem hefðu samþykt áskoranir um breytingar. Ef það er rjett hjá hv. þm., þá er jafnrjett að álykta, að ekki sjeu á móti nema þessir 2 þm. sýslunnar, auk 4–5 manna í sýslunefnd, og verður þá samtals æði mikill atkvæðamunur.