29.03.1927
Neðri deild: 41. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2345)

62. mál, skipting Gullbringu- og Kjósarsýslu í tvö kjördæmi

Frsm. minni hl. (Árni Jónsson):

Hv. sessunautur minn, 4. þm. Reykv., var að tala um það, að það sæti ekki á mjer að tala um stefnu Framsóknarflokksins. Skal það einnig fúslega játað, að honum stendur nær en mjer að gerast forsvarsmaður bandamanna sinna. En jeg var ekki að tala um þetta frá sjónarmiði flokksins, heldur vildi jeg benda á ósamræmið milli kenninga hans og breytni. Eftir ýmsu að dæma virðist lítið mega marka kenningar þessara manna, en skrifað stendur: „Af ávöxtunum skuluð þjer þekkja þá.“

Hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að bændur mundu njóta sín betur, ef af skiftingunni yrði, og vil jeg þá benda á það, að sýslunefnd Gullbr.- og Kjósarsýslu, sem er skipuð bændum, hefir lagt ákveðið á móti þesari breytingu. Jeg er hræddur um það, að Framsóknarmenn verði í töluverðu ósamræmi við bændur þessa hjeraðs, ef þeir ætla nú enn að standa á sama grundvelli og þeir stóðu við síðustu umr. þessa máls. — Það hefir verið sagt, að þegar Framsókn og Alþýðuflokkurinn bræddu sig saman í haust, þá hafi það verið tilskilið í 13. gr. samningsins, að Framsókn skyldi fylgja fram þessari skiftingu, og ef úr því verður, að hún gangi í gegn, á það víst að vera uppfylling þessarar 13. gr.