01.03.1927
Neðri deild: 18. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í C-deild Alþingistíðinda. (2354)

44. mál, yfirsetukvennalög

Flm. (Jakob Möller):

Jeg hefi ekki ástæðu til að svara hv. þm. Barð. (HK) mörgum orðum; hann tók ekki svo illa í málið, að þess sje beinlínis þörf.

Háttv. þm. viðurkendi, að ráðstafanir þessarar deildar í fyrra hefðu ekki komið að tilætluðum notum, því að sýslufjelögin mundu yfirleitt ekki hafa talið sjer skylt að greiða dýrtíðaruppbót af sínum hluta launanna, og vildi bæta úr því á þann hátt, að fela nefnd þeirri, sem fær málið til meðferðar, að gera sýslufjelögunum skylt að greiða dýrtíðaruppbót að sínu leyti af laununum. En það er alls ekki hægt á þann hátt, því að hvorki stjórnin nje þessi hv. deild hafa vald til slíks; til þess þarf lög frá Alþingi.

Þá vildi hann ekki gera mikið úr ljósmæðraskortinum, og hjelt því fram, að hann myndi síst stafa af of lágum launum, og studdi mál sitt með því, að mörg læknishjeruð væru óveitt eða læknislaus, enda þótt launin væru góð. En þetta er bara út í loftið hjá háttv. þm. Laus læknishjeruð eru ekki nærri eins mörg og laus yfirsetukvennaumdæmi, og það stendur í beinu sambandi við launakjörin. Laun lækna eru líka fólgin í aukavinnu, því að þangað sem lítill „praxis“ er, fást læknar ógjarnan, enda þótt föstu launin sjeu sæmileg.

Þá skildist mjer hv. þm. (HK) vilja draga úr því, að hjer væri um mikla óánægju að ræða meðal ljósmæðra, og vildi gefa í skyn, að stjórn Ljósmæðrafjelagsins rjeri undir og fengi ljósmæðurnar úti á landi til þess að samþykkja launakröfurnar. En ætli þá, að það geti ekki verið, að Ljósmæðrafjelagið hafi í höndum þau gögn, sem ekki verður í móti mælt, að óveittum yfirsetukvennaumdæmum fjölgar, að námsmeyjum við ljósmæðraskólann fækkar og að farið er að skipa ólærðar ljósmæður í umdæmin. Hjer stefnir því beint til hins fyrra ástands: aukins dauða sængurkvenna og barna. — Þökk sje því Ljósmæðrafjelaginu fyrir að hreyfa þessu máli.