13.04.1927
Neðri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (2363)

44. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Hv. frsm. minni hl. (HStef) segir enn, að engin sönnun sje fyrir því, að launakjörin valdi skorti á ljósmæðrum. Jeg verð að halda því fram, að það sje hans, að benda á einhverja skynsamlega ástæðu aðra, sem hjer geti verið um að ræða, því að það er almenn regla, þegar menn fást ekki til að gegna einhverju starfi, að þeim þykir það ekki nógu vel launað. Jeg þykist því hafa gert fulla grein fyrir ljósmæðraskortinum með því að benda á launakjörin.

Þá sagði hv. þm., að ekki væri hægt að greiða fullkomin framfærslulaun fyrir það, sem ekki væru full störf. Eftir þessu frv. eiga byrjunarlaun ljósmæðra að vera 300 kr. og hækka upp í 500 kr. í hinum minstu hjeruðum. Hver framfærir sig fyrir þá upphæð? Hjer er alls ekki verið að fara fram á nein framfærslulaun handa ljósmæðrum, heldur aðeins lítilsháttar hækkun á þeirri þóknun, sem telja má viðurkent, að sje alt of lág og er svo lág, að ekki fást nógu margar hæfar konur til að gegna störfunum. Hv. frsm. minni hl. (HStef) sagði, að ljósmæður gætu ráðið sig til allrar algengrar vinnu, með ýmsum skilyrðum þó. En af þessum skilyrðum leiðir lægra kaup fyrir konurnar. Þá sagði hann, að þetta frv., mætti taka til athugunar í sambandi við þál.-till. um launabót handa starfsmönnum ríkisins. Þetta er misskilningur hjá honum. Á þessu er ekki hægt að láða bót með slíkri bráðabirgðaráðstöfun. Hjer þarf að gera eitthvað, sem hægt er að reiða sig á til frambúðar; annars kemur það ekki að neinu gagni. Það er ekki hægt að búast við því, að menn velji sjer lífsstöðu, sem svo er óvíst um, hver kjör fylgja. Sama er að segja um „umbæturnar“, sem gerðar voru á síðasta þingi, með því að heimila landsstjórninni að greiða dýrtíðaruppbót af sínum hluta af launum ljósmæðra og skora á sýslunefndir að gera hið sama. Auk þess sem þetta er mjög óverulegt, hvílir það alveg í lausu lofti, og er ómögulegt að reiða sig á það til frambúðar. Jeg sje enga ástæðu til að láta það fæla sig frá að afgreiða þetta mál sómasamlega, að það muni draga þann dilk á eftir sjer, að aðrir opinberir starfsmenn heimti launabætur. Kjör ljósmæðra eru ekki sambærileg kjörum neinna annara opinberra starfsmanna. Það sjest á því, sem jeg hefi áður nefnt, að ekki fást nógu margar stúlkur til að taka að sjer ljósmóðurstörf. Jafnvel þótt læknar, prestar, sýslumenn og fleiri kvarti undan ljelegum launakjörum, er víst erfitt að benda á það, að ekki fáist nógir menn í allar stöðurnar. Ef það t. d. kæmi fyrir, að læknishjeruð væru laus tímanum saman og þeim færi altaf fjölgandi, en slíku er hjer ekki til að dreifa, þá væri lítill vafi á því, að laun hjeraðslækna væru of lág, og væri jeg þá manna fúsastur til að styðja að hækkun þeirra.