13.04.1927
Neðri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (2366)

44. mál, yfirsetukvennalög

Frsm. meiri hl. (Jakob Möller):

Mjer skildist, að hv. þm. Barð. (HK) legði mest upp úr því, hve mikla hækkun á launum ljósmæðra væri farið fram á í bæjunum. En jeg vildi vekja athygli á því, að það kemur ekki ríkissjóði að neinu leyti við. Hinsvegar vil jeg benda á, að þessu áliti meiri hl. fylgja þrír þingmenn fyrir kaupstaði, og fleiri kaupstaðarþingmenn eru ekki í nefndinni. En þar sem hv. þm. (HK) hefir líka talað um þetta sem svo gífurlega hækkun á lægstu ljósmæðralaunum, þá vil jeg vekja athygli hv. þm. (HK) á því, að lágmarkið er hækað úr 200 kr. upp í 300, en hámarkið úr 375 kr. upp í 500 kr. (HK: Hv. frsm. meiri hl. gleymir víst hinni árlegu hækkun). Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. (HK) tali um þetta, af því að það þurfi að bæta kjörin eitthvað, en mjög mikill munur verður þó ekki á hans launaákvæðum, ef hann ætlar að hafa hækkunina nokkra, því að hækkunin er ekki nema þetta, sem jeg nú hefi sagt.

Þeir vilja báðir, hv. frsm. minni hl. (HStef) og hv. þm. Barð. (HK), koma því á okkur meirihlutamenn, að færa sönnur fyrir því, að það geti ekki verið neitt annað en launakjörin, sem valdi ljósmæðraskortinum. Jeg vísa aðeins til þess, sem algengast er í þessu efni. Hvað er það, sem veldur því, að hv. þm. Barð. (HK) getur ekki fengið kaupamann eða vinnumann? Það er aðeins það, að hv. þm. getur ekki borgað eins hátt kaup og menn geta fengið annarsstaðar, og hvers vegna ætti það að vera annað en þetta almenna lögmál, sem ræður hjer? Annars talaði hv. þm. (HK) um einhverjar ástæður, sem væru bygðar á hans besta kunnugleika. En hvers vegna skýrir hv. þm. (HK) þá ekki frá þessum ástæðum sínum, ef þær eru nokkrar?

Hv. frsm. minni hl. (HStef) sagði, að minni hl. hefði bent á aðrar ástæður. En hverjar eru þær? Ef það er sú málfærsla, sem höfð hefir verið í þessu máli, sem hv. þm. (HStef) á við, þá vil jeg benda á, hver hún er. Hún er það, að launakjörin sjeu of lág. Og hver ástæða er þá önnur? Hún er engin, því að þá hefði málfærslan verið eitthvað öðruvísi. En mjer er ekki kunnugt um, að það hafi verið reynt að sýna fram á annað í þessu máli en að launkjörin væru of lág.

Þá sagði hv. frsm. minni hl. (HStef), að kvartanirnar um skort á ljósmæðrum væru ekki komnar frá hjeruðunum. Þetta má vel vera. En jeg vil benda á, að umbætur í þessu efni eru ekki komnar fyrir kröfur frá hjeruðunum. Þær eru fyrst og fremst komnar fyrir kröfur frá læknum, sem manna best vita, hvað slíkir hlutir sem þessir hafa að þýða fyrir heilbrigði manna. Það er alls ekki von, að slíkt komi frá almenningi, sem ekki hefir búið við betra áður. Það eðlilega er, að kröfurnar komi frá læknastjettinni, og það er líka þaðan, sem þær komu upphaflega, og alveg eins er nú. Þar sem sú verður raunin á, að ljósmæðraskorturinn fer vaxandi, þá koma kvartanirnar frá þeim, sem börðust fyrir umbótum á þessu sviði. Og það getur hver og einn fullvissað sig um, að þeir, sem berjast fyrir þessu máli, sjá best hvar hættan er.