18.02.1927
Neðri deild: 9. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í C-deild Alþingistíðinda. (2371)

32. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Halldór Stefánsson):

Jeg þarf ekki að láta langan formála fylgja þessu litla frv. um breytingu á kosningalögunum, sem við þm. N.-M. berum fram á þskj. 32. Sama till. hefir komið fram á tveim þingum nýverið, og saga málsins mun þm. í fersku minni. Jeg skal því aðeins drepa stuttlega á almennar ástæður, sem telja verður, að mæli með þessu frv.

Með hinum almenna kosningarrjetti er talið, að þjóðunum sje gefið stjórnskipulegt frelsi og rjettur yfir málum sínum, og þar með ábyrgð á stjórnarfarinu. Þessa valds neyta þær með þátttöku í vali fulltrúa til þjóðþinganna. Það liggur í hlutarins eðli, að ekki má vefja kosningarjettinn í þær umbúðir, sem hefta notkun hans. Það má ekki skipa svo til, að ósjálfráð atvik megi hindra það, að menn fái neytt þessa rjettar. Ef ekki er fyrir því sjeð, er tekið með annari hendi, það sem gefið er með hinni. Það má segja, að þetta sje gert í kosningalögunum, með því að setja kjördaginn fyrsta vetrardag. Náttúrufar landsins er þannig, að það setur oft sífeldar hindranir á alla umferð að haustinu, torfær vötn, snjó, illviðri, svo að fjöldi manna fær ekki neytt kosningarrjettar síns, þótt vildu. Fyrir þessu fjekst reynsla næstliðið haust, sumstaðar á landinu. Er mönnum það í fersku minni, og þarf ekki um það að fjölyrða. Af þessari reynslu í haust hafa enn risið upp háværar kröfur um færslu kjördagsins, eins og sjá má í mörgum þingmálafundargerðum. Og þessar kröfur eru ekki aðeins bornar fram af þeim, sem harðast urðu úti í haust, heldur er það orðið alment álit, sprottið af rjettarmeðvitund og rjettlætistilfinningu, að ófært sje að setja kjördaginn á þeim tíma, sem ytri ástæður geta hamlað kjörsókn. Ekkert annað en eiginn vilji, eða viljaleysi, ætti að þurfa að ráða um það, hvort menn neyta kosningarrjettarins eða ekki. Við það er ekki hægt að una, að menn vilji nota kosningarrjett sinn, en fái ekki komið því við, vegna ytri hindrana. Eins og til hagar hjer, er ekki auðvelt að komast hjá þessum ytri hömlum að öllu, en það verður að setja kjördag á þeim árstíma, sem minstar líkur eru til, að veðrátta og aðrar ósjálfráðar ástæður hamli kjörsókn. Og það verður tæplega öðruvísi betur gert en með því, að setja hann á þeim tíma, þegar dagar eru sem lengstir og veðrátta best.

Við hefðum gjarnan viljað bera fram fleiri till. um breytingar á kosningalögunum, en þótti ráðlegra að gera það ekki að þessu sinni, ef það kynni að verða því til hindrunar, að þessi breyting, sem við teljum mestu varða, næði fram að ganga. En ef nefnd eða aðrir þingmenn vilja bera fram breytingar, sem samrýmanlegar eru aðaltilgangi þessa frv., munum við taka þeim vel.

Jeg leyfi mjer að leggja til, að frv. verði vísað til allshn.