18.02.1927
Neðri deild: 9. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (2372)

32. mál, kosningar til Alþingis

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg sje ekki ástæðu til, að þetta frv. nái fram að ganga fremur nú en áður. Það er sagt, að bændur yfirleitt eigi hægra með að sækja kjörfund 1. júlí heldur en 1. vetrardag. En landskjörin síðustu sýna, að bændur hafa kosið eins vel 1. vetrardag og 1. júlí. Það virðist benda á, að þeim sje ekki miklu hagfeldari kjörsókn að vorinu.

Hv. deild er kunnugt, að áður, þegar slík frv. sem þetta hafa komið hjer fram, hafa mótmæli borist víðsvegar að, sjerstaklega frá sjómönnum og verkamönnum. Það er kunnugt, að sjómenn og verkamenn eru margir fjarri heimilum sínum í júlíbyrjun og eiga því óhægt um kjörsókn. Ef hv. deild sýnist að samþ. þetta frv., þá nær ekki nokkurri átt að hafa aðeins einn kjördag eins og hjer er ráð fyrir gert. Með því væri aðeins flutt óhagræði af bændum, ef nokkurt er, yfir á verkalýðinn. En jeg get ekki sjeð neina sanngirni í því, að varna verkamönnum og sjómönnum að nota kosningarrjett sinn.