18.02.1927
Neðri deild: 9. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í C-deild Alþingistíðinda. (2373)

32. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Halldór Stefánsson):

Ástæður þær, sem hv. 4. þm. Reykv. (HjV) nefndi gegn frv., hafa áður komið fram og áður verið hrundið. Aðalástæðan er sú, að þótt breytt sje kjördegi sveitamönnum í hag, komi óþægindin niður á öðrum kjósendum. Þessar mótbárur hafa við engin rök að styðjast. Þótt sjómenn sjeu fjarstaddir heimili sínu kosningardaginn, eiga þeir auðvelt með að neyta rjettar síns. Ef þeir fara ekki að heiman fyr en framboðsfrestur er útrunninn, geta þeir kosið áður en þeir fara. Og þótt þeir hafi ekki gert það, og sjeu þó fjarverandi, geta þeir kosið á þeim kjörstað, sem næstur er, ef þeir eru staddir innan síns kjördæmis. En sjeu þeir utan síns kjördæmis, á skipum úti, eða hvar sem er á landi, geta þeir kosið skriflega og sent atkvæðin heim. Það væri kannske ástæða til að lengja eitthvað talningarfrestinn, til frekari tryggingar því, að skrifleg atkvæði geti verið komin á kjörstað í tíma. Aðaláhersluna verður að leggja á það, að ytri, ósjálfráðar ástæður varni mönnum ekki að neyta kosningarrjettar síns. Ef menn hinsvegar hafa ekki nægan áhuga til þess að kjósa, er ekkert við því að segja, og jeg tel rjett, að menn fengju að vera sem hlutlausastir um það, hvort þeir neyta atkvæðisrjettar síns eða ekki.