19.04.1927
Neðri deild: 55. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í C-deild Alþingistíðinda. (2383)

32. mál, kosningar til Alþingis

Jörundur Brynjólfsson:

Út af því, sem hv. 1. þm. Árn. (MT) sagði um það, að frsm. meiri hl. sje fjarverandi, þá skal jeg lýsa yfir því, að það verður sjeð um framsögu í málinu alt að einu. Hv. frsm. (ÁJ) er veikur, og er ekki gott að segja, hvenær hann kemur, svo að það er ekki eftir honum að bíða. En það, sem hv. þm. (MT) sagði um veikindi hjá hv. frsm. minni hl. (HjV), þá veit jeg, að því miður hefir verið svo ástatt. En þótt þau forföll hans sjeu leiðinleg, þá mega þau ekki verða til þess, að mál lognist útaf í þinginu. Viðvíkjandi því atriði, að ekki sje venja að taka mál á dagskrá, á meðan báðir nefndarhlutar hafa ekki skilað áliti sínu, skal jeg benda á það, að fyrir fáum dögum kom það fyrir, að mál var tekið fyrir og afgreitt, án þess að minni hl. nefndar, sem um það fjallaði, hefði skilað áliti.