20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (2393)

32. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Það er nú svo um afkomendur Haukdæla og Oddaverja, að frá þeim hafa einmitt komið mótmæli gegn færslu kjördags og framkomu hátt. þm. (JörB). Það komu mótmæli bæði frá Eyrarbakka og Stokkseyri, en aftur á móti ekki samskonar áskoranir um færslu. (KlJ: Það var alt pantað!) Ekkert hefir stoðað að panta áskoranir.

Jeg hefi nú ekki heyrt forvígismenn þessa frv. tala um það, af hvaða ástæðum bændur hefðu ekki sótt landskjörið í sumar betur en raun varð á. Það sýndi sig, að þeir kusu ver í sumar en í haust. Það er ekki veðráttan 1. vetrardag, sem hamlar þá sókn bænda, heldur einmitt annríkið 1. júlí.

Jeg veit, að háttv. 2. þm. Árn. (JörB) er vel kunnugt um það, að bændur eru oft lengri tíma að heiman en þegar þeir fara á kjörfund, t. d. bændaþm., sem sitja langan tíma á þingi, eða þegar kaupstaðaferðir standa yfir, eða þeir eru við niðurjöfnun útsvara. Er þetta því ekki gild mótbára hjá honum. Kosningarnar undanfarandi ár hafa ekki sýnt, að þátttaka bænda mundi batna, þó að kosið yrði 1. júlí.

Aðrar ástæður hafa ekki komið fram gegn máli mínu, og get jeg því hætt.