04.05.1927
Efri deild: 65. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (2412)

29. mál, bæjarstjórn á Norðfirði

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hv. 5. landsk. (JBald) byrjaði á því, að segja, að engin rök hefðu komið fram frá nefndinni. það lítur helst út fyrir, að hann hafi ekki haft tíma til þess að lesa nál., því að þar eru færð fram rök fyrir því, hvers vegna nefndin leggur á móti frv. Þar að auki má vitna til þeirra ástæðna, sem færðar voru fram gegn þessu máli hjer í þinginu í fyrra. Svo byrjaði hv. þm. (JBald) á að tala um, hvað það væri bráðnauðsynlegt fyrir kauptúnið, að fá sjerstaka bæjarstjórn og losna við hið úrelta og möljetna sveitarstjórnarfyrirkomulag, sem þar væri nú. Mjer finst nú satt að segja, að sveitarstjórnarfyrirkomulag ætti að vera líkt þar og annarsstaðar, hvorki úreltara nje möljetnara. En jeg hygg, að hv. flm. (IP) hafi komið þessum möl í hv. þm. (JBald), þegar hann var að lýsa þrifnaðarástandinu í þorpinu.

Hv. þm. sagði, að það væri almannarómur, að málið væri gott. Nefndin er nú svo sanngjörn, að hún getur fallist á það, að það gætu orðið þægindi að því, í bili að minsta kosti, fyrir Norðfjörð, að fá bæjarstjórn, en hitt er miklu fleira, sem mælir í móti því, t. d. það, að um leið þyrfti að stofna nýtt, dýrt embætti á ríkissjóðs kostnað; auk þess mundu mikið hækka gjöld þorpsbúa til stjórnar sveitarmálefna sinna, og svo yrði það sýslufjelaginu til stórtjóns, að missa efnaðasta og stærsta hreppinn út úr sýslufjelaginu.