26.04.1927
Neðri deild: 59. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (2419)

61. mál, mat á heyi

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Álit landbn. um frv. þetta liggur fyrir á þskj. 388. Hefir nefndin fallist á að afgreiða það til deildarinnar með þeim forsendum, sem þar segir.

Í raun og veru fanst nefndinni ekki brýn ástæða fyrir frv. þessu, eins og nú stendur, en gat þó fallist á það, með það fyrir augum, að bráðlega geti orðið þörf á slíkum lögum, vegna vaxandi innanlandsviðskifta með hey. En þar sem viðskiftaaðstaðan getur verið mjög margvísleg, og varan svo breytileg eftir tegund, kyngæðum heysins o. fl., þá er ekki hægt að taka fram í lögum nægilega ítarleg ákvæði þar um, þess vegna fanst nefndinni rjett, ef frv. verður að lögum, að heimila stjórninni að gefa út reglugerð á grundvelli laganna og setja þar í reglur og ákvæði, sem reynslan bendir til að þörf sje á.

Þá fanst nefndinni óþarft að gera ráð fyrir yfirmatsmanni, enda er lítið verksvið hans eftir frv., og nægur tími þá að skipa hann, ef reynslan krefðist þess. Þess vegna leggur nefndin til, að feld sjeu niður úr frv. þau ákvæði, sem þar að lúta.

Þá sýndist nefndinni, að oft gæti viljað til, að eitt mat dygði ekki, ef ekki er metið á sölustað. Í frv. er gert ráð fyrir, að matið verði í mörgum tilfellum framkvæmt, þegar varan er afhent til flutnings. En hey er þannig vara, að það getur skemst bæði við geymslu og flutning eða við útskipun. Það þolir ekki vatn, þá skemmist það og rýrnar. Sýnist því þörf á að gera ráð fyrir endurmati, að minsta kosti í sumum tilfellum. Hinsvegar væri hætt við, að rjettur seljandi væri ekki nógu vel trygður í slíkum tilfellum, ef aðeins væri metið, þegar varan er afhent. Brtt. nefndarinnar lúta að þessu, en að öðru leyti eru þær orðabreytingar, sem lúta einnig að þessum atriðum.