10.05.1927
Efri deild: 70. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (2429)

61. mál, mat á heyi

Einar Árnason:

Jeg held, að það þýði lítið að taka til máls, því að mjer virðist svo, eftir því sem er að sjá yfir deildina, að menn hafi lítinn áhuga fyrir þessu máli, þar sem flestir eru á brott hlaupnir, svo að varla sjest maður eftir. Og satt að segja undrar mig það ekki, því að jeg sje ekki, að frv. þetta eigi mikið erindi. Jeg sje enga knýjandi þörf að setja lög um þetta efni, og hvað frv. sjálft snertir, þá sje jeg ekki, að það nái tilgangi sínum, enda mun erfitt að búa svo um þessi mál, að það verði ekki öðrum til ógagns, sem einum má að gagni verða.

Fyrir 10 árum komu fram sterkar raddir um það, að leiða í lög mat á kjarnfóðri innanlands. Þetta var, að mig minnir, á þinginu 1917, en þá þótti ekki fært að setja lög um það, nema athuga málið fyrst milli þinga, og var Búnaðarfjelagi Íslands falinn undirbúningurinn. Lá svo málið niðri, þar til fyrir 6 árum, að það kom aftur til tals í þinginu, og voru þá afgreidd lög, sem áttu að grípa inn á þetta svið, því ekki þótti fært að setja lög um mat á þessum vörum, og heita lögin því „lög um verslun með tilbúinn áburð og kjarnfóður“. Hafa lög þessi aldrei verið notuð, heldur legið eins og hvert annað dautt pappírsgagn, og fari svo, að frv. þetta verði að lögum, þá býst jeg við, að það verði annað pappírsgagnið til.

Það er talað hjer um heymatsmenn, en ómögulegt er að sjá, hve margir þeir eiga að vera á landinu. En eigi þeir að vera til að tryggja heysöluna, þá þurfa þeir að vera afarmargir, að minsta kosti einn í hverjum hreppi, og jeg efa stórlega að það dugi, því að heysalan fer oft fram á sama tíma á mörgum stöðum í sama hreppnum; getur því einn maður ekki verið á öllum stöðunum til að meta. Því síður geta þeir fullnægt 5. gr. frv., þar sem segir, að þeim sje skylt að vinna að heybindingu eða öðrum umbúningi heysins. Þá er ekki gert ráð fyrir, að menn þessir sjeu launaðir af því opinbera, heldur eiga seljendur heysins að greiða þeim kaupið. Finst mjer þetta því geta orðið til þess, að þarna komi nýir milliliðir, sem stingi í sinn vasa nokkru af heyverðinu. Mun því fara svo, að annaðhvort fá seljendur minna fyrir vöru sína, eða kaupendur verða að greiða meira fyrir hana en ella.

Jeg held, að það gæti orðið erfitt og dýrt að meta alt, sem gengur kaupum og sölum innanlands. Það mundi ekki skapa fáa milliliði. Hjer á landi ganga manneldisvörur kaupum og sölum ómetnar. Maður skyldi þó ætla, að ekki væri síður nauðsynlegt að meta hollustu þeirra og gæði en fóður handa búpeningi.

Þá talaði hv. frsm. (IP) um, að þeir menn sem keyptu hey úr fjarlægum stöðum, hefðu enga tryggingu fyrir því, að það væri gott. Þetta er rjett. Þeir geta enga tryggingu haft, hvað það snertir, nema því aðeins, að þeir hafi trúnaðarmenn á staðnum, til þess að líta eftir hvernig varan er, og á þann hátt held jeg að kaupendur trygðu sig best. Enda verður ekki sjeð eftir frv., að þessir heymatsmenn verði skipaðir alstaðar á landinu, því að í frv. stendur aðeins, að lögreglustjóri skipi þá eftir óskum heysölumanna eða formanns heysölufjelaga. En sjeu þessar óskir ekki fyrir hendi, þá er óvíst, og meira að segja engar líkur til þess, að lögreglustjóri geri það. Ef þessir heymatsmenn eiga að vinna að því, að ekkert hey sje selt, án þess að það sje metið, þá yrði starfið erfitt og kostnaðarsamt fyrir þá, sem lítið hey selja, t. d. 2–300 pund, því að svo lítið er oft selt manna á milli. Annars veit jeg ekki um það, að til sjeu heysölufjelög, sem selja hey í stórum stíl.

Læt jeg svo útrætt um þetta mál að sinni. Mjer er það ekkert kappsmál, hvort það verður samþykt eða ekki. Jeg tel það hjegóma, og get því ekki greitt því atkvæði mitt.