10.05.1927
Efri deild: 70. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (2430)

61. mál, mat á heyi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þeir tveir háttv. ræðumenn, sem síðast töluðu, eiga fleira sammerkt en nafnið. Báðir telja þeir frv. þetta hjegóma, en báðir telja þeir mat á vörum, sem fluttar eru út, nauðsynlegt. (EÁ: Við höfum aldrei sagt það). Jú, víst sögðu háttv. þm. það, en vilji þeir ekki kannast við það, þá þætti mjer vænt um, ef þeir vildu færa rök að því, að alt mat væri óþarfi. Og sjerstaklega þætti mjer gaman að heyra formann Kaupfjelags Eyfirðinga (EA) færa sönnur á, að t. d. kjötmatið væri óþarft.

Háttv. 2. þm. Rang. (EJ) hjelt því fram, að heymatið mundi draga úr verði vörunnar. Um það skal jeg ekkert fullyrða, en jeg vil skírskota til reynslunnar um mat á öðrum vörum, hvort hún sýni það, að matið hafi yfirleitt orðið til þess, að lækka verðið. Jeg held, að mjer sje óhætt að fullyrða, að heysalan verði ekki umfangsmeiri en fisksala og matið ekki margbrotnara. Nú er t. d. ekki í neinum stað, nema Reykjavík, fleiri en tveir fiskimatsmenn.

Það sem hv. þm. sagði um efnarannsókn á heyi, þá er það ekki annað en skraf út í hött. Það fer engin efnarannsókn fram á öðrum vörum, þótt metnar sjeu. Enda þarf þess ekki með um hey. En þar sem hv. þm. (EJ) mintist á mýrarvömb og haglendisvömb, þá sýnir það, að hann veit hjer meira en hann vill vera láta, að hann veit vel hver aðgreining á að vera á heyi, enda liggur það í augum uppi, að ekki er sama, hvort heyið er úr mýrum eða valllendi, hvort það er kúahey, kindahey eða hestahey. Flestir bændur eru færir um að dæma þar í milli, og þeim er líka trúandi til að dæma um, hvort heyið hefir verið þurkað á tveim dögum eða hefir hrakist í viku, hálfan mánuð eða lengur. Til þess að sjá þetta, þarf ekki neina efnarannsókn. Ástæðurnar, sem hv. þm. eru að reyna að bera fram gegn frv., eru í raun og veru engar ástæður. Þeir eru að leita að ástæðum, en finna þær ekki og geta ekki fundið. Þeir hafa báðir mjög gott vit á heyi, og þeir vita líka, að þetta er ofur einfalt mál. Þeir segja, að frv. sje óþarft, en þó urðu þeir að viðurkenna, að heykaup væru ekki trygg eins og nú er. Þessi trygging, sem nú á að útvega heykaupendum, er mjög auðveld og ekki tilkostnaðarmikil. Jeg hygg það væri hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), sem sagði það, að annaðtveggja yrði heyið kaupöndum dýrara, eða þá að seljendur fengju það minna fyrir það, sem matskostnaði næmi. En það er engin hætta á, að matskostnaður geti haft þau áhrif á heyverðið, að neinu nemi.

Þá komst hv. 1. þm. Eyf. inn á það, að reyna að sanna, að málið væri óþarft, og byrjaði á því, að hann mintist á mál, sem hafði verið fyrir þinginu fyrir nokkrum árum, og hann nefndi kjarnfóðursmál. Vildi hann sýna og sanna með meðferð þess máls, að hjer þyrfti meiri undirbúning. Það er nú að vísu satt, að málið hefir ekki fengið annan undirbúning en meðferðina nú í þinginu. En ef það er hjegómamál, eins og hv. þm. halda fram, þá er undarlegt, að þeir skuli álíta, að það þurfi að rannsaka það gaumgæfilega milli þinga. Þetta sýnir, að þeir álíta málið meira virði en þeir vilja láta í ljós. En þótt þetta sje gott mál og þarft, þá er það ekki svo umfangsmikið, að þingið þurfi að vísa því til Búnaðarfjelagsins til álits og umsagnar. Þó get jeg skilið afstöðu hv. þm. um það, ef þeir álíta málið mjög mikils virði, en það kemur óneitanlega í mótsögn við það, sem þeir reyna að halda fram.

Jeg hefi áður svarað því, er hv. þm. sögðu um það, að matsmenn þyrftu að vera á fleirum stað en einum í senn. Það er óþarfi að gera ráð fyrir því, að heymatsmenn þurfi að vera gæddir yfirnáttúrlegum hæfileikum eða ófreskisgáfu. Hver meðalgreindur maður, sem þekkir nokkuð til heyskapar, getur leyst starfið af hendi.

Þá kom hv. 1. þm. Eyf. (EA) að því, að ekki væri meiri þörf á því að meta hey heldur en innlendar manneldisvörur. Já, það er alveg rjett. Jeg er viss um, að margir læknar mundu ekki telja það neitt óráð, þótt fyrirskipað væri mat á innlendum matvælum. Jeg veit ekki betur en að hverjum kindarskrokk, sem út úr landinu fer, þurfi að fylgja matsvottorð, því að útlendingar eru svo kröfuharðir, að þeir vilja ekki láta bjóða sjer pestarkjöt eða horkjöt. En við erum kærulausari með þær vörur, sem seldar eru innanlands, heldur en hinar, sem seldar eru til útlanda, því að við erum blátt áfram til þess knúðir, að meta þær, sem til útlanda eru seldar; annars væru þær ekki seljanlegar. Það getur þó ekki reiknast sem galli á þessu frv., að við höfum vanrækt eftirlit með öðrum vörum.

Þá gat hv. 1. þm. Eyf. (EA) þess, að svo gæti farið, að í ýmsum sveitum, sem seldu mikið hey, yrði ekki skipaður matsmaður. Jeg skal ekkert um það segja, en jeg býst við því, eftir framkomu þessara tveggja hv. þm.hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) mundi ekki líklegur að hvetja til þess, að skipaðir yrðu matsmenn í Eyjafirði, nje hv. 2. þm. Rang. (EJ) 6 Rangárvallasýslu. En ef frv. verður að lögum, verður þess áreiðanlega ekki langt að bíða, að það verði að setja matsmenn alstaðar þar sem hey er selt, því að ella vill enginn kaupa hey frá þeim stöðum. Þetta sannar það, að frv. er nauðsynlegt og þarft. Þegar lögin eru komin í gildi, mun það jafnan verða fyrsta spurning kaupanda, hvort matsvottorð fylgi heyinu. „Já“, segir seljandi, „og það er taða af túni í góðri rækt, þurkað á 3 dögum“ „Jeg kaupi hana undir eins“, segir kaupandi. En svo er annar seljandi, sem líka hefir töðu á boðstólum, en samkvæmt matsvottorði er hún af túni í slæmri rækt og hefir legið 3 vikur. Við henni vill enginn líta, á meðan kostur er annars. Þetta er nú allur galdurinn. Hann liggur í því, að menn fái að vita, hvað þeir eru að kaupa, því að þeim er það ekki nóg, að heyið heiti taða, heldur þurfa þeir líka að fá að vita, hvernig taða það er. Og þó þykjast þeir hv. þm., sem hafa verið við heyskap í 30 ár, ekki geta skilið þetta, og halda, að það þurfi að setja upp efnafræðisstofnun til þess að hægt sje að meta heyið. Það er ekki annað en barnaskapur eða annað verra. Jeg er að vísu ekki vanur heyskap, en þó treysti jeg mjer til að leysa þetta mat af hendi, og án þess að það kostaði mikið. Þetta ryk, sem hv. þm. hafa þyrlað hjer upp, hefir komið þeim sjálfum í koll og blindað þá svo, að þeir sjá ekki hvað þetta er einfalt og brotalítið.

Hv. 1. þm. Eyf. sagði, að heysala hjer á landi væri aðeins í smáum stíl, og það er rjett, að svo hefir verið. En jeg vona, að það hafi ekki farið fram hjá honum, er jeg sagði í framsöguræðu minni, að hjer hlýtur að verða stór breyting á, þegar innflutningur á heyi frá útlöndum hefir verið stöðvaður. Þá verður innlenda heysalan að aukast, ekki smávægilega, heldur um marga tugi smálesta á ári, til þess að fylla það skarð, sem verður, þegar útlenda heyið fæst ekki lengur. En ef heysalan innanlands fyllir ekki það skarð, þá kemur þegar fram krafa frá þeim, sem á heyi þurfa að halda, um að innflutningur á heyi sje aftur leyfður. Þetta verður að fyrirbyggja, og það er innan handar að gera það, með því að verða við sanngjörnum kröfum kaupenda. Það er hægt að framleiða nóg hey hjer í landi handa öllum þeim skepnum, sem hjer eru, og þótt margfalt fleiri væru. En til þess að kaupendur geti orðið ánægðir, þarf að tryggja rjett þeirra, svo að þeir viti, hvað þeir eru að kaupa. Og það er einmitt gert með mati á heyi, og þess vegna fæ jeg ekki skilið, að neinum geti verið það kappsmál, að hindra að það komist á. Frv. getur sjálfsagt verið ábótavant að einhverju leyti, en það er nú eins og gerist og gengur um öll lög önnur, að gallarnir koma best í ljós, þegar lögin koma til framkvæmda, og er þá altaf hægt að bæta úr því með breytingum, ef aðalkjarninn er rjettmætur.