21.03.1927
Neðri deild: 35. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (2442)

83. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Flm. (Hjeðinn Valdimarsson):

Nú eru rúm 5 ár síðan hvíldarlögin fyrir sjómenn á togurum gengu í gildi. Um þau hafði staðið hörð barátta; sjómenn höfðu krafist þeirra látlaust, en útgerðarmenn og fulltrúar þeirra á þingi staðið sem veggur í gegn. Þessi 5 ár síðan hafa íslenskir togarahásetar haft lögtrygt 6 tíma vinnuhlje á hverjum sólarhring, og má segja, að við það hafi breyst stórkostlega til batnaðar lífið á togurunum, svo að skoðast má nú sem mönnum sje líft á þeim skipum. En þó er það svo, að á þessum hvíldarlögum hafa mest grætt útgerðarmennirnir sjálfir. Allir skipstjórar munu sammála um það, að afköst sjómanna hafi aukist, en ekki minkað við það, að sjómönnum var trygt vinnuhlje. Er það og í samræmi við útlenda og innlenda reynslu í þessu efni, að oflangur, óslitinn vinnutími þreyti menn svo mikið, að afköstin verði minni af honum samanlögðum, heldur en ef hann væri styttri, auk þess sem slíkur langur vinnutími smámsaman vinnur tjón heilsu verkamannsins og slítur honum út fyrir tímann. Mættu þess vegna útgerðarfjelögin nú vel kannast við, að barátta sjómanna fyrir lögtrygðu vinnuhljei á sjónum var ekki aðeins rjettmæt frá heilbrigðis- og mannúðarsjónarmiði, heldur líka gróðavænleg fyrir útgerðarfjelögin, og sjómennirnir hafi því með baráttu sinni fyrir lögunum aukið möguleika útgerðarmanna til að græða fje á útgerð.

En krafa sjómanna var þegar í fyrstu sú, að þeim yrði trygð 8 tíma hvíld. Með lögunum var aðeins hvíldin lögboðin 6 tímar, og sættu sjómenn sig við þetta í bili, sem byrjun, fyrsta stig málsins, er myndi hafa í för með sjer reynslu og betri sannanir fyrir kröfum þeirra. Eftir að lögin höfðu sýnt sig nokkur ár og gagnið af þeim hafði fyllilega í ljós komið, þótti sjómönnum því tími til kominn að fá lögunum breytt, eins og þeir höfðu gert kröfur um í fyrstu, svo að vinnuhljeið yrði 8 tímar. Síðastliðið ár samþykti því Sjómannafjelag Reykjavíkur að leita undirskrifta á togurunum frá Reykjavík um áskoranir á Alþingi, að samþykkja slíka lagabreytingu, og hafa áskoranir frá 406 hásetum, svo að segja hverjum einasta háseta á reykvísku togurunum, nú verið lagðar fyrir þingið. Á öðrum togurum hefir ekki verið leitað undirskrifta, en hugur sjómanna er þar hinn sami. Sjómannafjelagið fól okkur, Alþýðuflokksfulltrúunum á þingi, að fylgja málinu fram, og hefi jeg orðið við því og lagt þetta lagafrv. fyrir hv. Nd.

Í Reykjavík eru nú 22 togarar.

— Hafnarfirði, með Hellyers-

togurunum, alls 14 —

Á Vestfjörðum 3 —

Alls 39 togarar,

með að meðaltali 26 manna skipshöfn, eða um 1000 manns, og eru þar af vinnandi, samkvæmt lögum þessum, á þilfari að meðaltali 18 menn á togara hverjum, eða um 700 sjómenn. Þetta mál varðar því mikinn fjölda manna, og óskir þeirra eru mjög ákveðnar.

Reynslan hefir sem sje sýnt það, að þetta 6 tíma vinnuhlje, sem nú er lögtrygt, er mjög fjarri því, að vera nægilegt til þess að menn geti haldið vinnuorku sinni og heilsu óskertri til lengdar. Nú er sólarhringnum skift í 4 vökur á togurunum, og er það reglan, þegar tískur er og engin frátök verða, að hásetar vinni samfleytt á þilfari 3 vökur, eða 18 tíma, en hafi aðeins 6 tíma hlje. Þar sem þetta gengur oft 10–14 daga samfleytt í misjöfnu veðri og við erfiða vinnu, kulda og vosbúð, þá er auðsjeð, að slíkt er ekki heiglum hent, og ofþreyta og svefnleysi sækir menn, þegar það gengur dag eftir dag. En þegar þetta vinnulag gengur mánuð eftir mánuð og ár eftir ár, þó hlje verði á milli, þá er auðsætt, að heilsa sjómanna bilar. Að vísu er ástandið betra en áður var, þegar engin takmörk voru fyrir vinnutímanum og oft var haldið áfram, uns hásetarnir fjellu bókstaflega í valinn. En þó ofþreytan og svefnleysið sje ekki eins áberandi nú, þá er þetta þó seigdrepandi fyrir hvern mann, hversu hraustur sem hann er að upplagi. En þess ber að gæta, að 6 tíma vinnuhlje er að jafnaði ekki meira en 1–5 tíma svefn, því að í vinnuhljeinu þurfa menn venjulega að matast og þvo sjer og af hlífarfötunum, og gengur ávalt tími til þess. Enda sýnir það sig, að togarahásetar geta ekki verið aðrir en hraustir menn á ljettasta skeiði, 20–35 ára gamlir, og hreinasta tilviljun er, ef þar finst maður fimtugur. Jafnótt og sjómenn slitna, fara skipstjórar að ganga fram hjá þeim, og þeir þola ekki lengur vinnuna, verða að leita sjer annarar vinnu í landi. Elsti sjómannalæknirinn hjer í bænum segir það sína skoðun, að starfsár manna, sem stundað hafa sjómensku lengri tíma, geti ekki talist nú lengur en 20–25 ár; þá sjeu þeir útslitnir, og þar sem menn byrja nú venjulega að fara á sjóinn 18–20 ára, ættu þeir að vera mikið til útslitnir menn hálffimtugir. Þó nokkur brögð eru líka að sjerstökum veikindum hjá sjómönnum, svo sem í höndum og taugagigt, sem stafar af vosbúð, kulda og þreytu. Vinnan á togurunum er þannig enn þann dag í dag, að sjómenn sækjast yfirleitt aðeins eftir henni vegna þess, að önnur föst vinna er ekki í boði, og segjast ekki mundu líta við togaravinnunni eins og hún er nú, ef neyðin ræki þá ekki á sjóinn, því að þeir vita, að þeir slitna á þessari vinnu fyrir aldur fram.

Nú ber þess einnig að gæta, að í ár hafa togarafjelögin fækkað hjá sjer hásetum. Þar hafa undanfarið verið að jafnaði á saltfiskveiðum 30 menn á skipi (25–38), en nú eru þar 26–27 menn (23–32). Þar sem nú er óvenjulega mikill fiskur, þá er auðsætt, að þeir 18 menn, sem að jafnaði vinna á þilfari, verða að leggja miklu meira að sjer til að afkasta þessu á sama tíma sem 21–22 menn hafa undanfarið gert, og er því meiri ástæða til, að þeim verði lögtrygð minsta hvíld 8 tímar, sem yrði í reynd 6–7 tíma svefn á sólarhring. Frv. það, sem hjer liggur fyrir, fer fram á, að sólarhringnum verði skift í 3 vökur, og myndu þá altaf á saltfiskveiðum 12 vera vinnandi af þessum 18 mönnum, en 6 eiga hvíld, í stað þess að nú vinna 13–11 en 1–5 hvílast. Á ísfiskveiðum, sem venjulega standa frá september til febrúar, eru nokkru færri menn á skipunum, nú venjulega aðeins 19–20 manna skipshöfn, en þar af vinna á þilfari 12 menn. Með þrískifta vöku mundu 8 menn vinna, en 1 hvílast, þar sem nú vinna 9 menn, en 3 hvílast. Með þessari breytingu á vökuskiftunum, sem yki hvíldartímann um 2 tíma fyrir háseta, yrði þannig ekki mikil röskun á vinnunni, munaði 1–2 mönnum á hverjum tíma á saltfiskveiðum, en 1 manni að jafnaði á ísfiskveiðum, eða helmingi minna en mannfækkun þeirri nemur, sem útgerðarfjelögin hafa nú látið fram fara á skipunum. Það er mjög óvíst, hvort nokkuð þyrfti að jafnaði að auka við skipshafnir. Á enskum og þýskum togurum vinna t. d. aðeins 8 menn á þilfari á ísfiskveiðum. Og ætla má, að með auknum hvíldartíma ykjust afköst hásetanna nú sem fyr. En jafnvel þótt einhversstaðar þyrfti að bæta manni við, þá væri það ekki álitamál, borið saman við það gagn, sem sjómenn hefðu af því, að lífi og heilsu þeirra væri betur borgið.

Stytting vinnutímans á sjónum er eitt af þeim málum, sem nú er hvarvetna verið að gefa út lög um. Úti í Norðurálfunni hafa ýms ríkin komið á hjá sjer 8 tíma vinnu á verslunarflotanum, og aðeins tímaspursmál er, þangað til það er alstaðar lögleitt. En hjer á landi er farið fram á 8 tíma lögboðna hvíld á fiskiflotanum, þar sem mest er unnið og vinnan er verst. Íslenska sjómannastjettin hefir fengið lof alstaðar, þar sem hún er þekt, og íslensku fiskimennirnir eru viðurkendir að vera hraustustu og harðgerðustu mennirnir, sem við togaraútgerð eiga. En hversu lengi stendur það, ef farið er með þessa vösku menn eins og vjelar, án þess að þeir fái þann minsta hvíldartíma, sem hægt er að búast við að komi að nokkru haldi til að halda við orku þeirra og heilsu?

Er ekki stórhætta á því, að næsta kynslóðin verði rýrari og geti ekki stundað þessa hörðu og hættulegu vinnu, þjóðin úrkynjist? Dýrmætasta eign þjóðarinnar eru mannslífin. Með því að skapa löggjöf, er varðveitir og lengir líf sjómanna, stuðlar Alþingi að því, að hjer vaxi upp heilbrigður og þróttmikill kynstofn. Það er skylda Alþingis að koma í veg fyrir alla misbeitingu á vinnuafli þjóðarinnar. Jeg vænti því, að hv. deild taki máli þessu vel, og legg til, að því verði vísað til 2. umr. og sjútvn.