21.03.1927
Neðri deild: 35. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í C-deild Alþingistíðinda. (2443)

83. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Jón Ólafsson:

Jeg gæti nú ef til vill sparað mjer að taka til máls að þessu sinni, því að jeg hefi látið í ljós skoðun mína á þessu máli í sambandi við annað mál. Jeg hefi altaf talið þessi hvíldartímalög óþörf. Þau hafa ekki gert neitt gott að verkum, sem ekki var búið að gera áður. Þetta segi jeg af því að jeg veit það og þekki það af reynslunni, en hv. flm. (HjV) hefir ekkert fyrir sjer í þessu annað en það, sem hann frjettir á skotspónum. Mjer hefir altaf verið illa við þessi lög, því að þau eru einn liðurinn í því, að smeygja sjer inn á þá braut, að heimta mikið kaup fyrir litla vinnu. En jeg álít, að Alþingi eigi ekki að ljá slíkri stefnu lið. Jeg álít, að við megum ekki stuðla að því, að gera menn að aktaskrifurum í þjóðfjelaginu. Jeg þarf ekki að fara um þetta mörgum orðum. Hv. þm. þekkja eflaust allir marga menn, sem lent hafa í harðri baráttu í atvinnuvegunum og orðið að leggja á sig mikla áreynslu og erfiði til þess að brjóta sjer braut, og það er vitanlegt, að það eru ekki aktaskrifararnir, sem skara fram úr í þessari baráttu. Fiskiveiðarnar hafa verið og eru engum atvinnuvegi líkir, nema sjálfum sjer. Ef ekki er gengið með ástundun og kappi að veiðunum, þá daga, sem fiskurinn gefst, þá verður hann ekki hirtur, eftir að hann er farinn. Fiskurinn bíður ekki, meðan landsmenn sofa. Það er svo með alla útgerð, að þeir, sem stunda hana, verða að leggja mikið á sig tíma og tíma, þegar mikið er um fiskinn, en hafa það svo hægara á milli. En það er eitt, sem þessir svokölluðu forkólfar hafa ekki athugað í sambandi við þessi lög. Vegna þeirra hefir orðið að fjölga mönnum á skipunum, til þess að hægt sje að komast yfir að hirða fiskinn, þegar hann er sem mestur. En við það minkar kaup þeirra, sem á skipunum vinna, því að þeir taka æði mikið af kaupi sínu í óvissum tekjum. Lifrarhluturinn getur stundum orðið meiri en mánaðarkaupið. Þetta hafa forkólfarnir ekki tekið með í reikninginn, er þeir báru fram lögin. En jeg veit, að hásetar margir eru óánægðir með þetta, og jeg veit til þess, að á tveimur skipum hafa hásetarnir farið fram á, að mönnum yrði fækkað á skipunum, til þess að hluturinn minkaði ekki. Ennfremur er þess að gæta, að öll aukin útgjöld, sem lögð eru á útgerðina með þessu, verður að taka með sparnaði á öðrum sviðum, ef sjórinn ekki bætir það upp sjálfur. Ef heimtuð er fjölgun fólks á skipin, þá verður að lækka útgjöldin á þessum lið útgerðarinnar, til þess að hún beri sig. Jeg hefi ekki orðið var við, að það sje almenn ósk háseta á þeim skipum, sem jeg þekki til, að fá þessi lög, heldur þvert á móti. En það er skiljanlegt, að þeir geri það fyrir þessa svokölluðu leiðtoga, að krota upp á þessa lappa, sem þeir senda um borð í skipin.

Annars eru í grg. þessa frv. margar hæpnar fullyrðingar, svo sem það, að skipverjar sjeu neyddir til þess að standa á þilfari í 18 tíma, hvort sem þess gerist þörf eða ekki. Jeg hefi spurst fyrir um þetta hjá þremur skipstjórum, og þeir hafa sagt mjer, að þetta sje hin mesta fjarstæða. Þetta er ekki gert, nema þegar sem mest er að gera. Hitt getur komið fyrir enn, eins og það hefir komið fyrir áður, að skip fylla sig af ísfiski á 4 dögum. Þegar svo er, leggja menn mikið á sig, til þess að koma aflanum fyrir. Þegar svo lagt er á stað með hann, er mannskapnum skift í 3 vaktir; fær þá hver maður 16 tíma hvíld á sólarhring, og „túrinn“ til Englands getur oft tekið 12 daga. Er því um alt annað en þrældóm að ræða, meðan skipin eru við ísfiskveiðar. Enda veit jeg ekki til, að mönnum hafi liðið betur við aðra atvinnu. Alt tal háttv. flm. um að heilsu þeirra væri búið tjón af vosbúð og svefnleysi, er því fjarstæða ein. Hvað mætti þá segja um línubátana, sem liggja úti. Jeg veit dæmi þess, að þeir hafa fengið fult skip á viku, og hásetarnir þá aðeins fengið 4 tíma hvíld á sólarhring. Að vísu áttu þeir hlut í aflanum, en þeir heyrðust ekki kvarta. Á eftir fengu þeir 3 daga hvíld. Hjer er þó síst um nýmæli að ræða, þetta er hin gamla sjómannasaga, alt frá því, að fyrst var farið að stunda fiskiveiðar við Ísland. Ef ekkert á að mega leggja á sig fyrir aflabrögðin, er óhætt að leggja árar í bát og hætta öllu.

Þá var háttv. flm. (HjV) að slá um sig og vitna til hvíldartíma hjá útlendum siglingafjelögum og bifreiðakónginum Ford. En jeg verð að segja, að hjer sje tvennu ólíku saman að jafna. Íslenskir atvinnuvegir geta aldrei orðið líkir stærstu fyrirtækjum, sem selja vörur sínar um allan heim, eins og bifreiðakonungurinn Ford gerir. Aftur er það ofur eðlilegt, að siglingafjelögin hafi vissan hvíldartíma á skipum sínum; en hvernig hann er notaður, er öðru máli að gegna. Til þess að kynna sjer það, hefði háttv. flm. þessa frv., 4. þm. Reykv. (HjV), gott af að líta í aukavinnuskýrslur Eimskipafjelags Íslands. Þar má sjá, hversu mikil eftirvinna er unnin á skipunum, og er hún þó síst meiri en hásetar óska.

Þá sagði háttv. flm., að svefnleysið væri seigdrepandi. Það getur satt verið, jeg þekki það ekki. En hitt er mjer kunnugt um, að þeir menn, sem sofa mikið og reglulega, eru á engan hátt hraustari en hinir, sem hafa misjafnan svefn. Jeg býst nú við, að næsta krafa jafnaðarmanna verði sú, að enginn megi róa fyr en annar, með allri sjávarsíðunni.

Að endingu vil jeg taka það fram, að mjer finst frv. þessu gerð best skil á þann hátt, að senda það aftur heim til föðurhúsanna.