21.03.1927
Neðri deild: 35. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (2445)

83. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Jón Ólafsson:

Jeg hefi litlu að svara hv. 4. þm. Reykv. (HjV), því eins og vænta má, hefir hann enga þekkingu á þessum málum, og ekki heldur aðgang að þeim bestu heimildum, sem hægt er að fá og hann þyrfti að hafa, ef hann vill tala um málið af viti.

Það var satt, jeg sagði það, og jeg stend við það enn, að krafa um þessa lengingu hvíldartímans er ekki komin frá hásetunum, heldur er hún komin frá forsprökkum verkalýðsfjelaganna. En eins og kunnugt er, er sá fjelagsskapur ungur, og forstöðumenn hans þá líka með lítilli reynslu og þekkingu, enda hefir það sýnt sig, að þeir eru ekki svo heppilegir ráðgjafar sem skyldi. Það sýna best ýmsar tillögur, sem komið hafa úr þeirri átt.

Þá vitnaði hv. 4. þm. Reykv. (HjV) í róðrasamþykt Vestmannaeyinga. Það er rjett; hún er til, og var mjer það kunnugt áður. En þess ber að gæta, að hún var ekki sett til þess að draga úr sjósókn manna, heldur til þess að menn rjeru alment ekki fyr en sundabjart væri orðið, sem kallað er. Því eins og gefur að skilja, getur oft stafað hætta af því, þegar fjöldi báta rær um sama leyti í svarta myrkri. Og jafnframt var hún gerð til þess, að menn sæju betur til veiðarfæra sinna, þegar þeir kæmu út á miðin.