12.05.1927
Neðri deild: 73. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 290 í C-deild Alþingistíðinda. (2451)

83. mál, hvíldartími háseta á íslenskum botnvörpuskipum

Sveinn Ólafsson:

* Jeg hefi skrifað undir nál. á þskj. 427 með fyrirvara. Einnig hefir hv. meðnefndarmaður minn, 2. þm. Eyf. (BSt) skrifað undir það með fyrirvara, en hann er ekki við, og verður því ekki gerð grein fyrir hans afstöðu. Hinsvegar tel jeg sjálfsagt, að jeg geri þess grein, af hverju jeg fylgdi ekki frv. óskorað.

Jeg verð að kannast við það með hv. flm. (HjV), að lögákvæðin um hvíldartíma sjómanna eru í allra lægsta lagi, þegar annir eru miklar, einkum þó þar sem hann hlýtur að skerðast eitthvað við það, að mennirnir geta ekki hlaupið frá verki sínu beint í rúmið. Jeg finn því mikið rjettlæti í þessari kröfu. Hinsvegar lít jeg svo á, að um leið og ákveðin er 6 stunda hvíld með lögunum frá 1921, þá sje og ákveðinn 18 stunda vinnutími. Við þann 18 stunda vinnutíma er svo miðað það kaup, sem síðan hefir verið goldið. Ef nú á að auka hvíldartímann um 2 stundir, þá er um leið fallist á að stytta vinnutímann um 2 stundir. Um leið ætti þá kaupið að falla að sama skapi. Með þeim skilningi á frv., að kaupið lækki hlutfallslega, eftir því sem vinnutíminn styttist, get jeg fylgt því. Eftir því sem núverandi ástand bendir til, er þörfin á auknum hvíldartíma harla mikil, og ástæður útgerðarinnar eru þær, að kauplækkun þarf að koma til greina, ef ekki samhliða slíkum fyrirmælum sem þessum, þá áður en langt líður. Jeg get þá fylgt frv. með þessum skilningi, að ef það verður að lögum, þá leiði það til nýrra samninga um niðurfærslu kaupgjalds, sem nemi 1/9 hluta, en það er í samræmi við styttingu vinnutímans úr 18 stundum niður í 16 stundir.

Ræðuhandr. óyfirlesið af þm.