05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (2466)

69. mál, hvalveiðar

Hjeðinn Valdimarsson:

Jeg get um mína afstöðu til þessa máls að mestu skírskotað til þess, sem hv. 1. þm. S.-M. sagði. Auk þess vil jeg geta þess, að jeg álít heppilegra, að slíkur atvinnuvegur sem þessi væri rekinn af því opinbera, heldur en að veita einstökum mönnum sjerleyfi til þess, og þá ef til vill leppum útlendinga. Nokkur atriði í frv. eru óviðkunnanleg, t. d. það, að sjerleyfið skuli bundið við ákveðinn fjölda skipa, í stað þess, að taka ætti fram, hvað mikill fjöldi veiðiskipa yrði mestur. Ef á annað borð ætti að stunda hvalveiðar fyrir alvöru, má gera ráð fyrir, að ef ekki er takmarkaður skipafjöldinn með lögum, mundi bráðlega reka að því, að sjerleyfi væri gefið ofan á sjerleyfi, uns allur hvalur við Íslandsstrendur væri horfinn.

Þá má geta þess, að hagnaður ríkissjóðs er hverfandi, 1500 krónur á skip. Þetta yrði atvinnurekstur, sem litla þýðingu hefði, nema í mesta lagi fá ár, svo að ekki yrði þetta til mikilla bóta frá því, sem nú er.