05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (2469)

69. mál, hvalveiðar

Ásgeir Ásgeirsson:

Andmæli, sem komið hafa fram gegn þessu frv., eru ekki veigamikil. Aðalmótmælin virðast vera hættan á því, að sjerleyfið falli í hendur útlendinga. Þetta orð, „útlendingar“, hljómar afar illa. Ef nokkur líkindi eru til þess að útlendingar geti haft hag af einhverju fyrirtæki, þykir um leið sannað, að verið sje að gera einhverja stórkostlega vitleysu. En jeg veit nú ekki til, að okkar íslenska löggjöf geti gert öllu meira til þess að tryggja aðstöðu landsmanna en gert er í 2. gr. þessa frv. Hitt skal jeg fúslega játa, að til hvalveiðanna mundum við þurfa hjálpar útlendinga, Norðmanna, sem eru þaulvanir þessari atvinnugrein. Hvenær sem við tökum upp einhvern atvinnuveg, þurfum við til þess aðstoð erlendra sjerfræðinga. Nú stendur svo sjerstaklega á, að til eru íslenskir hvalveiðamenn í Suðurafríku og víðar, en jeg get ekki að svo stöddu sagt um, hversu margir þeirra mundu vilja flytja heim, eða hversu marga norska sjerfræðinga við þyrftum að fá okkur til aðstoðar. En ef við fáum útlenda sjerfræðinga, er það til að hjálpa okkur sjálfum.

Mjer skildist á hv. þm. Barð., að hann teldi, að af þessu frv. gæti ekki leitt annað gagn en það, að við fengjum hval að jeta í 3–4 ár. En eins og hv. þm. Ísaf. tók fram, er alls ekki svo lítið úr því gerandi. Það er samt ekki aðalatriðið, heldur hitt, að skapa atvinnuveg, sem annarsstaðar hefir reynst mjög arðvænlegur. Og það er alveg sjerstök ástæða til þess, þegar allir okkar atvinnuvegir standa höllum fæti, að taka upp atvinnuveg, sem reynst hefir öruggur og arðvænlegur. Hann mundi veita mönnum atvinnu og leggja af mörkum til ríkissjóðs og sveitarsjóðs. Jeg get frætt hv. þm. Barð. á því, að í ýmsum fjörðum nálægt honum hafa menn mjög fastlega óskað eftir, að hvalveiðar kæmust á. Þetta frv. er einmitt borið fram vegna áskorana frá þing- og hjeraðsmálafundi í Vestur-Ísafjarðarsýslu.

Það er óhætt að segja, að meðal annars vegna þess, hvað atvinnuvegum okkar gengur illa, er ástæða til að líta í kringuin sig, ef einhversstaðar kynnu að vera ónotuð bjargráð. Þetta er það helsta, sem íbúar Vestur-Ísafjarðarsýslu hafa óskað eftir, og er fullhart að neita þeim um það af þeirri ástæðu, að þeir mundu þurfa útlenda sjerfræðinga sjer til hjálpar. Jeg man ekki betur en að til stjórnarráðsins eða þingsins kæmi áþekk ósk þessari úr kjördæmi hv. þm. Barð (HK), þar sem einn hreppur gerði kröfu til þess, að Norðmaður fengi að „stationera“ á Patreksfirði. En hjer er um að ræða íslenska ríkisborgara eina.

Það er vitanlegt, að hvalveiðar eru stundaðar hjer við land frá erlendum höfnum, af erlendum mönnum, á erlendum skipum, svo að segja má með sanni, að þeir, sem eru á móti þessu frv., sjeu að friða hvalinn handa útlendingum.

Af því, sem fundið hefir verið að frv., get jeg ekki sjeð, að neitt hafi við rök að styðjast, nema ef til vill það, sem hv. 1. þm. Reykv. (HjV) benti á, að frv. ætti að taka fram veiðiskipafjöldann. Ef skynsamleg tillaga kæmi fram í þá átt, mundi jeg geta fallist á hana, þó að jeg telji þetta ekki brýna nauðsyn.