05.04.1927
Neðri deild: 47. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (2471)

69. mál, hvalveiðar

Ásgeir Ásgeirsson:

Mjer hefir aldrei dottið í hug að fullyrða, að tilgangur þessa frv. væri að seðja alla svanga munna og ljetta öllum áhyggjum af öllum til eilífðar. En verði það samþ., og komi það til framkvæmda, mun það hjálpa nokkrum mönnum og gera afkomu þeirra betri. Annað og meira er ekki um að ræða. Spurningin er því sú, hvort það sjeu nokkur útlát, að veita þessum mönnum það sjerleyfi, sem hagsmunir þeirra heimta. Jeg hefi ekki heyrt bent á eitt einasta atriði, sem bendi til þess, að það geti orðið til tjóns. Jeg ætla ekki að rifja upp þá gömlu deilu, hvort hvalurinn sje nokkurskonar smalahundur fyrir síldina, enda hefir slíkri kenningu ekki verið haldið fram hjer. Háttv. deildarmenn hafa verið svo skynsamir, að fara ekki inn á þær brautir nú.

Fiskifjelagið hefir gefið þá yfirlýsingu, að samþykt þessa frv. hefði á engan hátt skaðleg áhrif á neinn þann atvinnuveg, sem fyrir er í landinu. Og þegar svo er, þá eigum við að taka upp sjerleyfisstefnuna, eins og Norðmenn. Annars er það engin þjóð, sem hefir friðað sína hvali, og við erum umkringdir af hvalveiðastöðvum; þannig eru t. d. margar í Færeyjum og flotstöð var við Grænland.

Hvað frv. þetta snertir, þá er enginn vafi á, að það á að samþykkja það, því að hvalirnir flakka svo víða, að engin líkindi eru til, að friðun í einu landi komi að gagni. Og hjer er ekki gert ráð fyrir hvalveiðum í stærri stíl en það, að þær geti orðið sæmilegur atvinnuvegur fyrir nokkra menn, að notfæra sjer þetta veiðidýr, sem hvort sem er yrði þó drepið annarsstaðar, en draga það ekki um of, svo að þetta geti verið nokkurnveginn öruggur atvinnuvegur fyrir þá fáu menn, sem hann stunda, og til þess, að ekki fari eins og síðast, er alt of mikil samkepni hljóp í þessa hluti.