05.05.1927
Efri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (2479)

69. mál, hvalveiðar

Jón Baldvinsson:

Friðun hvala hefir löngum verið mikið deilumál hjer á landi. Þegar Alþingi samþykti að friða hvali, mun það hafa verið mikið fyrir þá sök, að menn hugðu, að hvaladráp spilti síldargöngum. Jeg geri ráð fyrir, að mikill hluti manna líti nú öðruvísi á það mál. Þó hafa margir sjómenn enn þetta álit, svo sem sjá má af umræðum um hvalaveiðafrv. í neðri deild 1925. Einkum er þetta álit margra um hrefnu. Menn hjeldu, að í þröngum fjörðum hrekti hún síldina upp að landi og í net. Jeg skal engan dóm á þetta leggja, en jeg veit, að margir síldarútvegsmenn leggja ekki litla áherslu á það.

En það er ekki af þessum ástæðum, sem jeg er á móti frv. Jeg býst við, að búið sje að slá því föstu, að áhrif hvala á síldargöngur sjeu ekki svo mikil sem menn hugðu áður. Aðrar orsakir liggja til andstöðu minnar gegn frv. Það er einkum tvent, sem hv. stuðningsmenn þess segja, að eigi að vinnast við að setja hjer upp hvalveiðastöðvar: tekjur ríkissjóðs eiga að aukast, og jafnframt að verða meiri atvinna í landinu. Hið fyrra er ekki veigamikið. Flm. frv. 1925 ætluðust til, að veitt yrði tvö sjerleyfi, annað fyrir Vestfirði og hitt fyrir Austfirði. Átti hvor stöð að hafa tvo báta, og ef svo verða borgaðar 500 kr. af hverjum bát, sem líklegt er, því að það er lágmarkið, þá verða þetta alls 2 þús. kr. Jeg vona, að menn sjái, að ríkissjóður er jafnt á hausnum, hvort sem hann fær þær eða ekki. Hitt atriðið, um atvinnuna, krefst nokkru nánari athugunar. Jeg skal játa, að hún geti orðið nokkur, en þó er þetta atriði mjög varhugavert, vegna þess að hvalveiðarnar hafa verið á svo miklu flökti að undanförnu. Það verða e. t. v. ekki nema fá ár, sem veiðarnar verða stundaðar, því að þá getur hvalurinn verið nær þrotinn. Sú var líka reynslan áður, að veiðarnar voru á flökti og stopular. Þegar þær voru hættar að borga sig á Vestfjörðum, tóku veiðimennirnir sig upp og fluttu stöðvarnar til Austfjarða. Enda er það alstaðar svo, að Norðmenn, sem mest stunda þessar veiðar, eru altaf á ferð og flugi með stöðvar sínar fram og aftur um hnöttinn. Ef þessi yrði reynslan hjer, þá er ver farið en heima setið, einkum þegar menn sjá þetta fyrir. Þá hefir fólkið verið teygt til hvalveiðastöðvanna í von um atvinnu, en stendur svo allslaust uppi, þegar stöðvarnar eru lagðar niður. Þá verður ávinningurinn eigi svo mikill sem menn nú vænta: atvinnan farin og ríkissjóður sviftur tekjunum. Jeg neita því ekki, sem sumir hafa haldið fram, að fá megi nokkuð af ódýrum mat handa landsmönnum, ef hvalveiðastöðvar verða settar hjer á fót. En jeg legg ekki svo mikið upp úr því, að jeg vilji fyrir þá sök fara að breyta löggjöf, sem nýlega er búið að framlengja um 10 ár.

Þá kem jeg að annari aðalástæðu til að vera á móti frv. Jeg býst nefnilega við, að íslenskir ríkisborgarar mundu í raun og veru ekki fá sjerleyfi til veiðanna, heldur yrðu leppar fyrir Norðmenn. Auðvitað ættu Norðmenn hægast með að koma á fót stöðvunum. Þeir eiga öll nauðsynleg áhöld, hvalveiðaskip, veiðarfæri o. s. frv. Þeir mundu svo mynda hlutafjelög um að koma hjer á fót þessum atvinnurekstri, leggja til áhöldin og peningana, en fá einhverja innlenda menn til að vera í stjórn og látast eiga hlutafje. Jeg skal ekki segja, að út af fyrir sig væri neitt á móti slíkri undanþágu, en hún á þá að vera alveg hrein. Það dugir alls ekki að segja í lögunum, að íslenskir ríkisborgarar einir geti fengið svona sjerleyfi, ef lögin eru sett í þeirri ætlun, að veita útlendum mönnum leyfið.

Það er alveg rjett hjá hv. frsm. að við bætum okkur lítið á löngum umræðum um þetta mál. Þó verð jeg að minnast á örfá einstök atriði. Um það hefir verið mikið deilt, hvort hrefnur eigi að vera friðaðar hjer við land eða ekki. Til þess að þóknast öllum, hefir verið farin sú leið í frv., að ófriða hrefnu, en leyfa sýslunefndum að friða hana í landhelgi út af sinni sýslu. Af þessu getur leitt hinar undarlegustu niðurstöður, þegar tvær sýslur liggja að sama firði eða flóa, eins og t. d. við Eyjafjörð. Þar gæti farið svo, að hrefna yrði rjettdræp öðrumegin fjarðarins, en friðuð hinsvegar. Menn segja náttúrlega, að ekki sje vandi fyrir hrefnuna að hegða sjer á slíkum stöðum; hún eigi vitanlega að halda sig upp að því landinu, þar sem hún er friðuð.

Að lokum vil jeg bæta því við, að það er skoðun margra, að þetta mikla, risavaxna lagardýr, hvalinn, eigi að alfriða, og sú skoðun virðist vera að ryðja sjer til rúms í heiminum, að það sje illa farið, ef þessari skepnu verður útrýmt. En alt virðist benda til þess, að að því stefni, með hinni miklu græðgi, sem er í veiði þessara dýra. Þess vegna hefir komið til tals hjá alþjóðabandalaginu, að það gangist fyrir allsherjarsamþykt um friðun hvala. Nú stendur svo á hjá okkur, að komið hefir til tals að færa út landhelgina, til hagsmuna fyrir smábátaútveg landsmanna. Mjer finst því, að hvalafriðunin geti verið dálítið innlegg fyrir okkur, með rýmkun landhelginnar, ef hún kæmi til þjóðabandalagsins. Það sýndi töluverða óeigingirni hjá okkur, að hafa hvalina friðaða, enda þótt við ættum von á 3 þús. kr. tekjum í ríkissjóð og góðum, súrum hval til átu, ef við hefðum þá ófriðaða. Aftur á móti mætti nota það sem vopn á móti okkur, ef við fyrir þessa litlu hagsmuni ljetum hvalina vera ófriðaða. Það mætti segja, að við ættum ekki skilið að fá landhelgina rýmkaða, úr því að við ekki einu sinni vildum friða þessa fáu hvali.