05.05.1927
Efri deild: 66. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í C-deild Alþingistíðinda. (2482)

69. mál, hvalveiðar

Forsrh. og fjrh. (Jón Þorláksson):

Þessu máli var vísað til stjórnarinnar á þingi 1925. Þó að það heyri undir atvrh. skal jeg skýra frá því, að það var ekki af gleymsku, að stjórnin lagði það ekki fyrir þingið nú, heldur af því, að okkur ráðherrunum kom saman um, eftir öllum atvikum, að leggja ekki fyrir þingið stjfrv. um þetta efni. Jeg held því tæpast, að nú sje ástæða til að vísa málinu til stjórnarinnar að nýju, þó að það væru að vísu engin afglöp að gera það. Jeg skal í fám orðum gera grein fyrir, af hverju mjer sýnist athugavert að gera svona frv. að lögum.

Eftir öllu því, sem menn vita um aðdraganda þessa máls, eru tæplega líkur til, að þó að sjerleyfið verði veitt, verði stofnað til þessa atvinnurekstrar af íslenskum mönnum á íslenskum skipum með íslensku fje. Við hinu má frekar búast, að hingað komi skip, sem til þessa hafa verið erlend eign og mundu að vissu leyti halda áfram að vera erlend eign, ef stofnfje þess fjelags, sem sjerleyfið hefði, væri útlent að miklu leyti.

En ef slíkur skipastóll kemur hingað til þess að hafast við hjer við land, gæti jeg búist við, að minsta kosti ef ekki væri því varlegar um búið í sjerleyfinu, að það kynni að vekja grun um, að á ferðinni væri einhver sú notkun á skipum annara þjóða, sem ekki væri vel samrýmanleg við þá grundvallarreglu löggjafar okkar um fiskiveiðar, sem nú er verið að reyna að festa í framkvæmdinni á grundvelli fiskiveiðalaganna frá 1922. Það er ástæða til að fara varlega, af því að sú löggjöf gengur lengra í að vernda rjett landsmanna en áður hefir verið gert. En okkur hefir ekki tekist í byrjun að fá flekklausa framkvæmd á þeirri löggjöf. Þarf í því sambandi ekki annað en minna á togaraútgerðina í Hafnarfirði, sem leyfð var eftir sjerstökum lögum, og einnig má minna á hið tímabundna leyfi, sem nokkrir útlendingar hafa til að reka síldverkunarstöðvar á Norðurlandi. Við erum sem sagt ekki búnir að ná fullri festu á þessu sviði. Þó að hjer sje um hvalveiðar að ræða og segja megi, að þar gegni nokkuð öðru máli en um fiskiveiðar, eru þau mál samt svo skyld, að ef hingað koma veiðiskip, sem ekki að öllu leyti fullnægja grundvallarhugsun fiskiveiðalaganna, þá býst jeg við, að slíkt geti aukið á erfiðleikana með að framfylgja þeirri löggjöf. Jeg skal að vísu játa, að eins og lagafrv. er úr garði gert, gæti sjerhver stjórn sett öll skilyrði, sem við þarf, en jeg er ekki sannfærður um, að hvaða stjórn sem er sje til þess treystandi, að gæta alls, sem þarf.

Nú standa svo sakir, að jeg álít þýðingarlaust að samþ. þessa löggjöf nú, ef ætlast er til, að stranglega sje eftir því gengið, að bæði fje og starfræksla sje íslenskt, því að eftir því sem getu bankanna og fjárhag almennings er háttað, eru engar vonir um, að laust sje íslenskt fje til þessa fyrirtækis. Jeg held, að það sje að minsta kosti skaðlaust, þó að svona löggjöf bíði, þangað til upplýst er, að innlent fjármagn sje fyrir hendi. Auk þess held jeg, að ekki sje hægt að ganga fram hjá því, sem hv. 5. landsk. bar fram, að ekki sje trygging fyrir því, að svo mikið sje af hvölum hjer við land, að fyrirtækið geti orðið nógu langlíft.