16.05.1927
Efri deild: 75. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í C-deild Alþingistíðinda. (2490)

69. mál, hvalveiðar

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Meiri hl. sjútv. flytur till. þess efnis, að það skuli tekið fram í sjerleyfinu, að leyfishafa sje skylt að selja innanlands, ef þess er óskað, kjarnfóður og áburðarmjöl við ekki hærra verði en markaðsverði þessara vörutegunda á útlendum markaði, að frádregnum flutningskostnaði til útlanda. Þessi till. er til mikilla bóta, því að ef úr rekstri verður, leiðir af henni það, að sveitabændur geta fengið þessar vörur þeim mun ódýrari, sem flutningsgjaldinu frá útlöndum nemur, en það er tiltölulega hár liður á þessum vörum. Býst jeg við, að hv. deild geti samþ. þessa till.

Hv. 5. landsk. (JBald) hefir borið fram ýmsar brtt., en lýst því jafnframt yfir, að vafasamt væri, hvort hann gæti fylgt frv., þó að sú tillagan, sem hann leggur mest upp úr, væri samþ. Meiri hl. sjútvn. hefir athugað þessar till., og getur hún fallist á sumar þeirra, en sumar ekki. Hún getur ekki fallist á að friða hrefnuna, eins og hv. 5. landsk. vill. Meiri hl. nefndarinnar álítur þessa hrefnuveiði svo ábatasama fyrir þá, sem njóta hennar, að hann vill ekki spilla atvinnuvegi þeirra, enda kæmi það illa niður á mönnum, sem búnir eru að afla sjer dýrra tækja til að stunda þessa veiði. Síst af öllu vill meiri hl. á þessum örðugu tímum skerða rjett manna til að leita sjer bjargar, en það væri gert með því að samþ. þessa brtt. Hrefnukjöt er talið af þeim, sem til þekkja, góð og ódýr fæða, og getur orðið mörgum til töluverðrar bjargar. Hv. þm. (JBald) mintist á, að fiskiveiðasamþyktir sýslunefnda hefðu gefist misjafnlega, en jeg sje ekki ástæðu til að breyta þessu ákvæði þess vegna. Brtt., sem fara í þá átt, að koma í veg fyrir, að flotstöðvar sjeu settar upp í landhelgi, getur meiri hl. aðhylst, því að honum er ljóst, að stöðvar á landi eru fólkinu miklu líklegri til nytja, bæði að því er snertir atvinnu o. fl. Hann vill því fúslega samþ. þessa brtt. Skipagjaldið vill meiri hl. ekki gera að deiluefni. Hann er þó þeirrar skoðunar, að ríkissjóður eigi aðallega að fá tekjur sínar af þessum fyrirtækjum óbeint, bæði í útflutnings- og innflutningsgjöldum. Hann hefir óbundin atkvæði um þetta atriði. Meiri hl. er ekki mótfallinn því, að haft sje í lögunum, að innlendir menn skuli sitja fyrir vinnu við þessi fyrirtæki, en hann gengur út frá því, að stjórnin hafi vakandi auga á þessum efnum og tryggi innlendum mönnum atvinnu við þetta, eftir því sem hægt er. Yfirleitt er ómögulegt að tína upp í lögin öll atriði, sem fram þarf að taka, og verður að treysta stjórninni til að búa svo um hnútana sem þarf, þegar sjerleyfi er veitt.

Þá er síðasti liður 3. brtt., um heimild handa ríkissjóði til að kaupa skip og stöðvar eftir mati. Þó að alment sje álitið, að þessi atvinnurekstur borgi sig vel nú hjá Norðmönnum, vill meiri hl. nefndarinnar ekki hvetja til þess, að ríkissjóður fari að reka hvalveiðar. Hann mundi standa æði miklu ver að vígi en þrautreyndir „fag“-menn, og ekki líklegt, að mikill gróði yrði að. Við teljum ekki heldur rjett að setja ákvæði um, að ríkið yfirtaki þessar stöðvar. Hv. þm. (JBald) sagði, að þetta væri nauðsynlegt, af því að hvalveiðamennirnir gætu flutt burtu, ef þeim sýndist. En þeir mundu ekki flytja burtu af öðru en því, að atvinnureksturinn borgaði sig ekki, og þá væri lítið bjargræði í því fyrir ríkissjóð, að kaupa skipin og stöðvarnar, til þess að láta það liggja ónotað eða reka það sjer í skaða. Meiri hl. nefndarinnar er því eindregið á móti þessari brtt. Skal jeg svo ekki orðlengja þetta frekar, enda höfum við þegar rætt þessar till. í nefndinni og borið okkur saman um þær.