06.04.1927
Neðri deild: 48. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í C-deild Alþingistíðinda. (2503)

11. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. minni hl. (Árni Jónsson):

Þegar mál þetta var hjer til 1. umr. fyrir nokkru síðan, varð það að samkomulagi, að lofa því að ganga umræðulust til 2. umr. og nefndar. Þess vegna verður að ræða um frv. nú, og vil jeg þá með nokkrum orðum víkja að því, sem farið er fram á með frv.

Hjer er verið að kveða niður gamlan draug, sem magnaðri hefir verið en allir Mórar og allar Skottur til samans, sem í hálfa aðra öld hefir valdið meiri skaða á búpeningi okkar en dæmi eru til um flestar aðrar plágur, sem dunið hafa yfir landið.

Ef meta ætti það tjón, sem landsmenn hafa orðið fyrir af völdum fjárkláðans, mundi það ekki talið í tugum eða hundruðum þúsunda króna, heldur í miljónum eða tugum miljóna.

Fjárkláðinn barst hingað til lands í kringum 1760, og þá með spönskum hrút. Þá mátti segja að góð ráð væru dýr, því að þá þektust engin þau lyf, sem á síðari árum hafa verið notuð til lækninga. Var því ekki um annað að gera en að skera niður fjeð, ef losna ætti við þennan óboðna gest. Með almennum niðurskurði tókst þó að útrýma kláðanum á næstu 20 árum.

Eftir það verður hans ekki vart fyr en árið 1855, og er þá talið, að hann hafi hingað borist með enskum hrút. Hann varð þá í byrjun afarskæður og fór eins og logi yfir akur. Þá var bæði skorið niður og reyndar ýmsar lækningaaðferðir, en þrátt fyrir það varð kláðanum ekki útrýmt, og hefir hann síðan verið landlægur hjer, þó að áraskifti sjeu að því, hve mikið hann lætur á sjer bæra.

Um aldamótin var mikið hugsað um að útrýma kláðanum, og varð fyrsti árangur þess fjárveiting sú, er Alþingi lagði til höfuðs þessum vágesti 1903. Þá höfðu Norðmenn um langt skeið glímt við þennan faraldur og tekist að útrýma honum með öllu. Var því leitað til Noregs og fenginn þaðan maður, Myklestad að nafni, sem mikið hafði unnið að útrýmingu kláðans í Noregi, og átti nú að vera framkvæmdarstjóri Íslendinga í samskonar starfi.

Hvað sem sagt kann að verða um Myklestad nú, þá er víst, að þann tíma, sem hann dvaldi hjer á landi, gegndi hann leiðbeiningarstarfi sínu með sjerstökum dugnaði og samviskusemi. Hitt getur orkað tvímælis, hvort hann hefir gengið nógu vel fram í því, að tvíbaða alt grunað fje. En eins og menn vita, eru á hverri kláðakind bæði maurar og mauraegg. Maurarnir drepast í einu góðu baði, en eggin lifa; þess vegna er nauðsynlegt að baða aftur að nokkrum dögum liðnum og drepa þann maur, sem úr eggjunum hefir skriðið á milli baðanna, en það er talið hæfilegt, að 12 dagar líði á milli baða. Að hjer er farið fram á að baðað sje þrisvar, eftir þessu frv., er ekki vegna þess, að alment þurfi til þess að grípa, heldur er þetta frekara öryggi, svo að skipa megi fyrir um 3. baðið, til þess að ganga algerlega úr skugga um, að allrar varúðar sje gætt.

Fyrstu árin eftir Myklestads-böðunina lá kláðinn niðri að mestu leyti, og verður hans mjög lítið vart, þangað til 1913, að hann fer að útbreiðast. Þá voru sett lög á Alþingi um sauðfjárbaðanir, sem gilt hafa þangað til í fyrra, að þau voru feld úr gildi samkvæmt till. meiri hl. landbn. Og nú bera sömu menn fram frv. um að endurreisa þessi sömu lög og þeir feldu í fyrra, en þó í dálítið breyttri mynd. Það hefir nú sýnt sig, að þrátt fyrir þessi lög og allar lögskipaðar sauðfjárbaðanir hefir kláðinn breiðst út, og er nú kominn í eins mörg hjeruð og var, er Myklestad kom til sögunnar. En þó er kláðinn orðinn miklu vægari en fyrrum, þegar hann gekk um landið eins og plága. Nú getur hann leynst með fjenu fleiri mánuði, ef vel er fóðrað, og verður því helst vart við hann á vorin í þeim kindum, sem illa ganga undan. Að hann er vægari nú en áður, mun meðfram stafa af því, að fje er farið að venjast honum betur, en þó mun miklu ráða, að nú er farið miklu betur með fje en áður tíðkaðist. Auk þess hefir veðrátta verið mun betri og mildari en fyrir 30–10 árum, eftir því sem rosknir menn muna.

Nú er það álit ekki fárra manna, að ef veðráttufar breytist til hins verra, að kláðinn mundi þá blossa upp og verða þá að plágu, sem geisaði um alt land. Því er það, að þessir menn telja einmitt tækifærið nú að byrja á því að útrýma honum, og telja miklar líkur, að ganga megi milli bols og höfuðs honum, af því að hann sje yfirleitt vægari nú en áður.

Um frv. það, sem liggur hjer fyrir, er það að segja, að það er að mestu samhljóða því frv., sem landbn. bar fram í fyrra og afgr. var hjeðan til hv. Ed. Þó er hjer nýmæli upp tekið, að fresta megi böðun eftir tilmælum Búnaðarfjelags Íslands, ef fyrirsjáanlegt er, að fóðurskortur muni verða í landinu. Má því segja, að frv. sje að mestu leyti með sama sniði og það fór til hv. Ed.

En um málið fór svo í fyrra, að hv. Ed. vísaði því til hæstv. stjórnar með þeim formála, að leitað væri álits sýslunefnda um málið og látin fara fram rannsókn, sem leiddi í ljós alt sem vitað yrði um útbreiðslu kláðans. En þá var það álitið, að flestir sýslufundir væru um garð gengnir og ekki hægt að fá umsögn sýslunefnda fyrir næsta þing. Fór stjórnin því þá leið, að hún sneri sjer beint til sýslumanna, en þeir aftur til hreppstjóranna um þetta mál, og þaðan hafa nú borist skýrslur um útbreiðslu kláðans úr öllum sýslum landsins, að tveimur undanteknum.

Jeg ætla þá, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp úr skýrslum þessum, það sem nánast verður vitað um útbreiðslu kláðans í hinum ýmsu sýslum, og lítur sú skýrsla þannig út:

Hreppar

Bæir

Kindur

Gullbr.- og Kjósars.

1

4

4

Mýra- og Borgarf.s.

11

36

9

Snæfellsnessýsla.

10

(35?)

198(?)

Barðastrandarsýsla

?

2

5 (?)

Ísafjarðarsýsla

4

12

24

Strandasýsla

6

12

125 (?)

Húnavatnssýsla

13

95

140(?)

Skagafjarðarsýsla

9

73

262(?)

Eyjafjarðarsýsla

6

67

93

Norður-Múlasýsla

?

2

2

Suður-Múlasýsla

4

5

11

Rangárvallasýsla

7

27

85

Dalasýsla: Þar er kláðinn talinn í öllum hreppum, en tala kláðabæja og kláðakinda legið, og tekið fram, að kláðinn sje vaxandi, mestur 1926, og kent um ónýtu baðlyfi.

Þingeyjarsýslur: Þar er kláði í 4 hreppum, og sjerstaklega útbreiddur í tveimur þeirra; annars vantar skýrslur þaðan, og vildi jeg því beina þeirri fyrirspurn til hæstv. atvrh. (MG), hvort komið hafi nokkrar viðbótarskýrslur úr Norðursýslunni. — Og loks er

Árnessýsla með kláða í 11 hreppum á 97 bæjum eða fleiri, en tala kláðakinda 633, og er það langsamlega hæsta talan, sem upp er gefin. — Þá eru aðeins ótaldar

Skaftafellssýslur, sem sýslumaður telur, að sjeu kláðalausar, og

Vestmannaeyjar. en þar er fátt um sauðfje og auðveldara að verjast kláða þar en annarsstaðar.

Af þessu yfirliti sjest þá það, að kláðinn er nú eins útbreiddur og hann var áður en Myklestads-baðanirnar fóru fram, og jafnvel útbreiddari, því að þá var þó talið, að Rangárvallasýsla væri laus við hann. En eins og áður er tekið fram, er hann vægari, en getur eflaust blossað upp, hvenær sem er. Því er það skoðun margra manna, að nú sje tækifærið að hefjast handa um að útrýma honum með öllu.

Ástæðurnar, sem fram voru bornar á síðasta þingi gegn því, að fyrirskipa þá með lögum algert útrýmingarbað, voru aðallega þrjár:

Í fyrsta lagi var kvartað um, að ábyggilegar skýrslur vantaði um útbreiðslu kláðans, og dregið í efa, að hann mundi það útbreiddur, sem sumir fullyrða.

Í öðru lagi var það kostnaðarhlið málsins, sem ægði mörgum, ekki aðeins hinn beini kostnaður, sem leiddi af útrýmingarböðun, heldur aukinn kostnaður einstaklinganna, vegna innigjafar fjárins.

Og í þriðja lagi töldu margir, að óvíst væri, að kláðanum mundi útrýmt, þó að lagt væri út í þennan mikla kostnað.

Þegar við athugum nú fystu ástæðuna, þá er henni að fullu svarað með skýrslum sýslumannanna, sem jeg las upp. Þær bera það með sjer, að útbreiðsla kláðans sje síst minni en haldið var fram í fyrra, og jafnvel meiri en um 1903.

Um annað atriðið, kostnaðarhliðina, er það að segja, að þar verða menn að gera upp við sjálfa sig, hvort betra muni vera fyrir ríkið að leggja út 100 þús. kr. í eitt skifti fyrir öll, í staðinn fyrir að verja um 20 þús. kr. árlega, eins og verið hefir venja að undanförnu, en kláðinn jafnútbreiddur eftir sem áður. Menn verða að gera sjer ljóst, hvort betur muni borga sig fyrir einstaklingana, að leggja á sig kostnað í bili og óþægindi, til þess að losna við þennan faraldur, eða hitt, að eyða tugum þúsunda árlega til þess eins, að halda kláðanum í skefjum, og eiga svo von á, að hann geti blossað upp og gert þann skaða, sem aldrei verður hægt að meta til neinna peninga.

Og þá er það þriðja mótbáran, að kláðanum verði ekki útrýmt. Um það atriði vísast aðeins til Myklestadsbaðananna. Við vitum, að með þeim var kláðanum því sem næst útrýmt. En sú böðun var bygð á þeim misskilningi, að ekki þyrfti að baða grunsamt fje nema einu sinni, svo að 1905 vantaði ekki nema herslumun til þess að ganga milli bols og höfuðs á þessum erkifjanda landbúnðarins. Nú er það upplýst, að það þarf að baða alt fje tvisvar, og sumt þrisvar, til frekara öryggis. Og verði að því ráði horfið, er jeg þess fullviss, að með góðum vilja og árvekni landsmanna megi takast að útrýma þessari skæðu pest.

Þá er ótalin fjórða ástæðan til þess, að útrýma beri kláðanum, og það er að mínum dómi langalvarlegasta og veigamesta ástæðan. Og það er sú hlið málsins, sem veit að kjötmarkaði okkar, en undir honum er komin afkoma allra bænda landsins. Á þetta atriði var lítilsháttar drepið í umr. Í fyrra, en ekki lögð nein sjerstök áhersla á mikilvægi hennar þá, enda hefir ástandið breyst stórum til hins verra frá í fyrra.

Nú hefir orðið að flytja aftur inn kjöt okkar frá Noregi, af því það var óseljanlegt þar, og verðið er orðið svo lágt, að það er farið að nálgast það, sem var fyrir stríð, en framleiðslukostnaðurinn margfalt hærri, svo að allir hljóta að sjá, hvílíkt tap þetta er fyrir bændur.

Nú hafa menn bygt vonir sínar á framtíðarkjötmarkaði í Englandi, og með það fyrir augum höfum við látið byggja skip með vönduðum kæliútbúnaði, sem á að flytja Englendingum nýtt kjöt til neyslu. Það má því svo að orði kveða, að bændur verði að byggja afkomu sína í framtíðinni á viðskiftunum við England. Þó er nú svo komið, að á þessum enska markaði er um meiri samkepni að ræða en víða annarsstaðar. Þar eru aðallega tvö auðfjelög, sem berast á banaspjót, og ómögulegt að sjá fyrir, hvernig þeirri viðureign muni lykta. En þar sem slík barátta kostar oft mörg ár, þá er ekki að vita, að við þurfum svo mjög að treysta enska markaðinum í bráð. Þess má að vísu geta, að frá Argentínu eru flutt inn ógrynnin öll af kjöti og það selt í Englandi því verði, að flutningskostnaðurinn fáist upp úr því. Allir sjá, hversu erfitt það verður fyrir okkur að keppa við vestankjötið, með þeim kostnaði, sem við höfum af því að koma kældu kjöti á markaðinn. Og haldi þessu áfram, getum við búist við, að þessi markaður á Englandi, sem átti að verða okkar þrautalending, fari alveg út um þúfur.

Og hvar erum við þá staddir? Þessi markaður stóð okkur opinn frá því árið 1860 og fram til aldamóta, og var þá okkar besti markaður. En eftir aldamótin breyttist þetta, því að þá opnaðist markaður á Norðurlöndum fyrir saltkjöt, og eftir það fór sauðaeign bænda að minka smátt og smátt, og sjerstaklega þó meðan á stríðinu stóð, enda lagðist þá algerlega niður útflutningur lifandi sauðfjár. En um 1920 fer aftur að lifna yfir útflutningi lifandi fjár. Árið 1923 var fluttur farmur af fje til Belgíu, og 1924 tveir farmar til Englands, Jeg skal nú ekki fara út í það, hvernig tilraunin um að opna aftur markað fyrir lifandi fje í Englandi 1924 var undirbúin, en hún bar ekki þann árangur, sem hún hefði getað borið, ef rjett hefði verið að farið. Í Englandi gilda þau lög, að fjeð verður að hafa í sóttkví og slátra því innan 10 daga. En þegar þess er gætt, að við erum einu mennirnir, sem njótum þar þessara hlunninda, þá er það ekki svo lítið. En betra væri þó, að innflutningurinn væri ekki neinum skilyrðum háður, og að fjeð mætti geyma svo lengi í Englandi, að það gæti fitnað og náð sjer algerlega eftir sjóferðina. Er þá komið að þeirri einni fyrirstöðu, sem á þessu er, en það er kláðinn. Í okkar fje eru engir sjúkdómar, sem ekki eru í ensku fje, nema kláðinn. En með því fyrirkomulagi, sem nú er á hjá okkur, þessu káki við fjárkláðann, er hv. meðnefndarmenn mínir vilja halda áfram, þá ber til beggja vona um það, hvort við höldum þeim hlunnindum um innflutning lifandi sauðfjár í Englandi, sem við höfum haft fram að þessu. Þarna er þó vafalaust okkar besti markaður, því að með þessu móti getum við tekið þátt í samkeppninni um framleiðslu hins nýja kjöts í Englandi, og fengið hæsta fáanlegt markaðsverð. Þetta tel jeg svo mikilsvert, að Alþingi megi ekki samþ. neinar þær ráðstafanir, er geta útilokað okkur frá að halda þessum markaði.

Á þinginu í fyrra var hrundið öllum þeim ástæðum, sem færðar voru fram gegn útrýmingu fjárkláðans. En það er öllum vitanlegt, að fjárkláðinn er mikill í landinu og að honum verður aldrei útrýmt með því káki, sem verið hefir og hv. meiri hl. vill, að haldið sje áfram.

Atkvgr. um þetta mál sýnir það, hvort við viljum gera það, sem við getum, til þess að halda þeim vildarkjörum, sem við höfum nú fram yfir aðra í Englandi, og þeim möguleika, að efla framtíð kjötmarkaðs okkar þar.