07.04.1927
Neðri deild: 49. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í C-deild Alþingistíðinda. (2520)

11. mál, útrýming fjárkláða

Þórarinn Jónsson:

Jeg vil alls ekki verða til þess að lengja umræðurnar, þótt jeg taki til máls, enda hygg jeg, að miklar umræður hafi fremur litla þýðingu. Jeg vil nú samt ekki byrja með því að taka það sama fram og sumir þeirra hv. þm., sem talað hafa í þessu máli, að jeg hafi fundið hjá mjer sjerstaka hvöt til þess að tala, af því að jeg hafi betur vit á málinu en allir aðrir hv. þm.

Þetta mál er þannig vaxið, að jeg hygg, að enginn bóndi geti annað en fylgst með í því og skapað sjer skoðun um það, enda þótt hann dæmi ekki um það, hvort eitthvað sje rjettara hjá þessum eða hinum.

Það hefir komið fram hjá ýmsum hv. þm., að þeim þykir undarlegur þessi snúningur hv. landbn., sem í fyrra lagði til, að frv. um útrýmingu fjárkláðans væri samþykt, en er á móti því nú og flytur annað frv. um þrifaböðun á sauðfje. Það þarf nú ekki lengi að leita að ástæðu nefndarinnar fyrir þessu. Hún er tekin fram í nál. meiri hl., þar sem segir, að álit bænda sje það, að með þrifaböðunum megi takast að útrýma fjárkláðanum. Þetta er þá álit nefndarinnar, og það er ekkert út á það að setja, þótt hún hafi þessa skoðun og komi fram með frv. í samræmi við hana. Aðalatriðið er hitt, hvort þessi skoðun er rjettari en hin, sem minni hl. heldur fram.

Það fyrsta, sem styður það, að það sje ólíklegt að þessi skoðun sje rjettari, er reynsla sú, sem fjekst, þegar Myklestadsböðunin fór fram hjer áður fyrri. Þá var ekki hægt að útrýma kláðanum með þrifaböðun, og jeg þekki ekki annað en að allir sjerfræðingar hafi verið þeirrar skoðunar, að slíkt væri ekki með nokkru móti mögulegt. Að vísu hefir nefndin drepið á einn sjerfræðing, er væri þeirrar skoðunar, að það væri mögulegt, en vita vildi jeg nafn þess manns, því að jeg þekki hann ekki. Síðan þessi böðun fór fram, hafa verið framkvæmdar þrifabaðanir undir eftirliti sveitastjórnanna og með eins mikilli nákvænmi og framast hefir verið unt. En eftir alt þetta hefir reynslan verið sú, að kláðinn hefir breiðst út jafnt og þjett. Alt bendir þetta á það, að ekki sje þrifaböðunin trygg, og að ekki sje hægt að ná takmarkinu með henni. Og nefndin sjálf getur ekki haldið því fram, þegar málið er krufið til mergjar. Hv. frsm. meiri hl. (HK) hefir bent á ákvæði 1. gr. frv., sem tryggja ætti, að þetta gæti orðið trygt með þrifaböðun. En þetta ákvæði, er hann vitnar til, er einmitt tvíböðunar ákvæði. Þegar kláði kemur upp í sauðfjenu, verður að fyrirskipa böðun. Þarna hefir nefndin staðfest rjettmæti útrýmingarböðunarinnar, því að ef þrifaböðunin væri einhlít, ætti auðvitað að viðhafa eina þrifaböðun.

Þá hefir verið talað um það, að meiri hl. bænda sje fylgjandi þessari þrifaböðun einni. Jeg get nú ekki sagt neitt um það, því að jeg hefi ekki haft tækifæri til að kynna mjer það, sem fyrir nefndinni hefir legið. Hinsvegar veit jeg ekki, hvernig nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, hvort hún hefir fengið hana úr skýrslum þeim, sem sýslumenn hafa sent; en jeg neita því ákveðið, að það sje mögulegt. Jeg hefi heldur ekki rannsakað þingmálafundargerðirnar til hlítar, hvort í þeim sjeu samþyktir gegn útrýmingarböðun, sem byggja megi á. En það er víst, að þær eru mjög óvíða. Þar sem nú þetta mál var til umr. hjer í þinginu í fyrra og samþykt var hjer í deildinni frv. um útrýmingu, eins og þetta frv. þá hefði það átt að gefa tilefni til áskorana frá bændum um að sinna ekki þessu máli,

ef þeir hefðu alment verið á móti því. En jeg hefi ekki rekið mig á það, að ummæli nefndarinnar geti átt sjer nokkurn stað. Það, sem sýnir best, hvort skýrslur þær, sem fyrir liggja, sjeu þannig á sig komnar, að bygt verði á þeim fast álit, er það, að bæði meiri og minni hl. nefndarinnar styðst við þær og hefir úr þeim um útbreiðslu kláðans og hvernig málið horfir við, hvor frá sínu sjónarmiði, eins og þeir hafa nú lýst. Minni hl. tilgreinir sýktu fjártöluna síðastliðin 5 ár, en meiri hl. gefur óákveðna yfirlýsingu um málið úr hverju hjeraði, sem ekkert ákveðið er úr að hafa.

Jeg skal nú fara nánar inn á þessar skýrslur til þess að sýna, hve ónákvæmar þær geta verið. Mjer er kunnugt um það, að sýslumenn hafa beðið hreppstjóra að gefa skýrslur um útbreiðslu fjárkláðans síðustu 5 árin. Til mín kom þetta sem vottorðsbeiðni. Jeg veit ekki til, að hreppstjórar haldi neinar skýrslur um kláðann, enda ekki gefnar þær af eftirlitsmönnum, sem skipaðir eru í hverju hjeraði og beinn aðgangur var því að. Jeg sagðist því ekki geta svarað þessari beiðni, nema eftir því sem jeg gat fljótlega kynt mjer, en beindi því til sýslumanns, að leita álits eftirlitsmannsins. Þetta dæmi nefni jeg til þess að sýna, hvernig þessar skýrslur eru tilkomnar, líklega víðast hvar. Og þá bæta kláðaskoðunarskýrslurnar ekki úr, sem jeg kem að síðar.

Þá er að líta á hina hliðina, hvort ekki megi útrýma kláðanum með fleiri en einni böðun, t. d. með því að tví- eða þríbaða. Það eru allar líkur til þess, en hitt kann að þykja nokkuð djarft, að telja það ugglaust. En þegar þetta er framkvæmt undir nákvæmu, opinberu eftirliti og allrar varúðar gætt, þá eru ekki meiri líkur til, að kláðanum verði útrýmt á annan hátt. Reynslan er sú, að kláðinn læknast, þegar tvíbaðað er. En hitt er ekki undarlegt, þótt hann kunni að koma aftur, þar sem með þrifaböðun er ekki hægt að komast fyrir rætur hans. Samgöngur fjenaðarins eru miklar, og þar sem nefndin leggur til, að þrifaböðunin fari fram á 3 mánuðum, þá verður ómögulegt að koma því svo fyrir, að ekki verði meiri eða minni samgangur milli óbaðaðs og baðaðs fjár. Og þótt ákvæði sje um það í frv. nefndarinnar, að taka megi og baða fje hjá þeim, sem óhlýðnast fyrirskipununum um böðunina, þá er þó altaf lengi verið að koma því í kring, og vitneskja oft ekki fengin strax. Þetta verður ekki lagað nema með opinberu eftirliti. Þá má líta á þetta mál frá þeirri hlið, að við gætum hugsað okkur, eftir þeim rökum, sem fram hafa verið færð með hvorutveggja, að við hefðum jafna trú á hvorritveggja aðferðinni. Hvernig verður þá kostnaðarhlið málsins, bæði frá ríkisins hálfu og þjóðarinnar? Eftir till. nefndarinnar vex kostnaðurinn við eftirlitið með þrifaböðuninni, sem gera má ráð fyrir, að yrði minsta kosti 10–15 þús. kr. árlega, en lendir þó ekki á ríkissjóði. En ef við leggjum við þetta þann kostnað, er ríkisjóður hefir áður greitt, um 20 þús. kr. árlega, þá sjáum við, að við höfum eytt eins miklu eða meira á 3 árum í þrifaböð eins og við eyðum í eina útrýmingarböðun, en stöndum þó alveg í sömu sporum. Það má líka segja, að þessi kostnaður úr ríkissjóði geti farið langt fram úr 20 þús. kr., ef kláðinn breiðist meira út.

Tökum þá hina hlið málsins, útrýmingarböðunina. Hún kostar þetta sama.

Og þótt sú böðun leiði ekki til þess, að hinn síðasti maur verði drepinn, þá liggur kláðinn niðri miklu lengur en þeim tíma nemur, sem við værum að fá aftur inn það fje, sem til hans væri kostað, þar sem ríkissjóður væri frí við útgjöld um margra ára skeið. Jeg hefi líka þá trú, að endirinn yrði sá, að við gætum á þennan hátt útrýmt fjárkláðanum með einu átaki.

Þannig verður það ljóst, að þetta á ekki að verða fjárhagslegur skaði fyrir ríkissjóðinn. Og það á að vera metnaður og sómi bænda, að gera aðra tilraun, bygða á þeirri reynslu, sem fengin er, tilraun, sem áreiðanlega gerir engan skaða, en getur mikið gagn gert og líklegast alveg fult gagn.

Hjer hefir verið tekið fram stórt atriði í þessu máli, sem er útflutningur lifandi fjár til Bretlands. Eftir útlitinu að dæma eru markaðshorfurnar ískyggilegar og því brýn þörf, að fá nýja markaði, þar sem kostur er. Mjer þykir nú líklegt, að útrýmingarböðunin geti leitt til úrlausnar á því vandamáli, þar sem fjárkláðinn er vitaskuld aðalhindrunin fyrir útflutningi lifandi fjár til Bretlands. Því má vel minnast á þessa leið í sambandi við þetta mál, og er það sterk ástæða til þess að hefjast nú handa og gera það, sem bæði snýr til sóma og hagsmuna.

Jeg sje ekki ástæðu til að fara nákvæmlega út í ýms atriði frv. Vil þó minnast á eitt atriði, sem ekki hefir verið komið inn á áður, að það þarf rækilegan undirbúning undir útrýmingarböðunina. Og hann tekur sinn tíma. Og þar sem þetta frv. liggur nú í sama farinu og í fyrra og við höfum þannig mist eitt ár, þá efast jeg um, að hægt verði að framkvæma undirbúninginn á því tímabili, sem frv. ákveður. Við þurfum að hafa góða og vel æfða eftirlitsmenn, og í öðru lagi að ákveða út frá þeirri bestu þekkingu og reynslu, sem við höfum, hvaða baðlyfjategund henti okkur best. Auðvitað eru þetta í sumum atriðum ekki annað en heimildarlög, því það er komið undir áliti Búnaðarfjelags Íslands, hvort tiltækilegt sje á þeim tiltekna tíma að ráðast í útrýmingarböðun. En þessi íhlutun Búnaðarfjelagsins er ákveðin með tilliti til fóðurmagns bænda eða heyforða. Það má því altaf breyta til um tímann, sem útrýmingarböðunin á að fara fram á. Það getur verið nauðsynlegt, til þess að allur undirbúningur geti verið sem bestur.

Þegar verið er að ræða um útbreiðslu kláðans, þá halda margir því fram, að kláðaskoðun sje einhlít til þess að komast fyrir þetta. En þetta er aldrei ábyggilegt á neinn hátt, og síst, þegar skoðað er á þeim tíma, er kláðinn kemur síst í ljós. Annars hefi jeg oft framkvæmt kláðaskoðun, en aldrei talið hana ábyggilega, og því yfirleitt ljelegt verk, sem litlu ætti til að kosta. Vil jeg tilfæra hjer eitt dæmi þessu til sönnunar.

Eftirlitsmaðurinn í Austur-Húnavatnssýslu, mjög glöggur maður, framkvæmdi kláðaskoðun á sínu heimili og víðar, rjett fyrir böðun. Nokkrum tíma eftir böðunina kom upp kláði í fje hans. Hjer má staðhæfa tvent. Kláðinn er til, þegar skoðað er, og baðlyfið líklega ónýtt. Þetta sýnir ljóslega, að kláðaskoðun er ómögulegt að framkvæma, svo að örugt sje.

Mjer finst jeg ekki hafa með þessum orðum gefið tilefni til að lengja umr., en vildi aðeins láta skoðun mína í ljós á þessu máli, út frá reynslu minni.