07.04.1927
Neðri deild: 49. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 399 í C-deild Alþingistíðinda. (2524)

11. mál, útrýming fjárkláða

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 2. þm. Árn. (JörB) tók það fram, að stjórnin hefði ekki farið algerlega eftir þeirri ályktun, sem hv. Ed gerði í fyrra, um undirbúning þessa máls. þetta er rjett. Í hv. Ed. var samþ., að fela stjórninni að leita umsagnar sýslunefnda, áður en lengra væri farið. Þetta hefir ekki verið gert, heldur hefir stjórnin falið sýslumönnum og bæjarfógetum að útvega upplýsingar um útbreiðslu kláðans, hjá öllum hreppstjórum, sbr. grg. frv. Það liggur í augum uppi, að hreppstjórarnir eiga miklu hægara með að útvega þessar skýrslur heima í sveitum heldur en sýslunefndarmenn, þegar þeir eru komnir á sýslufund. Auk þess var önnur ástæða fyrir því, að þessi leið var farin. í frv. var ákveðið, að útrýmingarböðun skyldi fram fara haustið 1928. En hefði átt að bíða eftir umsögn allra sýslunefnda, hefði ekki verið hægt að leggja frv. fyrir að nýju fyr en á þingi það ár. Og jeg veit, að hv. 2. þm. Árn. viðurkennir, að eitt sumar hafi verið of naumur undirbúningstími, þegar hann telur ekki minna en 5 ár nægja. Þessa hv. deild skildi jeg svo í fyrra, að hún óskaði eftir a. m. k. árs undirbúningi undir kláðaböðunina, og því taldi jeg mig fylgja vilja hennar, er jeg sá svo til, að hægt væri að leggja málið aftur fyrir þetta þing.

Jeg skal viðurkenna, að það er ekki alveg víst, að hægt sje að útrýma kláðanum með þessari böðun. En það má teljast nokkurnveginn víst, eftir reynslunni um Myklestads-böðunina, að við veiðum nokkurnveginn lausir við kláða í næstu 10 ár. Á þeim tíma sparast miklu meira fje í þrifaböðunum en því nemur, sem útrýmingarböðunin kostar, og auk þess er vonin um að geta útrýmt kláðanum með öllu. Og fyrir hana er þó altaf nokkuð gefandi. Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) skýrði það vel og greinilega, hvert gagn við gætum haft af því fjárhagslega skoðað, að útrýmingarböðun færi fram og þarf jeg engu þar við að bæta. Jeg er þess fullviss, að okkur verður ekki meinaður innflutningur lifandi fjár til Englands, ef við framkvæmum þessa böðun og skoðum síðan alt fje nákvæmlega, áður en það fer á skipsfjöl. Þó verð jeg að viðurkenna af reynslunni frá minni fjármenskutíð, að ekki er altaf hægt að sjá, hvort kind hefir kláða eða ekki, þótt hún sje skoðuð allnákvæmlega.

Báðir hv. þm. Árn. segja, að málið þurfi betri undirbúning. Hvaða undirbúningur er það, sem vantar? Jeg sje ekki, að það geti verið annað en það, að fleira fje sýkist. En jeg fæ ekki sjeð, að það sje neitt betra að bíða með útrýmingu þar til 2/3 af öllu sauðfje landsmanna eru sýktir, heldur en að reyna hana meðan aðeins 1/3 eða er sýktur. Hv. þm. nefndu, að það væri ekki áreiðanlegt baðlyf, sem við höfum. En jeg vil aðeins minna á, að á þingi í fyrra var mönnum leyft að nota hvaða lyf, sem þeir sjálfir vilja. Jeg vildi óska, að það væri rjett, sem háttv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að kláðinn breiddist seint út í Árnessýslu. En Árnesingar geta ekki að öllu ráðið við það sjálfir. Það þarf ekki annað en einn utansveitarmaður komi með kláðafje. Þá getur kláðinn breiðst út um alla sýsluna á skömmum tíma. Það er ekki nóg að skoða fjeð einu sinni á ári. Það þarf að gera það miklu oftar og láta kláðaböðun fara fram í þeim sveitum, þar sem kláða verður vart. (MT: Það er einmitt þetta, sem Árnesingar gera!). En þetta kostar ekki lítið fje. Og er ekki eins gott að láta kláðaböðun fara fram um land alt í einu, eins og að framkvæma hana 3. og 4. hvert ár í flestum sýslum, án þess að verulegt gagn verði að. — Jeg skal ekki gera það að kappsmáli, hvort útrýmingarböðun fer fram einu ári fyr eða síðar. En það þýðir ekkert að bíða í þeirri von, að geta losnað við útrýmingarböðun. Upp úr því verður ekki annað að hafa en að kláðinn heldur áfram að breiðast út.