07.04.1927
Neðri deild: 49. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (2525)

11. mál, útrýming fjárkláða

Pjetur Þórðarson:

Jeg býst ekki við, að þessar löngu umræður hafi mikil áhrif á úrslit málsins; hinsvegar hugsa jeg, að svo miklu kappi verði beitt við að knýja málið fram, að jeg efast um, að maður fái síðar tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós um það, svo að nú mun best að gera grein fyrir sinni afstöðu.

Hv. frsm. minni hl. (ÁJ) hefir altaf haldið því fram, að andstæðingar hans fari kringum aðalatriði málsins og töluðu sífelt um aukaatriði. Mig hefir mikið langað til að fræðast um, hvert þetta aðalatriði væri frá hans sjónarmiði, og eftir þriðju stórræðuna hjá hv. þm. (ÁJ) komst jeg að þeirri niðurstöðu, að kjarni málsins, aðalatriðið, hlyti að vera hin mikla markaðshugsjón fyrir lifandi sauðfje. Saga málsins, sem sami hv. þm. hefir farið mörgum orðum um, er allri hv. þd. kunn, svo að ekki er þörf að orðlengja um hana. Jeg mun því gera hv. þm. það til geðs að segja nokkur orð um þessar nýju markaðshorfur. Um þær vill hann áreiðanlega láta tala, og þótt ræða hans væri öll þrungin af visku og lærdómi, tókst honum þó fyrst upp, þegar hann fór að ræða um markaðinn.

Við skulum nú vera bjartsýnir og gera ráð fyrir, að það tækist, að útrýma kláðanum, og snúa okkur þá aðallega að glæsivonunum um markaðinn.

Hv. frsm. minni hl. ljet það ótvírætt í ljós, að á þessum markaðsmálum hefði hann miklu meiri þekkingu en nokkur annar þm. Jeg skal nú fylgja þessum hugsanagangi hans og gera ráð fyrir, að þrefalt meira verð, eins og hann kemst að orði, fengist fyrir kjötið, með því móti, sem hann hugsar sjer, heldur en með þeim aðferðum, sem nú eru tíðkaðar, að flytja kjötið út saltað eða frosið. Hv. þm. hugsar sjer bersýnilega, að fjeð sje flutt út lifandi til Englands í mjög stórum stíl og fái þar að taka bata eftir volkið á leiðinni, eða meira en það. Þetta hlýtur vitanlega að kosta mikið fje, en jeg tók ekki eftir að hann tæki það neitt til greina í reikningum sínum. Hann hefir sem sje slept alveg kostnaðarhlið málsins, og það gerir ekki svo lítið strik í hagsmunareikninginn í þessu máli. Þess vegna er jeg hræddur um, að það fari fyrir fleirum eins og mjer, að þeir geti ekki tekið mikið mark á þessum markaðshugleiðingum hv. frsm. minni hl., og svo mundi fara fyrir mörgum bændum, að þeir geti ekki tekið fult mark á þessu, enda er því varpað fram að lítið athuguðu máli, að mjer virðist. Að minsta kosti býst jeg ekki við, að af þessu verði sá óvenjulegi árangur, sem hv. þm. gerir sjer vonir um.

Nú vil jeg, eftir að jeg hefi ekki getað sannfærst um, að þessi hlið málsins sje á nægilega traustum rökum reist, leyfa mjer að skýra frá, hvernig þessu máli horfir við frá mínu sjónarmiði. En þar hefir hv. 2. þm. Árn. (JörB) tekið af mjer ómakið og teflt fram þeim rökum, er jeg hafði ætlað mjer að koma með, svo að jeg get þá farið fljótt yfir sögu. En þó er það eitt atriði þessa máls, sem mjer virðist ekki hafa verið tekið nógu mikið tillit til, og eiginlega ekki verið minst á, og það er hinn mikli ágreiningur í ræðum og ritum um áhrif og notkun baðlyfja á seinni árum og reyndar alla tíð, síðan farið var að löggilda sjerstök baðlyf hjer á landi og setja ákveðin lög um, hvernig öllu skyldi haga, til þess að halda kláðanum að minsta kosti í skefjum. Það hafa einmitt á seinni árum komið fram mjög miklar umkvartanir í ræðum og riti yfir því, að sum þessi löggiltu baðlyf væru ýmist tæplega nothæf eða jafnvel ónýt, svo að ómögulegt væri að hafa nein hemil á kláðanum eða varna því, að hann breiðist út, ef baðlyfin væru blönduð eins og skipað var fyrir um. Allar þessar umkvartanir hafa gerst það háværar, að þingið í fyrra sá sjer ekki annað fært en að láta undan og gefa landsmönnum laust og frjálst að nota hvaða baðlyf, sem þeir vildu. Yfir þessari lausn málsins urðu margir glaðir og hugðu, að þarna mundi stigið spor í rjetta átt til útrýmingar kláðanum. Enda vil jeg segja, að frá mínu sjónarmiði sjeð var þetta alveg rjett gert af þinginu, svo að menn gætu lifað sig sjálfir inn í málið og tekið þeim tökum á þessum kláðafaraldri, sem ætla mætti að kæmi að einhverjum notum, þegar áhugi og trú einstaklinganna á því væri vakin, að hægt mundi, ef ekki að útrýma kláðanum með öllu, þá að minsta kosti að halda honum í skefjum, svo að hans gætti sem minst.

Þegar athugað er, að þingið hafði einmitt leyst þetta mál á rjettan hátt í fyrra, með því að fela landsmönnum sjálfum fullkomið val baðlyfja og framkvæmdir þessa máls, þá virðist í mótsögn við þá samþ. að fara nú að lögskipa útrýmingarböðun um land alt, áður en almenningi gefst kostur á að reyna hið frjálsa val baðlyfja, og áður en nokkur árangur sjest af þeirri tilraunastarfsemi. Það er eins og hæstv. atvrh. hafi enn ekki skilið, að þegar hv. Ed. og fleiri vildu ekki í fyrra fylgja honum í því, að lögskipa þá útrýmingarböðun, að deildin benti um leið á ákveðið markmið, sem sje það, að fá upplýsingar sýslunefnda um útbreiðslu kláðans og till. þeirra um, hvað gera ætti til stöðvunar honum eða útrýmingar. En í staðinn fyrir það, að starfa áfram á þeim grundvelli, sem lagður var í fyrra, heldur hæstv. ráðh. (MG) áfram að þrátta um málið og tekur upp á sitt eindæmi að hafna tilmælum hv. Ed. og ber nú fram frv., sem á að fyrirbyggja það, að landsmenn geti sjálfir reynt að vinna þessu máli alt það gagn, sem gera má ráð fyrir að þeim takist, þegar þeir eru sjálfráðir og hafa bæði vilja og áhuga til að gera alt sem í þeirra valdi stendur.

Jeg vona, að þessi hv. deild beri enn gæfu til þess, að koma máli þessu áfram og til hv. Ed. En þá vil jeg minna hæstv. atvrh. á það, út af þeim orðum, sem hann ljet falla í garð tveggja manna í landbn. þessarar hv. deildar, sem væru nú á annari skoðun en í fyrra, og færði þeim það heldur til ámælis, að hann muni þá varla taka sjer nærri, þó að hv. Ed. hjeldi sjer við sömu skoðun og í fyrra og fjellist ekki á frv. hans um útrýmingarböðun.

Hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) talaði mjög skynsamlega um málið, enda gat jeg ekki betur skilið en að hann með sínum varlega ferli í gegnum stjfrv. kæmist að sömu niðurstöðu og við í frv. því, sem enn er ekki komið til umr., en er hjer næsta mál á dagskránni.

Í framhaldi af því, sem jeg sagði um notkun baðlyfja, þá er álit mitt, að hin frjálsa notkun baðlyfja, sem þingið gerði ráð fyrir í fyrra, fái að reyna sig um nokkur ár, og er jeg þá sannfærður um að árangur þeirrar reynslu mundi verða betri og hagkvæmari en bjartsýnustu fylgjendur þessa frv. hafa hugsað sjer eða gert sjer vonir um, sem árangur af því.

Það er rjett, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði, að þetta væri trúmál. Hjer er trú á móti trú, og staðhæfing á móti staðhæfing. Það er altaf svo, að skoðanir manna styðjast meira og minna við trú á góðum árangri hvaða máls sem er, og á líkum og vonum um, að vel fari. Hv. frsm. minni hl. byggir sína trú á hræðslu við núverandi markaðshorfur og hinsvegar á glæsilegum markaði, ef okkur tekst að útrýma kláðanum í einu snöggu átaki og að því búnu fá ótakmarkað leyfi Breta til að flytja út lifandi sauðfje til þeirra. En þetta finst mjer svo hátt uppi í skýjum hugsjónanna, að mjer virðist ekki tímabært að ræða um það í þessu sambandi.

Það, sem jeg vildi þá segja í framhaldi af þessum almennu athugasemdum, er það, að kláðinn er nú sem stendur minni en hann var fyrir 4–5 árum. Það eru því staðlausir stafir, sem þeir menn byggja á, sem halda því fram, að kláðinn sje útbreiddari nú en þá; því þó að benda megi á, að hann sje kannske í fleiri sýslum, og jafnvel hreppum, en stundum áður, þá er hann þrátt fyrir það á færri bæjum og í margfalt færra sauðfje en áður, eða á þeim tíma, sem aðallega er vitnað í.

Til þess svo að halda áfram þeirri reynslu með frjálsa notkun baðlyfja, þá þarf að auka eftirlitið, eins og hv. þm. V.-Húnv. tók fram. Það er einmitt það, sem við meirihlutamenn í nefndinni gerum ráð fyrir í okkar frv., að skerpa eftirlitið til muna. Það var í sambandi við þessa væntanlegu reynslu, sem jeg álít rangt hjá sama hv. þm„ að sveitarstjórnir mundu fara sínu fram í þessu máli, eins og hver um sig áliti, að ætti að vera, en reynast mundi mismunandi kák, og þetta miðaði hann við reynslu undanfarandi ára. En þetta er ekki rjett ályktað, vegna þess að sveitarstjórnir hafa verið bundnar við baðlyf, sem þær höfðu enga trú á og töldu ónothæf með öllu, svo að sú reynsla, sem þá fjekst, má að engu leyti leggjast til grundvallar fyrir því, sem verða mun, þegar um frjálst val á baðlyfjum er að ræða.

Hæstv. atvrh. hefir margtekið fram, að eitt bað dygði ekki til þess að útrýma kláðanum. En þarna er sagan ekki nema hálfsögð, því þegar menn nota það bað, sem þeir hafa trú á, og blanda það eftir sinni eigin reynslu, þá eru mikil líkindi til, að ein böðun gefi góðan árangur. Jeg þekki mörg dæmi þess, að magnaður kláði hefir læknast með einni böðun. Ein böðun á ári getur því alveg eins útrýmt kláðanum eins og margt annað. Reynslan hefir sýnt, að í heilum sveitum, og jafnvel sýslum, má halda kláðanum frá sjer með einni böðun á ári. Þetta er búið að sýna og sanna og svo af að segja, að 4–6 árum eftir að útrýmingarböðun hafði farið fram, var hann alveg horfinn og eins líklegt að hans verði ekki aftur vart, úr því menn hafa einu sinni lært að verjast honum. Það eru því ekkert annað en hrakspár, sem bygðar eru á vantrú manna, þegar því er haldið fram, að með einni böðun á ári muni sækja í sama farið aftur og að kláðinn breiðist út á sama hátt og fyr eftir 5–10 ár.

Hv. þm. V.-Húnv. var að minnast á, að mikinn undirbúning þyrfti um þetta mál og til hans að vanda á allan hátt, og er hann okkur meirihlutamönnum sammála að mestu leyti um þetta atriði. En svo benti hann á eitt í því sambandi, sem okkur hafði ekki dottið í hug, og það var það, að full þörf mundi á að undirbúa vel nokkra menn, sem hefðu svo á hendi eftirlit með útrýmingu kláðans. Jeg get vel fallist á þetta, og mundi því best að fá þessa menn úr þeim sýslum, þar sem verst gengur að halda kláðanum í skefjum, eins og t. d. í Húnavatnssýslu og Dalasýslu. Jeg get ekki búist við, að heppilegt mundi að fá slíka menn t. d. úr Mýrasýslu, þar sem menn hafa varist kláðanum jafnlengi og búið er.

Með þessu vona jeg að hafa svo komist að rjettri niðurstöðu hv. frsm. minni hl. um kjarna málsins. Og held jeg því, að jeg geti látið lokið máli mínu að sinni, enda sje jeg litla ástæðu til að endurtaka það, sem aðrir hv. ræðumenn hafa sagt á undan mjer.