08.04.1927
Neðri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (2531)

11. mál, útrýming fjárkláða

Jón Sigurðsson:

Það voru víst 5 eða 6 hv. þm., sem næstir töluðu á undan mjer, er allir lögðust á eina sveif og töldu sig mótfallna frv. því, sem hjer er til umræðu. Það hafa staðið óvenju langar umræður um þetta mál, og eins og oft vill verða, þegar umræður verða langdregnar, hafa orðið nokkurar endurtekningar og umr. snúist um aukaatriði. Þannig hefir t. d. töluvert verið deilt um það, hver hafi verið stefna búnaðarþings í þessu máli. Báðir flokkarnir hafa reynt að taka umsögn þess sjer til inntekta, með og móti. Aðrir hafa vitnað í þingmálafundargerðir, og sumir í almennan bændavilja, sem enginn veit þó hver er. Það hefir sem sje verið togast á inn þetta, eins og hrátt skinn. En jeg ætla ekki að fara að blanda mjer í þann skinnaleik, en skal hinsvegar, til glöggvunar eftir alt þetta moldviðri, draga fram þau atriði, sem færð hafa verið fram með og móti þessu máli. Þó vil jeg fyrst drepa á eitt atriði í sögu málsins.

Háttv. 2. þm. Árn. (JörB) vildi láta það skína í gegn, að frv. hefði í fyrra verið borið fram eftir beiðni Magnúsar Einarssonar dýralæknis, og vildi með því skjóta sjer undan króganum. En þessu mótmæli jeg algerlega. Dýralæknir mintist að vísu á þetta mál, í sambandi við annað mál. En nefndin kaus þá háttv. 2. þm. Árn. (JörB) og háttv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) til þess að semja frv. í þessa átt, í samráði við dýralækni. Þetta gerðu þeir, eins og gerðabókin ber með sjer. Þeir eru því fyrst og fremst feður þessa frv., og háttv. 1. þm. N.-M. (HStef) lagði svo blessun sína yfir krógann, með mjög hjartnæmri ræðu hjer í deildinni.

Jeg skal svo ekki hafa þennan formála lengri, og snúa mjer að þeim andmælum, sem borin hafa verið fram gegn frv., og er þá sjerstaklega ræða hv. þm. Borgf., sem gefur tilefni til andsvara, því að þar voru dregin fram öll þau rök, sem hægt er að tylla á móti frv. þessu. Fyrsta mótbáran var sú, að baðlyfið yrði ónýtt, sem notað yrði til útrýmingar. Þessu er því að svara, að það hefir ávalt verið tilætlunin, og það var skýrt tekið fram í fyrra, að rækilegar tilraunir yrðu látnar fara fram, með verkanir ýmsra baðlyfja á kláðamaur í lifandi kindum, áður en byrjað væri á útrýmingu. Þessi ótti hv. þm. Borgf. er því með öllu ástæðulaus. Út frá þessum hrakspám komst hann svo út í að tala um baðlyf alment, og komst að þeirri niðurstöðu, að kláðinn hefði fyrst farið vaxandi, eftir að lögskipaða kreolínið kom til sögunnar. Út í þetta ætla jeg ekki að fara, en jeg vil aðeins spyrja háttv. þm., hvernig stóð þá á kláðafaraldrinum mikla í Árnessýslu 1922, þegar ríkisstjórnin varð að grípa inn í með sjerstökum ráðstöfunum. Ekki hefir ónýtt baðlyf verið notað þá, þar sem ekki eru nú í sýslunni nema 3–4 kláðakindur, eftir upplýsingum þingmannanna.

Þá er önnur ástæðan, sem þm. Borgf. bar fram, að fjeð næðist ekki alt; það væri á fjalli og víðar. Úr þessari ástæðu hafa flestir gert lítið, enda er hún lítils virði, því að það er margreynt, að fje, sem liggur úti langt fram á vetur eða vetrarlangt, smitar ekki úti og tæplega inni, fyr en þá eftir langan tíma, því að lífsskilyrði fyrir maurinn eru þá svo slæm. Til öryggis væri þó sjálfsagt, að hver kind væri merkt tryggu merki um leið og hún væri böðuð; þyrfti merkið helst að sjást árlangt. Hver kind, sem svo kæmi fyrir ómerkt, yrði að afhendast umsjónarmanni til böðunar. Ákvæði viðkomandi þessu eiga ekki að standa í lögum, heldur á að setja þau í reglugerð, sem stjórnin hlýtur að verða að gefa út í samráði við dýralækna o. fl.

Þá er þriðja ástæðan, að húsin verði ekki hreinsuð. Þessi mótbára styðst við það, sem einn dýralæknir hefir slegið fram. En hvað segir reynslan okkur, eftir útrýmingarböðunina 1902–3? Hún sýnir, að hægt var að útrýma kláðanum úr mörgum sýslum, án þess að húsin væru hreinsuð, og sannar því, að þau eru ekki eins mikill þrándur í götu fyrir útrýmingunni, eins og sumir hv. þm. vilja vera láta. Sama sýnir reynsla Norðmanna, og eru fjárhús þeirra síst betur fallin til sótthreinsunar en okkar fjárhús. Tókst þeim eigi að síður að útrýma kláðanum, eins og kunnugt er.

Þá vil jeg víkja máli mínu til háttv. 2. þm. Árn. (JörB). Hann taldi að undirbúningstíminn væri of stuttur, og það út af fyrir sig væri nóg ástæða til þess að vera á móti frv. En því ekki að lengja frestinn? Jeg sje ekki annað en þeir, sem álíta, að mikils undirbúnigs sje þörf, ættu fremur öllum öðrum að stuðla að því, að frv. verði samþykt með þessum breytingum, svo hægt sje að byrja á þessum undirbúningi. Hv. þm. V.-Sk. taldi málið óundirbúið. Jeg get ekki skilið, hvernig hann ætlast til þess, að stjórnin færi að kosta miklu fje til undirbúnings, meðan hún vissi ekki, hvort málið gengi fram eða ekki. Jeg býst satt að segja ekki við, að hún hefði fengið miklar þakkir fyrir slíkt, hvorki hjá honum nje öðrum. Háttv. 1. þm. N.-M. talaði um, að þrjár baðanir gerðu mikinn skaða, og meðal annars væri ekki gerlegt að hverfa að útrýmingarböðun fyrir það, hversu mjög baðanirnar spiltu heilsu fjárins. Því skal ekki neitað um þrjár baðanir, og hefi jeg ekki gert það upp með mjer, hvort betra muni, að hafa þrjár baðanir í einu, eða tvær útrýmingarbaðanir tvö haust í röð. Í þessu sambandi verður að gæta þess, að útrýmingarböðuninni er ætlað að fara fram að haustinu eða fyrri part vetrar, þann tímann sem fje er venjulega best fyrir kallað. Nú er það langtíðast, að kláða verði vart seinnipart vetrar, og verður þá að baða fjeð oft á stórum svæðum um sumarmál, þegar ær eru komnar að burði; sennilega geta flestir gert sjer í hugarlund, hvernig þessum skepnum muni líða, og þó veit jeg ekki til, að tjón hafi hlotist af þessu. En þess væri þó miklu fremur að vænta en af þrem böðunum, þegar fjeð er best fyrir kallað, sem er fyrri hluta vetrar.

Þá er 6. og síðasta ástæðan, sem tínd hefir verið fram gegn frv., og mætti kalla hana „smávandræði“. Hún kom mest fram í ræðu hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ). Hann talaði um eintóm smávandræði, t. d. að dagarnir væru of stuttir, til þess að hægt væri að framkvæma útrýmingarböðun. En jeg hjelt sannast að segja, að þeir yrðu jafnlangir, hvort baðað væri þrifabaði eða útrýmingarbaði. Annars hefir stundum verið reynt að bregða upp ljósi, til þess að nota kvöldin og morgnana, þegar þess hefir verið þörf.

Þetta eru þá ástæðurnar, sem færðar hafa verið fram gegn frv. þessu, og jeg verð að telja þær harla ljettvægar.

Þá kem jeg að rökum okkar fylgismanna frv. fyrir nauðsyn þessa máls og líkunum fyrir, að útrýming geti tekist. Er þá fyrst og fremst að benda til þess, að Norðmönnum tókst að útrýma kláðanum hjá sjer, sem var þó allmagnaður, en þar eru lík skilyrði og hjer, fjeð rekið til fjalla og fjárhús svipuð, síst betri. Og yfir höfuð kem jeg ekki auga á neitt stórvægilegt atriði, sem er öðruvísi en hjer. Í öðru lagi má benda á, að við komumst svo langt 1902–3, að okkur tókst að útrýma kláðanum úr mörgum sýslum, aðeins með einni böðun á heilbrigðu fje, og tveimur á sýktu. Og nú hefir allur almenningur fengið meiri reynslu og þekkingu á þessum efnum en hann hafði þá. Auk þess eru öll tæki betri, og bændur viðurkenna nú alment, að kláðafje verði ekki læknað með einu baði.

Vegna sparnaðar reyndi Myklestad eina böðun á fje, sem var talið ósýkt, en tvær á sýktu. En eins og að líkindum lætur, geta kláðaskoðunarmenn aldrei verið öruggir fyrir því, að þeim skjótist yfir eina og eina kind; getur kláðin því altaf leynst, og er því eina ráðið að baða alt fje, sýkt og ósýkt, fullkominni kláðaböðun. Þær kindur, sem baðaðar væru t. d. einu baði, gætu orðið uppspretta að nýrri kláðaútbreiðslu, og af því höfum við nú fengið að súpa seyðið. Nú er meiningin að tefla ekki á tvær hættur með þetta, meiningin er að spara ekkert í þessu efni, til þess að hægt sje að drepa seinasta maurinn. Þegar maður ber saman aðstöðu okkar nú við aðstöðuna árin 1902–3, þá sje jeg ekki betur en að líkurnar sjeu yfirgnæfandi fyrir því, að okkur takist að útrýma kláðanum. En þá er ekki nema eðlilegt, að menn spyrji, til hvers sje að vinna, og vil jeg þá fyrst sjerstaklega drepa á eitt atriði, sem hv. frsm. minni hl., er nú mun vera dauður, eða því sem næst, lagði sjerstaka áherslu á. Það er að nota breska markaðinn fyrir lifandi fje. Það voru stórkostlegar breytingar fyrir okkur, þegar Englendingar bönnuðu innflutning á lifandi fje um 1896, vegna kláðans. Kláði er að vísu til í Englandi, en eðlilega óska enskir bændur ekki að fá nýja kláðaveitu yfir sig; þeir óska vitanlega ekki eftir, að þær heilbrigðu hjarðir, sem þar eru, sýkist, og jeg hygg, að hver einasti bóndi geti þar litið í sinn eigin barm til að skilja ástæður þeirra.

Fyrir nokkrum árum var leitast fyrir um það, hvort ekki væri hægt að fá bannið upphafið, en svörin voru á þá leið, að meðan þessi húsdýrasjúkdómur geisaði hjer, þýddi ekki að tala um þetta mál við ensku stjórnina.

En er þá nokkuð unnið við þetta? Hv. þm. Mýr. taldi í ræðu sinni höfuðástæðuna á móti útflutningi hjeðan, að kostnaðurinn mundi verða svo mikill. Það vill nú svo vel til, að við höfum dálitla reynslu í þessu efni, og það hefir sýnt sig, að kostnaðurinn er síst fráfælandi, ef við aðeins getum notið þess verðlags, sem hægt er að fá fyrir fje, sem slátrað er á hentugum tíma. En þegar verður að slátra eftir 10 daga, hvernig sem á stendur, er ekki von, að við getum notið þess verðlags, því að fjeð er mjög hrakið og þarf nokkurn tíma til þess að jafna sig eftir reksturinn hjer heima og sjóferðavolkið. Fjeð er þá í hraðri aflagningu, sem hefir sín áhrif á gæði kjötsins. Leiðin til að fá miklum mun hærra verð fyrir fjeð á enskum markaði er að fá þessar sóttvarnarráðstafanir afnumdar, að því er okkur snertir, en þær fást ekki afnumdar fyr en við höfum útrýmt kláðanum. Í mínum augum er þetta allmikilsvert atriði fyrir landbúnaðinn, og það er af því, að jeg lít svo á, að þó að við höfum fengið frystiskip, og hefi jeg oft fengið tækifæri til að láta það álit mitt í ljós, hver hjálp það getur orðið fyrir okkur, þá blandast mjer samt ekki hugur um, að það er aðeins byrjunarspor að stærra marki, ef svo má að orði komast. Frystiaðferðin er öruggust, og því áhættuminst. Þess vegna er hún valin fyrst, enda þótt verð á frosnu kjöti sje tiltölulega lágt og samkepnin hörð, en að sjálfsögðu á jafnframt að nota tímann til að þreifa sig áfram með útflutning á kældu kjöti. Markmið okkar á að vera að flytja út vörur okkar þannig, að við fáum sem hæst verð fyrir þær sem fyrsta flokks vöru, en það er, hvað kjötið snertir, að koma því í sem líkustu ástandi á markaðinn og það er við slátrun hjer heima. Þetta er það, sem við eigum að keppa að. En leiðin er ekki aðeins sú eina, að flytja út kælt kjöt, heldur líka með því að flytja út lifandi fje. Þá kemur íslenska kjötið í hendur Englendinga eins fullkomið og hægt er, með öðrum orðum, þeir fá tækifæri til að slátra fjenu sjálfir. Jeg veit, að eldri mennirnir muna þann gullstraum til landsins, þegar Coghill gamli var hjer á ferðinni. Jeg hygg, að aldrei hafi annar eins gullstraumur runnið yfir íslenskan landbúnað eins og þá, og Englendigar sýndu það, að þeir kunnu fullkomlega að meta íslenska kjötið, og svo mundi verða enn, ef hömlunum væri ljett af.

Þá vil jeg aðeins minna á tvær aðrar ástæður, sem jeg færði hjer fram fyrir nokkru og ekki hefir verið borið við að mótmæla, og það er fyrst og fremst árlegur kostnaður ríkissjóðs og einstaklinga af þessu kláðafargani, eða þessari viðleitni að reyna að halda kláðanum í skefjum, sem kallað er. Ríkissjóð hefir í undanfarin fimm ár kostað þetta að meðaltali 20 þús. kr. á ári, og svo er þó allur annar kostnaður ótalinn, sem tæpast verður minni en kringum 40 þús. eða samtals um 60 þús. kr. á ári. En á hinn bógin hefir verið lögð hjer fram skýrsla um kostnaðinn í fyrra, sem ekki hefir verið vefengd, vegna þess að hún var bygð á markaðsverði og sýndi, að baðlyfið, sem ríkissjóður átti að borga, kostaði ekki nema um 100 þús. kr. Kostnaðurinn endurgreiðist því, eins og þegar hefir verið sýnt, á 4–5 árum, samanborið við það, ef þessu gamla káki væri haldið áfram. Það er þess vegna, að útrýming er í mínum augum hreint og beint gróðafyrirtæki fyrir okkur bændur og þjóðina í heild sinni.

En hvað er okkur svo boðið í staðinn fyrir útrýmingu? Og það er sjerstaklega ástæða til að minna á þetta, af því að hv. þm. Borgf. og sumir aðrir hv. þm. hafa ekki einasta gert þetta frv. að umtalsefni, heldur líka hitt frv., sem er næsta mál á dagskránni. Okkur er þar boðið upp á böðunarkák, og við eigum samkv. því að halda áfram með eina böðun á fje, sem allir viðurkenna að sje gagnslaust til útrýmingar, því að það vita allir eins víst og að 2 og 2 eru 4, að það eru ekki til baðmeðul, sem drepa bæði kláðamaurinn og eggin með einni böðun.

Þá var það einn hv. þm., sem lagði aðaláhersluna á eftirlitið. Það var sá hyrningarsteinn, sem alt átti að hvíla á. Það var að hans áliti nægilegt að baða einu sinni, ef hreppstjórinn stóð yfir og passaði blöndunina og sá um að kindunum væri haldið hæfilega lengi niðri í baðinu, enda þótt allir menn viti, að maurin skríður úr egginu eftir vissan tíma. Eftirlitið er gagnslaust á svona grundvelli.

Það má í þessu efni benda til reynslu síðustu 20 ára, og hver er hún? Reynslan er sú, að kláðinn hefir útbreiðst jafnt og þjett síðan útrýmingarböðun var framkvæmd, og það er komið svo, að kláðinn er kominn í þær sýslur, er enginn kláði var í 1903, þrátt fyrir öll þessi árlegu þrifaböð, sem meiri hl. landbn. hygst að útrýma með kláðanum.

Frv. meiri hl. landbn. gerir ráð fyrir, að haldið sje áfram þessari sömu vonlausu baráttu við fjárkláðann og verið hefir. En vonlaus er hún, af því að hún byggist á aðferðum, sem ganga þvert á móti viðurkendum vísindalegum sannindum og 20 ára reynslu hjer á landi. Í þetta vill meiri hl. kasta árlega fje, er nemur mörgum tugum þúsunda kr. Alla þessa vonlausu baráttu og kostnað vilja „kláðafriðunarmenn“ leggja á landbúnaðinn og ríkissjóðinn, heldur en reyna að vinda þessu oki af okkur með einu knöppu átaki. Jeg fæ ekki skilið slíkan hugsunarhátt.