08.04.1927
Neðri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (2532)

11. mál, útrýming fjárkláða

Sveinn Ólafsson:

Þess er ekki að vænta, að hjeðan af komi mikið nýtt fram í slíku máli sem þessu, þegar búið er að þrídægra umræðurnar. Og þar sem málið er hvorki sjerstaklega flókið nje umfangsmikið.

Jeg vildi helst ekki þurfa að endurtaka mikið af því, sem hjer hefir komið fram, og skal að mestu leyti sneiða hjá því. Mjer finst þó, að jeg verði að víkja fám orðum að hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ), sem hefir tekið að sjer að berjast fyrir útrýmingarböðun á næsta ári. Um leið og jeg vík að nokkrum orðum hjá hv. þm. (ÁJ), þykist jeg hafa svarað öðrum, sem fylgja honum að máli og í líkan streng hafa tekið.

Hv. þm. kvað svo að orði um þá, sem á móti hafa mælt útrýmingarböðuninni, þ. e. a. s. frv. á þskj. 11, að þeir í athugasemdum sínum hefðu ekki komið nærri efninu, en dvalið við óskyldar eða fjarskyldar hugleiðingar. Aðrar álíka staðgóðar fullyrðingar um okkur meðmælendur frv. meiri hl. landbn. ljet hann óspart fylgja, og vil jeg ekki tefja tímann með því að mótmæla þessu sjerstaklega. En það verð jeg að segja, að slík málsvörn hv. þm. sannar ekki neitt, nje heldur getur hún verið sannfærandi fyrir nokkurn mann. Hv. þm. (ÁJ), eins og fleiri, vildi vefengja það, að bændur úti um sveitir væru mótfallnir þessari útrýmingarböðun nú á næstu tímum, en jeg held, að óþarft sje að deila um þetta, því að bæði er það, að hjer í þessari hv. deild hafa þeir bændur mótmælt stjfrv., sem reynslu hafa mesta í þessum efnum, og í öðru lagi hefir mótmælum gegn því verið hreyft úr ýmsum stöðum á landinu. Jeg hefi t. d. nýlega fengið tvö brjef austan af landi, þar sem mikil áhersla er lögð á það, að þessi útrýmingarböðun verði ekki lögfest að sinni. Það er því engum vafa bundið, að mikill fjöldi manna víðsvegar um land er mótfallinn frv. um. útrýmingarböðun, og hræðist það, og það geta allir sagt sjer sjálfir, að ef þessi böðun verður lögfest í trássi við svo almennan vilja fjáreigenda, að þá er ekki að vænta þess, að árangurinn verði glæsilegur eða góður, svo tvísýnn sem hann þó er að öðru leyti.

Bæði hv. frsm. minni hl. og margir aðrir hv. þm. hafa lagt áherslu á það, að kláðinn væri að útbreiðast og magnast í landinu. Að vísu hefir þessu verið mótmælt af öðrum, en mjer finst samt það vera svo tiltölulega margir, sem halda, að þetta sje rjett og satt, að rjett er að koma að því aftur. En það sanna í þessu máli mun vera, að kláði hefir aukist á einstöku stöðum, en áreiðanlega rjenað á öðrum. Jeg hygg það rjett, að hann hafi útbreiðst í Húnavatnssýslu og ef til vill í Skagafjarðarsýslu, en jeg hygg það líka óyggjandi, að hann hafi rjenað á Austurlandi, í báðum Múlasýslum, og það til stórra muna. Jeg er heldur ekki í vafa um það, að orsökin til þess, að hann er nær útdauður á þessum stöðum, er það, að vandleg og almenn þrifaböðun hefir verið framkvæmd, og mjer finst, að ekki þurfi að grafa djúpt eftir orsökunum til þess, að hann hefir útbreiðst annarsstaðar, t. d. í Húnavatnssýslu. Þar hygg jeg, að ónýtt eða skemt baðefni eða misheppnaðar baðanir hafi stutt að útbreiðslu hans.

Jeg ætla, að það væri 1922 eða 1923, að deilt var hjer á þingi um nothæfi baðlyfja, einkum þess innlenda, að einn hv. þm. — og það mun hafa verið hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) — lýsti því lögskipaða baðlyfi svo, að það hefði reynst kjarnmesta færilúsafóður, og hefði hún magnast við böðunina síðustu. Má nærri geta, að kláði hafi eigi rjenað, meðan slíkt baðefni var notað, enda hefir reynslan víðar sýnt, að innlenda baðlyfið, og sumar tegundir þess útlenda, hafa við geymslu botnfallið svo, að þau hafa að litlu sem engu verið nýt. Ummæli fleiri manna á sama þingi gengu í svipaða átt. Sumir töldu baðlyfið gagnslaust, en aðrir skaðlegt fjenu. Með þessu vildi jeg benda á það, að það er í sjálfu sjer ekki neitt undarlegt, þó að sumstaðar hafi virst svo sem kláðinn útbreiddist, en annarsstaðar rjeni, því að þetta hefir áreiðanlega farið eftir því, hve vandlega hefir verið unnið að þrifaböðun á hverjum stað, og hve gott baðefnið hefir verið. Jeg skal líka geta þess, að þegar innlenda baðlyfið var tekið upp, þá voru á Austfjörðum víða, þar sem jeg þekki til, notaðar leifar af útlendu baðlyfi, Coopersbaðlyfi eða öðrum þektum tegundum, sem reynst höfðu ágætlega.

Hv. 2. þm. N.-M. virðist leggja sjerstaka áherslu á það, að með því að fresta útrýmingarböðun muni hætta mikil á því vera, að markaður sá spillist, sem annars kynni að opnast fyrir útflutning lifandi fjár. Út af þessu vil jeg aðeins benda á það, að útflutningur lifandi fjár getur ekki orðið nema að haustinu, en á haustin er venjulega ekki auðvelt að finna kláða, nema magnaður sje; þess vegna eigi líklegt að hann spilli þá markaði. Í öðru lagi má telja nokkurnveginn víst, að ef hafinn yrði af nýju útflutningur á lifandi fje, þá yrði það gert undir ströngu eftirliti og fje skoðað vendilega áður en það væri sent úr landi. Jeg held þess vegna, að það sje ástæðulaus ótti við kláðasýkingu á útfluttu lifandi fje, sem fyrir hv. þm. (ÁJ) vakir, enda held jeg, að það geti dregist nokkuð ennþá, að þessi útflutningur lifandi fjár verði upp tekinn aftur.

Yfirleitt fanst mjer hv. 2. þm. N.-M. í flestum atriðum byggja meira á trú sinni eða hugboði, heldur en á reynslu, og það er eðlilegt og vonlegt, því að jeg veit, að hv. þm. hefir um þessa hluti ekki mikla reynslu; jeg veit, að í þessum efnum verður hann sumpart að byggja á sögusögn annara, en sumpart á lestri misjafnlega áreiðanlegra bóka; reynslu í þessum efnum getur hann ekki haft neina.

Hv. þm. er einn af þeim hamingjusömu mönnum, sem að meira leyti lifa í trú en í skoðun, þegar um slíkt mál og þetta ræðir, og það er sjálfsagt ekki rjett að áfella hann fyrir það. Hans mikla afsökun liggur í því, að hann trúir á ágæti kenningar sinnar, svo fráleit sem hún er. Jeg efast ekki um það, að hv. þm. gangi gott eitt til og að hann trúi því, að hann sjálfur beri skyn á þetta fremur öðrum, sem hjer eru. Hann trúir því, að kláðanum verði útrýmt með einu áhlaupi og án skaða fyrir fjáreigendur, trúir á glæsilegan árangur af vanhugsuðum viðbúnaði. Jeg verð samt að lýsa yfir því sem skoðun minni, að ef lögfest verður slík ráðstöfun sem þessi, er felst í frv. á þskj. 11, þá skil jeg ekki annað en að hún verði feld úr gildi á næsta þingi, eftir næstu kosningar, og færi svo, þá væri nú ófyrirsynju eytt dýrmætum tíma þingsins frá öðrum störfum í langvinnar deilur um þetta mál.

Jeg ætla ekki að fara út í frv. hv. meiri hl. landbn. að þessu sinni; það er næsta mál á dagskrá, og þarf ekki að víkja að því fyr en þar að kemur. En þessi orð vildi jeg sagt hafa, áður en gengið verður til atkvæða um þetta hrapallega frv. á þskj. 11.