08.04.1927
Neðri deild: 50. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (2534)

11. mál, útrýming fjárkláða

Pjetur Ottesen:

Því hefir verið haldið fram af þeim, sem trúaðir eru á mikinn og góðan árangur af útrýmingarböðun samkvæmt. frv. hæstv. stjórnar, að trygging sje mikil í því, að kláðanum verði algerlega útrýmt, með því að nú eigi að fara fram þrjár baðanir. Þó eru aftur aðrir, eins og jeg hefi áður bent á, farnir að draga í land, og líta svo á, að ekki muni takast að útrýma kláðanum með þessu móti, og hæstu vonir, er þeir gera sjer, eru þær, að takast muni að halda kláðanum nokkuð niðri.

Jeg benti á það í gær, að frá mínu sjónarmiði væri það ekkert aðalatriði, hvort einu sinni, tvisvar sinnum eða þrisvar sinnum væri baðað, heldur hitt, að eftirlit með böðununum væri trygt, baðlyfið gott, alt fje kæmi til böðunar og kláðamaurnum útrýmt úr fjárhúsunum.

Hv. 2. þm. Skagf. (JS) hefir með langri ræðu reynt að sýna fram á, að þetta væri ekki aðalatriði í málinu, heldur hitt, að fram færu 2–3 baðanir. Það er nú gengið út frá því í frv., að baðanir skuli vera þrjár, og það talið nauðsynlegt, en hjer hefir hv. þm. farið líkt og öðrum, að hann er farinn að draga í land og gerir nú ráð fyrir því, gagnstætt því, sem hann hefir áður haldið fram, að tvær baðanir muni nægja.

Jeg hygg, að kláðinn hafi aukist mikið síðan bændur voru einskorðaðið við að nota aðeins eina baðlyfjategund. Hv. þm. reyndi að hrekja þetta með því, að fyrir þrem árum, eða áður en þessi baðlyfstegund var lögleidd, þá hafi kláðinn logað í Árnesýslu. En ástæðurnar til þess hygg jeg að hafi verið þær: 1. að bændur höfðu verið svo óhepnir að fá í það skifti slæmt baðlyf; 2. að eftirlit með böðun var ónóg; 3. að ekki var alt fje baðað.

Það er náttúrlega ekki gott að meta það, hver af þessum ástæðum hefir átt mestan þátt í því, hvernig fór í þetta skifti í Árnesssýlu. En að því leyti sem það hefir átt rót sína að rekja til þess, að baðið var ljelegt, þá er það fullkomin bending um, hver mundi verða árangur útrýmingarböðunarinnar, ef það baðlyf, sem þá yrði notað eingöngu, reyndist ljelegt, eins og áður hefir komið fram um hið lögskipaða baðlyf.

Þá reyndi hv. þm. að hnekkja þeirri ástæðu, að hættulegt væri, að ekki næðist í alt sauðfje til böðunar, og sagði, að það væri engin hætta á því, að kláði kæmi upp í útigangsfje. Jeg vil hjer minna hann á það, sem sagt hefir verið hjer áður í deildinni í sambandi við útflutning lifandi sauðfjár til Englands, þar sem menn gerðu ráð fyrir því, að eftir að sauðfje hefði verið í frjálsræði alt sumarið, mundi það vera svo útsteypt í kláða, að markaði fyrir það í Englandi yrði lokað. Sje nú þetta svona, sem vitanlega getur komið fyrir, að kláða verði vart í kindum að haustlagi, þá er það víst, að útiveran ein er ekki þess megnug, að kláðinn geti ekki haldist við, og því síður að vetrarlagi, því það er margreynt, að eftir því sem sauðkindin lifir við þrengri kost, þá hefir hún minna mótstöðuafl gegn kláðanum, og undir slíkum skilyrðum magnast kláðinn.

En nú er það alkunnugt, að víða á landi hjer hagar svo til, að engin trygging er fyrir því, að hægt sje að ná öllu fje til böðunar. Þannig hagar til t. d. á efstu bæjum á Rangárvöllum, að þar næst ekki í alt fje fyr en komið er langt fram á vetur. Sama máli er að gegna um Þórsmörk, Selvog, Krísuvík, og á Mývatnsöræfum kemur fyrir, að fje litir af allan veturinn. Þetta er nægilegt til að sýna það, að við getum aldrei verið öruggir um að útrýma kláðanum, þegar af þeirri ástæðu einni.

Sami hv. þm. talaði líka um það, að eftirlitið væri út af fyrir sig lítils virði. Jeg þarf nú ekki langt mál til að gera grein fyrir því, að eftirlitið er mjög mikilsverður þáttur í því, að fá góðan árangur af böðunum. Það er eigi aðeins um það að ræða, að þess sje gætt, að baðlyf sje gott, heldur einnig, að það sje rjett blandað, kindum haldið hæfilega lengi niðri í því og að hvergi verði á þeim þur blettur o. s. frv. Þetta á eftirlitið að tryggja.

Þá talaði hv. þm. um fjárhúsin og sýkingarhættuna í þeim. Gerði hann lítið úr því, að kláðamaurar gætu lifað í húsunum. En að það tókst með Myklestaðsböðuninni að útrýma kláðanum í vissum hjeruðum, sýnir, að þar hefir og verið höfð meiri vandvirkni en annarsstaðar, hvað þetta snertir. Að vísu er vitanlegt, að kláðin var misjafnlega útbreiddur áður, og að mest hætta stafaði af húsunum, þar sem mest var um hann, enda er sjón sögu ríkari um það, að fje hafi hvað eftir annað fengið á sig lifandi kláðamaur úr sumum húsunum. En er hv. þm. fór að minnast á árangurinn af böðun Myklestads og tók undir það, að heil hjeruð hefðu verið hreinsuð af kláða, þá viðurkennir hann þar með, að sú aðferð, sem hann notaði, getur verið örugg, ef öll önnur skilyrði eru fyrir hendi. Og reynsla Norðmanna hefir sýnt, að það er hægt að útrýma fjárkláðanum, en til þess þarf ekki þrjár baðanir. Hjer hefir nú farið svo, að þeir, sem standa að frv., fordæma sumir aðferð Myklestads, en aðrir hrósa henni, eins og hv. 2. þm. Skagf.

Jeg kem þá aftur að því, sem hv. þm. (JS) sagði um baðanirnar, að þær þyrftu ekki að vera þrjár; það gæti eins komið til mála, að hafa tvær baðanir í ár og tvær að ári. Í stað þess að ætla sjer að útrýma kláðanum á einu ári með þrem böðunum, þá dettur hv. þm. í hug, að ná mætti sama árangri með því að viðhafa tvær baðanir tvö ár í röð. Þarna er hann fyrst og fremst algerlega horfinn frá því, að þessi þriðja böðun sje nauðsynleg. Bið jeg svo hv. þdm. að athuga þetta vel, og eins hitt, er hv. þm. sagði, að þetta fyrirkomulag yrði ekki dýrara fyrir ríkissjóð en þrjár baðanir á sama ári. Jeg skil ekki, hvernig hann hefir komist að þeirri niðurstöðu. Það er vitanlegt, að ef menn ætla sjer að útrýma fjárkláðanum á þennan hátt, þá verða baðanir bæði þessi ár að vera að öllu leyti með þessu svokallaða útrýmingarböðunarsniði, og liggur því í augum uppi, að allur kostnaður þess opinbera við eftirlitið verður tvöfaldur, og annar kostnaður einnig að öðru leyti meiri á þennan hátt.

Svo er eitt enn að athuga við þessa fyrirhuguðu útrýmingarböðun með 3 böðunum í röð, að það er alkunnugt, að fjeð er misjafnlega hraust, að oft og á ýmsum tímum vetrarins koma fram kvillar í fjenu, t. d. lungnapest, skitupest o. fl. kvillar, og að taka það og baða það þrem sinnum með stuttu millibili er ekkert annað en stofna heilsu þess í voða. Svo er það og engu síður vitanlegt, að að minsta kosti stöðug mánaðar innigjöf — en hjá því yrði ekki komist samkvæmt ákvæðum þessa útrýmingarfrv. — mundi koma hart niður á mönnum í þeim bygðarlögum, þar sem fje lifir mikið á útigangi. Venjulegt vetrarfóður mundi sumstaðar gera lítið betur en hrökkva til þessarar innigjafar.

Þá kom hv. þm. (JS) að því, að undirstaða þess, sem jeg hjelt fram í gær, væri ekki örugg að því leyti sem jeg hefði haldið því fram, að með einni böðun mætti ná þeim árangri, sem frekast væri hægt að vænta, til þess að halda kláðanum í skefjum. Og til að færa sönnur á þetta, fór hv. þm. inn á svið vísindanna, og sagði, að þótt maurinn væri drepinn með einni böðun, þá lifði þó eggið. En hann viðurkendi þó jafnframt, að Myklestad hefði fullkomlega útrýmt kláða á stórum svæðum á landinu, og hljóta þá bæði maurarnir og eggin að hafa dáið. Þetta er full sönnun þess, hvað hægt er að komast með einni böðun, ef alt er að öðru leyti í góðu lagi. Hv. 2. þm. Skagf. hefir því viðurkent, eða rjettara sagt tekið það aftur, sem hann sagði um undirstöðu þessarar ályktunar hjá mjer, að nokkuð verulegt væri við hana að athuga.

Jeg þarf ekki að fara mikið út í útflutninginn á lifandi fje, sem sett hefir verið inn í sambandi við þetta mál, en ætla þó með fáeinum orðum að gera aftur nokkurn samanburð á hinu svokallaða útrýmingarfrv. og till. meiri hl. landbn. Jeg tel þó ekki skyldu mína að tala fyrir meiri hl. nefndarinnar, að því er til frv. hennar kemur, en jeg hefi lýst yfir fylgi mínu við það frv. og hefi gert grein fyrir því, hvers vegna jeg fylgi því. Hv. 2. þm. Skagf. sagði, að með frv. nefndarinnar ætti að halda áfram sama kákinu og verið hefði, því að í því væru engar endurbætur frá því, sem er í gildandi lögum frá 1914. (JS: Engar grundvallarendurbætur.) Já, engar grundvallarendurbætur, segir hv. þm. Við skulum nú taka það til athugunar.

Það er viðurkent af öllum, enda þótt hv. þm. reyndi að gera lítið úr því, að einhver stærsti þátturinn í baráttunni gegn fjárkláðanum er það, að eftirlitið við baðanirnar sje nægilegt trygt. Baðanir koma ekki að notum, nema alt eftirlit með böðunum, frá því fyrsta til þess síðasta, sje örugt og gott. Þetta er raunar margtekið fram. En nú fer svo fyrir sumum í þessu máli, og þar á meðal þessum hv. þm. (JS), að þeir neita því í öðru orðinu, sem þeir játa í hinu, og því verður ekki komist hjá þessum endurtekningum.

Í frv. um útrýmingarböðun er vitanlega lögð höfuðáherslan á það, að tryggja eftirlitið með böðunum. í frv. meiri hl. landbn. er vitanlega lögð höfuðáhersla á þennan þátt hinna árlegu sauðfjárbaðana, og jeg hefi áður fært rök að því, að ef ekki er betur gengið frá þessu í frv. meiri hl. landbn., þá er þar síst ver um þetta búið. Atvinnumálaráðuneytinu er falin yfirsumsjón þessa verks. Það gefur út leiðbeiningar, setur reglugerðir og annað, sem nauðsynlegt er. Hreppstjórarnir eiga að vera yfirumsjónarmenn, hver í sínum hreppi, og að því leyti sem þeir geta ekki sjálfir beinlínis sjeð um framkvæmd baðananna, skipa þeir trúnaðarmenn sjer til aðstoðar. Og þetta á að vera árlegt eftirlit hjeðan í frá. Eftir frv. um útrýmingarböðun verða hinir opinberu eftirlitsmenn miklu færri, kanske ekki nema einn í sýslu, og hlýtur því öll yfirstjórn að verða ófullkomnari samkv. þessu frv.

Það er bjargföst sannfæring mín, að með frv. meiri hl. landbn. eða þeim ákvæðum, sem í því felast, verður komist eins langt og hægt er til þess að halda kláðanum í skefjum. Jeg vil benda á, að hæstv. atvrh., hv. þm. V.-Húnv. o. fl., sem hafa talað með frv. um útrýmingarböðun, hafa lýst yfir því, að þeir gerðu sjer nú ekki hærri vonir en þetta. (ÁJ: Þetta er ekki rjett.) Jú, þetta er alveg rjett, þó að hv. 2. þm. N.-M. líki ef til vill illa, að þeir skuli hafa gert þessa játningu.

Jeg held nú, að af þessum samanburði sje það ljóst, að hvað eftirlitið með böðununum snertir, þá er frv. meiri hl. landbn. að minsta kosti jafntryggilegt hinu frv. Og með því að gefa yfirlit um það, hversu eftirlitinu er háttað í þessu frv., þá verður öllum, sem kunnugt er um ákvæði núgildandi laga um þrifabaðanir, það ljóst, að hjer er um verulega grundvallarbreytingu að ræða. Og svo er þetta einnig í fleiri atriðum.

Þá talaði hv. 2. þm. Skagf. um kostnaðinn, sem leiða mundi af útrýmingarböðun, og bar hann saman við það, sem hann mundi verða eftirleiðis, ef gengið væri inn á þá braut, sem meiri hl. landbn. leggur til. Grundvöllurinn undir þessum samanburði er rangur, í fyrsta lagi af því, að annarsvegar er miðað við það ástand, sem nú er og

verið hefir um framkvæmd hinna almennu þrifabaðana, þar sem menn hafa meðal annars verið einskorðaðir við að nota ljelegt baðlyf og baðanirnar framkvæmdar undir ófullkomnu eftirliti, og hinsvegar miðað við ófullkomnar áætlanir um kostnaðinn við þrifabaðanirnar.

Hann sagði, að kostnaður ríkissjóðs við útrýminguna, hvað baðlyfin snertir, hefði verið áætlaður í fyrra um 100 þús. kr. Jeg man, að aðrir gerðu ráð fyrir 120 þús. kr. Þetta er vitanlega aðeins lausleg áætlun, og eftir reynslu um áætlanir yfirleitt, þá mun óhætt að bæta allmiklu við þessa upphæð. Hjer við bætist svo eftirlitið, sem ríkissjóður á að hafa að sínu leyti. Það verður því ekki hjá því komist, að hjer er um geysimikinn kostnað að ræða.

Jeg hefi lýst yfir því hjer áður og fært rök að því, að jeg tel frv. meiri hl. landbn. fult eins örugt til þess að halda kláðanum í skefjum og frv. um útrýmingarböðun. Kostnaðurinn við útrýmingarböðunina er því með öllu. óþarfur, og jafnframt má hiklaust gera ráð fyrir því, að sá kostnaður, sem ríkissjóður hefir haft undanfarið við kláðabaðanir, muni hverfa úr sögunni, ef frv. meiri hl. landbn. verður samþ.

Hv. 2. þm. Skagf. talaði mikið um vonlausa baráttu í þessu sambandi. Jeg býst því miður við því, að sú barátta sje vonlaus, að okkur takist að útrýma fjárkláðanum algerlega, hvort frv. sem verður samþ. Aftur á móti eru líkur til þess, að okkur heppnist að halda kláðanum í skefjum. Jeg vænti þess, að hv. þdm. sjeu mjer sammála um það, sem augljóst er, að takmarki þessu verði hægt að ná á grundvelli þess frv., sem meiri hl. landbn. ber fram, og það á miklu kostnaðarminni hátt, og þá sje það heppilegasta og rjettasta afgreiðsla þessa máls að samþ. það frv.