20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í C-deild Alþingistíðinda. (2538)

11. mál, útrýming fjárkláða

Jón Sigurðsson:

Jeg skal aðeins gera grein fyrir brtt., sem jeg flyt hjer, ásamt hv. þm. Str., og þm. V.-Húnv. Fyrst er þá brtt. við 1. gr., sem breytir frv. í heimild, með það fyrir augum, að stjórnin hafi óbundnar hendur og geti hagað sjer eftir ástæðum bænda og fjárhag ríkissjóðs. Þá er í öðru lagi tímatakmarkið fært fram til ársins 1930, en í stjfrv. er gert ráð fyrir, að útrýmingin fari fram í árslok 1928 og ársbyrjun 1929.

Það, sem kom okkur til þess að leggja þetta til, er það, að við teljum undirbúninginn tæplega nægan, ef tímatakmarkið er ekki fært fram. En hjer þarf sjerlega vandaðan undirbúning, ef menn eiga að vænta eða gera sjer vonir um, að útrýmingin heppnist. — Þá er ennfremur gert ráð fyrir rækilegri kláðaskoðun áður en baðað er. Það er nú svo, að í sjálfu sjer er aldrei hægt að fullyrða, hvort kláðinn finst eða ekki, jafnvel þó að nákvæmlega sje skoðað. En það er hægt með vissri rannsókn að vita, hvort útbrot sjeu á fjenu, og hvort hætta sje á smitun. Það er mikils virði, að geta fengið ábyggilega vissu fyrir því, hvort útbrota verði vart, því að þá er hægt að taka til sjerstakra aðgerða, svo sem víðtækrar hreinsunar á húsum og hafa meiri athygli á meðferð fjárins. Þess vegna höfum við lagt til, að sjerstök skoðun fari fram til frekara öryggis.

Þá viljum við heimila stjórninni að veita einstökum sýslum eða sveitum, þar sem kláða hefir ekki orðið vart í mörg ár, eða þar sem hann er horfinn, undanþágu, þannig, að þar þurfi ekki að baða nema tvisvar sinnum. Það er litið svo á, að með tveim böðum sje hægt að útrýma kláðanum, fyrri böðunin drepi kláðamaurinn, en hin síðari eggin. Dýralæknir álítur þó, að best sje að baða þrisvar, en þriðja böðunin hefir sjerstaklega gildi, þar sem kláði er fyrir. En þar sem aðeins leynist örlítill vottur af kláða, hygg jeg, að tvö böð sjeu fullnægjandi. Það er síður en svo, að við viljum með þessu slá nokkuð af eða minka möguleikana, sem á því eru, að útrýming sú heppnist, sem gert er ráð fyrir í frv. Við gerum okkur von um að ná sama marki, þrátt fyrir þetta. Það er aðeins tillátssemi við sýslur þær og sveitir, sem aldrei hafa haft kláða eða ugglaust er, að sjeu lausar við hann.

Loks er ein brtt., sem felur í sjer ítarlegri ákvæði um einn liðinn í undirbúningi málsins, sem er tilraunir með baðlyfin. Og er það líklega stærsta atriðið. Stjórnin á að láta gera ítarlega rannsókn í þessu efni áður en útrýmingarböðunin fer fram, til þess að fullvíst sje, að við höfum baðlyf, sem treysta megi. Menn verða að gæta þess, að þetta hefir sína miklu þýðingu, engu að síður, þó að ekki komi til útrýmingar eða þó að útrýmingin heppnist, því að það þarf engu að síður að baða þrifabaðanir. Er því þessi tilraun eða rannsókn til mikils gagns. Norðmenn hafa t. d. gert slíka tilraun með baðlyfin, en landbúnaðarfjelög þeirra eru enn ekki á því hreina með, hvaða tegund sje hentugust til þrifabaðana.

Til þess að gera engan leik að því, að umræður hefjist aftur um málið, ætla jeg ekki að segja fleiri orð um það. Það var rætt nógu mikið við 2. umr. og átti jeg þá mörgu ósvarað. Jeg œtla að sleppa að svara því nú, en mun þó nota mjer rjett minn, ef almennar umræður hefjast um málið.