20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (2539)

11. mál, útrýming fjárkláða

Jón Kjartansson:

Jeg ætla ekki að tyggja upp aftur hjer ræðurnar frá 2. umr. þessa máls, en vildi aðeins leyfa mjer að fara nokkrum orðum um viðaukatillögu þá, sem jeg ber fram á þskj. 380 við brtt. á þskj. 379. Jeg hefi leyft mjer að fara fram á það, að atvinnumálaráðherra sje heimilt að láta útrýmingarböðun falla alveg niður í Vestmannaeyjasýslu, og í Vestur- og Austur-Skaftafellssýslu, enda sje áður með nákvæmri skoðun gengið úr skugga um það, að enginn kláði sje til í þessum sýslum. Þessa tillögu flyt jeg vegna þess að það er fullkomlega sannað, að kláði hefir aldrei fundist í þessum sýslum. Í kláðaskýrslu frá 1903, þegar útrýmingarböðun fór fram, er talið, að þessar sýslur sjeu kláðalausar, og er þá Rangárvallasýsla talin með. En nú leikur grunur á því, að kláði sje þar upp kominn, og hefi jeg því ekki þorað að taka hana með. En síðan 1903 hefir enginn kláði fundist í þessum sýslum. Þar við bætist, að þær eru frá náttúrunnar hendi þannig í sveit settar, að telja má, að samgöngur fjár eigi sjer sama og ekki stað. Það getur að vísu hugsast, að fje hittist á fjöllunum, en slíkt er mjög sjaldgæft. Þar sem þetta er aðeins heimild til handa atvinnumálaráðherra, þá er það ljóst, að hann getur látið fara fram þá böðun, sem um er talað í 2. brtt. á þskj. 379, í einhverjum hlutum sýslnanna, til frekara öryggis, ef þurfa þykir. En það er hart fyrir þessa sýslu að þurfa að taka á sig þann kostnað, sem af útrýmingarböðun leiðir, þar sem það er sannað, að þær hafa aldrei haft kláða. Jeg vænti því, að hv. deild samþykki þessa viðaukatillögu mína. Jeg var í vafa um, hvort jeg ætti ekki heldur að koma fram með till. um það, að útrýmingarbaðanir í þessum sýslum væru að öllu leyti kostaðar af ríkissjóði, en hvarf frá því, því að það er óþarfi að baka ríkissjóði slíkan kostnað að nauðsynjalausu.