20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 465 í C-deild Alþingistíðinda. (2540)

11. mál, útrýming fjárkláða

Klemens Jónsson:

Þegar jeg sá viðaukatill. hv. þm. V.-Sk., var jeg einráðinn í því, að vera henni fylgjandi, en jeg saknaði þess, að hann skyldi ekki taka Rangárvallasýslu inn í till. Ef jeg hefði haft hugmynd um, að hann ætlaði að koma fram með þessa brtt., þá hefði jeg orðið meðflm. að henni og bætt Rangárvallasýslu við. En jeg er nú búinn að senda uppi í prentsmiðju brtt., sem bætir Rangárvallasýslu við, og vænti þess, að hún verði komin ofan á fund í tæka tíð, ella mun jeg afhenda hæstv. forseta hana skriflega.

Eins og tekið hefir verið fram við 2. umr. þessa máls, þá hefir Rangárvallasýsla lengi verið kláðalaus; nákunnugir menn fullyrða, að enginn kláði hafi fundist þar langa lengi. Jeg verð að taka undir það með hv. þm. V.-Sk., að það er hart fyrir heilar sýslur, sem eru algerlega lausar við kláðann, að þurfa að leggja á sig þann gífurlega kostnað, sem útrýmingarbaðanir hafa í för með sjer. Vænti jeg því, að hv. þm. líti með sanngirni á þessar undanþágur og samþykki viðaukatill. hv. þm. V.-Sk. með brtt. minni.