20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í C-deild Alþingistíðinda. (2542)

11. mál, útrýming fjárkláða

Frsm. meiri hl. (Hákon Kristófersson):

Jeg ætlaði að láta þetta mál afskiftalaust að þessu sinni, en þegar jeg sje þær brtt., sem nú eru fram komnar, þá fæ jeg ekki orða bundist. Fyrst skal þá fræga telja viðaukatillöguna á þskj. 380 frá hv. þm. V.-Sk. Þau undur og stórmerki hafa gerst, að hv. 1. þm. Rang. hefir lagt henni liðsyrði sitt, og hann hefir meira að segja gerst svo framur, að koma fram með brtt. um það, að undanþiggja Rangárvallasýslu líka, og ætlar að drífa hana í gegn með afbrigðum frá þingsköpum. Jeg hefði aldrei búist við því, að slík firn sem þessi gerðust hjer á Alþingi, og síst, að þessi gamli og margmæti heiðursþingmaður (KlJ) vildi eiga hjer nokkurn hlut að máli. Þá þykir mjer skörin fara að færast upp í bekkinn, ef það á að fara að samþykkja hjer á Alþingi að undanþiggja sjerstaka landshluta frá böðunum að ástæðulausu. Það er alkunna af skýrslum, að aldrei hefir kláði komið í Vestur-Barðastrandarsýslu og kemur sennilega aldrei, en þó hefir mjer ekki dottið í hug að fara fram á það, að fá undanþágu frá böðunum fyrir þennan hluta sýslunnar. Jeg efast ekki um það, að brtt. hv. þm. V.-Sk. er í góðu skyni ger og að hann er með henni að gefa kjósendum sínum hýrt auga. En hún er illur fleygur í þessu máli og á ekki að samþykkjast. En þó er brtt. hv. 1. þm. Rang. miklu verri, svo sem vænta mátti, því að miklu meiri líkur eru fyrir því, að fje úr Rangárvallasýslu hafi samgöngur við fje úr öðrum sýslum, heldur en t. d. fje úr Vestmannaeyjum. En þær hefir nú hv. þm. V.-Sk. látið flakka með, þótt hugur hans stefni auðvitað að hans eigin kjördæmi. Báðar þessar tillögur á svo að afgreiða með afbrigðum frá þingsköpum. Báðar eru þær óhæfilegar og ómögulegar og íslensk tunga, þótt orðmörg sje, á ekki til nógu sterk orð til þess að kveða þær niður. En jeg vona, að hv. þm. vísi þeim til föðurhúsanna, og vil jeg hvorki óvirða mig nje þingið með því að eyða frekar orðum að þeim.

Þá sný jeg mjer að brtt. á þskj. 379. Það þarf nú ekki að fara í miklar grafgötur um meiningu þeirra, þegar maður sjer faðernið. Jeg sje ekki betur en þær sjeu nokkurskonar fölsk gríma á stjfrv., ef maður á þá að kalla það stjfrv. Jeg hygg, að hæstv. stjórn hafi frekar borið það fram af kurteisi en að hún hafi sjeð nauðsyn á því. Jeg fæ nú ekki betur sjeð en að þeim tilgangi, sem 2. brtt. á þskj. 379, og reyndar líka 1. brtt., sje fullkomlega náð, ef samþykt verður frv. á þskj. 196. í 8. gr. þess frv. stendur, að ef atvinnumálaráðuneytinu þykir ástæða til, þá geti það fyrirskipað svo víðtækar ráðstafanir til kláðaútrýmingar sem því sýnist. Það er ekki svo, að jeg sje á móti útrýmingarböðun, ef það kæmi í ljós, að hún væri nauðsynleg. Að því leyti stefnum við allir að sama marki, og það er ekki svo ýkja mikið, sem á milli ber. Þessa brtt. á þskj. 379 hafa ekki legið fyrir nefndinni, og get jeg því ekki talað fyrir munn hennar, heldur verður það, sem jeg segi um þær, að skrifast á minn eiginn reikning. í 1. brtt. er útrýmingarböðuninni slegið á frest til 1930. Hjer er aðeins um dálítinn frest á henni að ræða, og leiðir því af sjálfu sjer, að jeg er á móti þessari brtt. Sannfæring mín er þar óhögguð. Alt, sem jeg tel fullnægjandi, fæst, ef frv. á þskj. 196 er samþ., sbr. 8. gr. í 2. brtt. við 3. gr. er því slegið föstu, að baða skuli þrisvar sinnum. Þessir heiðursmenn fara svo sem ekki dult með skoðun sína, enda er það rjett, að vera ekki að villa á sjer heimildir. Í þeirri brtt. er líka annað ósköp lítið ákvæði, sem hljóðar svo: „Um leið og baðað er fyrsta útrýmingarbaðinu, skal fram fara nákvæm kláðaskoðun og merking á hverri kind.“ Hverskonar merking á þetta að vera? Jeg er hissa á því, að bændur, sem hafa haft fje undir höndum, skuli láta sjer detta í hug, að hægt sje að merkja fje svo það máist ekki af. Jeg hugsa, að ekki sje hægt að finna svo glögg merki. Þetta yrði ekkert annað en einskisverð fyrirhöfn.

Jeg hefi nú farið nokkrum orðum um þetta mál, og sje ekki ástæðu til þess að ræða það frekar. Jeg býst við því, að hv. þdm. sjeu búnir að gera það upp við sig, hvoru frv. þeir ætli að fylgja og þar verði engu um þokað. Jeg hefi leitt rök að því, að það ber að samþykkja frv. á þskj. 196, og þau rök hafa ekki verið og verða ekki hrakin. Þó að brtt. á þskj. 379 verði samþyktar cg sjeu kannske að einhverju litlu leyti til bóta, og sjeu vel lagaðar til þess að draga athyglina frá kjarna málsins, þá villa þær mjer ekki sýn í þessu máli. Jeg álít, að frv. á þskj. 196 sje svo útbúið, að vel megi við una, og jeg trúi því ekki fyr en jeg tek á því, að hv. þm. sjeu svo glámskygnir eða gerblindaðir í þessu máli, að þeir samþykki það ekki. Skal jeg svo láta útrætt um þetta að sinni og mun ekki standa upp aftur, nema sjerstakt tilefni gefist.