20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í C-deild Alþingistíðinda. (2544)

11. mál, útrýming fjárkláða

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hefði þurft að andmæla nokkrum atriðum, sem beint var til mín við fyrri umr. þessa máls, en jeg mun ekki hirða um að gera það nema að litlu leyti. Hv. 2. þm. Skagf. sagði, og það kom líka fram hjá hv. 2. þm. N.-M., að jeg hefði átt nokkurn þátt í undirbúningi þessa máls í fyrra. Það er rjett, að jeg var með í því, ásamt fleiri mönnum úr landbn., að laga helstu agnúana, sem okkur fundust á frv., og jeg hygg, að það hafi verið hóti skárra eftir að við vorum búnir að ganga frá því. Og þess vegna hefir það áreiðanlega orðið til mikilla bóta, að við fórum höndum um frv. Hinsvegar skal það viðurkent, að mjer og jafnvel fleirum hefir orðið það á, að leggja fullmikið upp úr þeirri sjerþekkingu, sem flaggað hefir verið með í máli þessu. Mjer hefir t. d. orðið það á, að byggja á því, sem dýralæknir hefir sagt, að hægt væri áreiðanlega að útrýma kláðanum með þrem böðunum. En nú hefir sannast, að slíkt er á litlum rökum bygt, og að kláðamaurinn verður ekki drepinn með þrem böðunum, þar sem hann lifir að minsta kosti í þrjá mánuði, og jafnvel líkindi til að hann lifi góðu lifi í 6 mánuði eða jafnvel enn lengur í ullarlögðum í veggjarholum o. s. frv., þar sem skilyrði eru góð fyrir hann, eins og jeg mun víkja síðar að.

Jeg skal taka fram viðvíkjandi því, að jeg hafi fylgt þesu frv. í fyrra, að þó að jeg sjái síðar, að jeg hafi haft skakt fyrir mjer, þá hefi jeg þá karlensku til að bera að þora að viðurkenna það, þegar jeg sje, að eitthvað má betur fara en það, sem jeg hafði haldið fram.

Ástæðan til þess að málinu er ekki haldið fram af oss meiri hl. landbn. á sama grundvelli og í fyrra er sú, að það er fyrirfram sjeð, að dómi sjerfróðra manna, að kláðanum muni aldrei útrýmt með þrem böðunum. Og úr því að gera má ráð fyrir, að slíkar ráðstafanir komi ekki að fullkomnu gagni, þá er ver af stað farið en heima setið með þessa dýru útrýmingarböðun. Og því er betur sjeð fyrir þessu máli með okkar frv. en því, sem hæstv. stjórn hefir borið fram.

Brtt. á þskj 379 skifta ekki miklu máli. Þar stendur, að ríkisstjórninni sje heimilt að láta fram fara um land alt böðun á sauðfje til útrýmingar fjárkláða og í samráði við Búnaðarfjelag Íslands. Að vísu er fresturinn lengdur til 1930, að útrýmingarböðun skal hefjast, en lítið bæta brtt. þessar að öðru leyti úr skák.

Jeg fyrir mitt leyti ber ekki það traust til hæstv. stjórnar og ráðunauta hennar, að jeg vilji fela henni þetta mál, og jeg vil bæta því við, að jeg treysti heldur ekki Búnaðarfjelagsstjórninni til þess að ráða nokkru um framkvæmdir þessa máls. Það eru aðeins bændur landsins, sem jeg treysti einum til þess að ráða fram úr þessu, svo að viðunandi sje. Þess vegna skil jeg ekki í þeim háttv. þingbændum, sem að þessu máli standa, að þeir skuli vilja knýja þetta frv. fram, sem þeir þó vita, að gert er í óþökk alls þorra bænda víðsvegar um alt land, og sem ekki er hægt að búast við að nái þeim tilgangi, sem því er ætlað.

Að svo mæltu ætla jeg að víkja að þessum brtt., sem þrír hv. þm. hafa borið fram á þskj. 379.

Þar er skipað svo fyrir, að baða skuli hverja kind 3 böðum, en þó er atvinnumálaráðherra heimilt, í samráði við dýralækni, að leyfa að baða skuli aðeins 2 böðum í þeim sýslum eða sveitum, sem kláða hefir ekki orðið vart í 3 síðustu ár.

En hvaða trygging hafa þeir fyrir því, þó að kláða hafi ekki orðið vart síðustu 3 árin, að hann geti ekki verið nýlega kominn áður en böðun fer fram, og þó á að duga aðeins að tvíbaða?

Hv. aðalflm. (JS) sagði, að þeir vildu fyrirskipa nákvæma skoðun og merkingu þess fjár, sem baðað er. Við viljum líka nákvæma skoðun, en leggjum lítið upp úr merkingunni, enda er mjer ekki vel ljóst, hvernig henni verður svo fyrir komið, að nokkuð sje á henni að byggja. Þeir vilja þríbaða, nema þar sem kláða hefir ekki orðið vart í 3 ár, þar ætla þeir 2 böðum að duga. Nú er í okkar frv. gert ráð fyrir að baða strax og kláða verður vart og þríbaða sjúkt fje. Mjer finst munurinn því ekki mikill, og síst betur sjeð fyrir eftirlitinu en gert er með okkar frv., því að þar er stjórninni gefin heimild til að fyrirskipa strangari baðanir, ef þörf er á.

Annars get jeg ekki betur sjeð en að með brtt. þessara hv. þdm. á þskj. 379 sje enn verið að fyrirskipa útrýmingarböðun, eða öllu heldur tilraun með það, og það þykir mjer of mikill kostnaður, sem í er ráðist, þegar þess er gætt, að óvíst er með öllu, hvernig hún muni hepnast og mikil líkindi til, að kláðanum verði ekki útrýmt með 3 böðunum.

Hinsvegar er enginn vafi á því, að með Myklestads-böðununuin var kláðanum útrýmt af fjenu og maurinn drepinn. En að kláðinn kom aftur upp, var af því, að maurinn lifði í húsunum og sýkti svo fjeð, og það löngu eftir að baðað hafði verið. Það fyrirkomulag, sem við viljum hafa, er því tryggilegra og meiri líkindi til, að kláðanum verði útrýmt á þann hátt að baða alt fje, hvenær sem kláða verður vart, og að sótthreinsa húsin jafnhliða.

Annars er jeg undrandi yfir því, hvað margir hv. þdm. vilja ganga í berhögg við reynsluna í þessu máli, og sjerstaklega furðar mig á þessu, þegar kunnugt er, að allur þorri bænda út um land, sem þetta þekkja af eigin reynslu, eru á móti 3 böðunum. Jeg hjelt þó satt að segja, að þessu máli væri betur borgið með því að hafa bændur landsins með sjer í því, í staðinn fyrir að skella á þá sárnauðuga 3 böðunum, sem engir þeirra hafa minstu trú á að komi að neinu gagni. Og eins og jeg drap stuttlega á fyrir sköminu, eru líkindi til, og jafnvel stórhætta á, að fjeð tapi heilsunni við það, að verða baðað þrisvar, og það á þessum tíma, sem allra veðra er von. Hjer liggur engin rannsókn fyrir, hvernig 3 böð með stuttu millibili muni gefast; gæti eins vel farið svo, að slíkt orsakaði stórkostlegan f fjárfelli, og þá taka þessir menn, sem halda fram 3 böðunum, á sig meiri ábyrgð, en þeir eru menn til að bera.

Jeg þykist vita, að þessir hv. flm., sem standa að brtt. á þskj. 379, muni verja sig með því, að hjer eigi ekki að neinu að flana að órannsökuðu máli. Baðlyfin eigi að vera undir nákvæmri rannsókn og athugun um, hver áhrif þau hafi á kláðamaurinn, og þá vitanlega sauðkindina líka. Jeg játa, að þeim hefir farið til muna fram frá því, að málið var hjer til 2. umr., því þá töldu þeir frestinn nógan til 1928, en leggja nú til, að ekki verði byrjað á útrýmingarböðun fyr en 1930. Með þessum fresti, sem jeg játa að vísu að sje til bóta, tel jeg þó ekki mikið fengið, þegar alt kemur til alls. Og þó að undirbúning þessa máls eigi að fela þeim manni, sem brtt. nefnir, þá er það síst til þess að vekja traust mitt á heppilegri framkvæmd málsins. Ráð dýralæknis hafa ekki reynst það vel bændum í þessu máli, að jeg sje sjerstaklega ginkeyptur fyrir því að fela honum aðalframkvæmdirnar. Það ætti að vera nóg að minna á þetta baðlyf, sem lögskipað var um tveggja ára bil og hann átti að sjá um rannsókn á, en reyndist svo ónýtt, að það drap ekki færilús.

Það má vel vera, að hæstv. stjórn geti ekki rannsakað þetta eins og þörf er á, og því verði hún að fela það þessum manni, sem jeg hefi sagt, að jeg beri ekki hið minsta traust til. En minna má þó ekki vera en að þetta væri svo undirbúið, að full vissa væri um, að útrýmingarböðun kæmi að notum, og að sú rannsókn lægi frammi áður en lagt yrði út í þennan mikla kostnað. Bændur hafa enga trú á að fela þetta undirbúningsstarf manni, sem að þeirra dómi brást algerlega í þessu máli fyrir tveim árum. Þeir mundu aldrei játast undir þá kvöð, að fela þessum manni einræðisvald yfir sauðfje sínu.

Annars var það nokkuð hjákátlegt hjá hv. 2. þm. Skagf., er hann vildi til stuðnings sínum málstað vitna í það, að Norðmenn og enda Skotar líka væru um þessar mundir að láta rannsaka baðlyf sín og áhrif þeirra. Að þessum rannsóknum hafa þeir unnið í tugi ára og hafa þeir þó mjög góðum og reyndum mönnum á að skipa, þaulreyndum í þessum efnum, og þykjast þó þurfa að rannsaka þau enn, og kláðinn altaf viðloðandi t. d. í Skotlandi, þrátt fyrir alt, sem gert hefir verið honum til útrýmingar. En hjá okkur eiga að nægja aðeins þrjú ár til undirbúnings þessa máls, og fela hann manni, sem enga leynslu og takmarkaða þekkingu hefir sýnt, sem bygð verði á heppileg úrlausn málsins.

Jeg held, að hv. deild gerði best í því að stinga frv. þessu svefnþorn nú þegar og láta bíða, ekki þrjú ár, heldur fimm til 10 ár, þangað til það fær að koma í dagsljósið aftur, og fallast heldur á till. okkar meirihlutamanna um að baða alt sauðfje reglulega með góðu eftirliti og baða kláðaböðun í hvert skifti, sem kláðinn kemur fram.

Annars mætti nefna í þessu sambandi, eins og jeg gat um áður, að Skotum hefir ekki enn tekist, þrátt fyrir margar og miklar tilraunir og rannsókn á rannsókn ofan, að útrýma kláðanum. Þar gengur fjeð að mestu leyti sjálfala, kemur ekki í hús nema endrum og eins, og reynslan er sú, að það sýkist í haganum. En þeir, sem þetta frv. berja fram, eða að brtt. á þskj. 379 standa, ætla sjer að drepa maurinn í veggjarholum gamalla moldarkofa, með því að fyrirskipa þrjár baðanir um alt land.

Jeg ætla nú að koma með dálítið dæmi, sem sýnir, að það er ekki við lambið að leika sjer að útrýma kláðamaurnum, og að hann lifir góðu lífi í húsunum, þrátt fyrir margítrekaðar baðanir.

Það var á bæ einum uppi í Borgarfirði eftir Myklestadsböðunina á útmánuðum, að kláði kom upp í hrútum tveim, sem voru sjer í kofa. Hrútarnir voru baðaðir og tókst að lækna þá. Um vorið, þegar rúið var, voru hrútarnir nákvæmlega skoðaðir og fleira fje, og reyndist það alt kláðalaust. Þegar hrútarnir voru haustið eftir teknir og látnir í sama kofann, voru þeir enn skoðaðir og fanst enginn kláðavottur í þeim. En þegar fram á veturinn kom, fór að bera á óþrifum í þeim, og fanst þá lifandi kláðamaur á þeim. Þetta þótti því undarlegra sem við nákvæma rannsókn alls fjárins kom í ljós, að engin kind var með kláða. Enn voru hrútarnir baðaðir vel og rækilega og læknaðir, svo að ekki sást vottur í þeim um vorið, er þeim var slept. En næsta vetur endurtekur sama sagan sig, hrútarnir útsteyptir í kláða, þrátt fyrir það, þótt engin óþrif væru í öðru fje á þessum bæ. Og svona fór það alla stund, sem kofi þessi var notaður fyrir hrútana. Síðar var kofinn rifinn og hver spýta úr honum á bál borin, og síðan hefir aldrei borið á kláða á þessum bæ, hvorki í hrútum nje öðru fje. Það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um, hver orsökin hefir verið. Þarna hefir kláðinn lifað sex mánuði eða jafnvel lengur og sýkt hrútana. Vitanlega hefir ekki tekist að sótthreinsa kofann og drepa maurinn, enda vita allir, hvaða erfiðleikum það er bundið að sótthreinsa allar veggjarholur gamalla húsa.

Þess vegna er jeg öldungis sannfærður um, þó að nú verði horfið að því óheillaspori að fyrirskipa þrjú útrýmingarböð um alt land, þá lendum við í sama öngþveitinu aftur eftir nokkur ár, en höfum jafnhliða bakað ríkissjóði og landsmönnum stór útgjöld og máske spilt heilsu fjárins eða jafnvel valdið miklum fjárfelli. Jeg fyrir mitt leyti vil ekki láta mitt atkvæði standa til stuðnings slíkum óheillaráðstöfunum, og finst undarlegt, að hv. þdm. skuli ekki heldur vilja fallast á okkar till., sem allir hljóta þó að viðurkenna, að eru að öllu leyti til stórra bóta máli þessu.

Annars get jeg sagt, að hv. 2. þm. N.-M. sje nokkur vorkunn í máli þessu. Hann trúir þessu, sem raunar er ekki annað en oftrú, en honum ferst karlmannlega að vilja heldur falla með málstað sínum en að fylgja því, sem við leggjum til. En hinir hafa enga afsökun, sem eru hálfvolgir í máli þessu og veigra sjer við að fylgja því, sem betur má fara. Og jeg vil bæta því við, að þeir hv. þdm. eru ekki hörundssárir um hagsmuni bændastjettarinnar, sem ljá fylgi sitt slíku frv. sem þessu, enda þykist jeg vita, að sumir þeirra gera sjer litla grein fyrir því, hvað þetta mál getur orðið afleiðingaríkt fyrir bændur landsins.

Þá hefir komið hjer fram brtt. frá hv. þm. V.-Sk., og þykir mjer leiðinlegt, að hann skyldi á nokkurn hátt ganga inn á þetta óheillafrv. Þó vildi jeg mega skjóta því til hans, að það verður aldrei hægt að sanna, að kláði geti ekki verið í V.-Skaftafellssýslu. Hann ætti þó að vita, að samgöngum er þannig háttað, að fje Rangæinga og Skaftfellinga gengur saman að fjallabaki, og að þar er á hverju hausti dregið sundur. Jeg veit ekki, hvort hann hefir farið um þennan afrjett, en það hefi jeg gert og þekki því vel til þessa. Auk þess má gera ráð fyrir, að fje fari yfir Jökulsárbrúna, og úr því kláðinn er nú kominn undir Eyjafjöll, finst mjer síst að synja fyrir, að hann geti ekki þá og þegar borist í Mýrdalinn.

Að vísu teldi jeg það betur farið, að sem fæstir bændur yrðu píndir til þessara óskaplegu framkvæmda. En þó verð jeg að vera á móti brtt., vegna þess að jeg álít, að það geti orðið til enn meiri skaðsemdar, ef þvinga á þannig fram ýmsar undanþágur. Og því meir furða jeg mig á afstöðu hv. 1. þm. Rang., að hann skuli vilja undirskrifa þessa brtt. Hann heldur því að vísu fram, að engin kláði sje í Rangárvallasýslu og býst máske við því, að hún geti sloppið við böðin. Það er að vísu rjett, sem hann sagði, að það eru litlar samgöngur fjár milli Árnes- og Rangárvallasýslu, en þó nokkrar, og verða sýslubúar á hverju hausti að sækja fje hvorir til annara.

Jeg vona, þrátt fyrir alt, sem á undan er gengið, og jeg skírskota þar til skynsemi og varfærni hv. þdm., að þeir láti sig ekki það ódæma óhapp henda að samþykkja þetta mál. En fari svo, að það verði gert, þá hygg jeg, að það fari að verða þörf á því að setja í stjórnarfarsreglur vorar ákvæði um það, að þingmenn hafi ekki leyfi til að greiða atkvæði í þeim málum, sem þeir bera ekkert skyn á, og trygging sje fyrir því, að þeir hafi þó nokkra þekkingu á þeim málum, er þeir greiða atkvæði um.