20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (2545)

11. mál, útrýming fjárkláða

Atv.- og dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Jeg skal ekki lengja umr. mikið.

Jeg hjelt satt að segja, að brtt. á þskj. 379 hefði lægt þær öldur, sem hafa risið hjer gegn frv. stjórnarinnar. En það er síður en svo um hv. 2. þm. Árn. Um brtt. á þskj. 379 get jeg lýst yfir því, að jeg get gengið að þeim, enda þótt sjálfu frv. sje talsvert vikið við með þeim. En út af orðum hv. 2. þm. Árn. og annara vil jeg segja, að mjer finst ekki mjög mikill munur, eins og nú er komið, á frv. stjórnarinnar, með brtt. á þskj. 379, og frv. því, er hv. meiri hl. landbn. hefir borið fram. Það skyldi þá helst vera sá munur, að samkv. frv. nefndarinnar er stjórninni heimilt að láta fara fram útrýmingarböðun fyrir árið 1930, og því má í raun rjettri segja, að frv. meiri hl. nefndarinnar gangi lengra en brtt. á þskj. 379, því að þær mæla svo fyrir, að böðun megi ekki fara fram fyr en 1930. í 8. gr. frv. þess, er meiri hl. landbn. ber fram, segir svo:

„Litist atvinnumálaráðuneytinu, samkv. skýrslum þeim, er í 9. gr. getur, að fjárkláði sje að breiðast út, getur það fyrirskipað svo víðtæka kláðaböðun sem það telur ástæður til.“

Eftir þessu ætti ráðuneytið að geta fyrirskipað kláðaböðun um land alt, ef því þykir ástæða til, og það getur orðið fyrir 1930. Gengur því frv. þetta lengra heldur en brtt. þær, sem bornar eru fram af háttv. samþm. mínum o. fl.

Hv. 2. þm. Árn. hjelt því fram, að hann vildi ekki láta atvinnumálaráðuneytið og Búnaðarfjelagið ráða því í sameiningu, hvenær útrýmingarböðun skuli fram fara. Þetta er undarlegt, þar sem svo er þó fyrir mælt í 8. gr. frv. þess, er hann stendur að, að atvinnumálaráðuneytið skuli eitt taka ákvörðun um þetta. Hann treystir því sýnilega stjórninni best, en hefir litla trú á áliti Búnaðarfjelags Íslands í þessum efnum.

Út af viðaukatill. á þskj. 380 vil jeg undirstrika það, að hún er ekki annað en heimild fyrir ráðuneytið, en að þá heimild er alls eigi skylt að nota. Ef hún yrði samþ., vil jeg benda á það, að jeg býst við því, að stjórnin, hvaða stjórn sem er, mundi fara eftir ráðum trúnaðarmanna sinna, í þessu tilfelli dýralækna. Jeg fæ ekki sjeð, að nein stjórn geti gert annað rjettara en að láta sjerfræðinga, hvern á sínu sviði, gera tillögur, og fari svo eftir þeim.

En viðvíkjandi þeirri kláðaskoðun, sem gert er ráð fyrir í till., þá álít jeg, að hún sje algerlega óframkvæmanleg, svo að örugt sje. Það getur oft staðið svo á, að þó nákvæm skoðun fari fram, þá sje ekki hægt að finna það, þó kindur sjeu smitaðar af kláða. Jeg skil þetta ákvæði svo, að ef fje er skoðað eins nákvæmlega og unt er og ekki verður kláða vart, þá skuli engin böðun fara fram. En þetta er viðsjárvert, því að eins og jeg drap á, þá er það alls eigi trygt, að kláði geti ekki leynst í fje, þótt hans verði ekki vart við skoðun.