20.04.1927
Neðri deild: 56. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í C-deild Alþingistíðinda. (2547)

11. mál, útrýming fjárkláða

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefði helst kosið að þurfa ekki að sinna þessu máli meir, og hafði því eigi ætlað mjer að taka til máls. En af því að mjer finst horfa óvænlega með allar ráðstafanir um kláðalækningar og að fulltryggilegt takmark náist ekki með frv. á þskj. 11, þá vil jeg gera seinustu tilraun til þess að koma málinu inn á þá braut, að ekki verði til óhappa stefnt.

Jeg hefi áður látið það í ljós, að jeg gæti aðhyllst frv. á þskj. 196, en það kannast jeg við, að sum ákvæði þess eru varasöm. Mjer virðist því eftir atvikum, að það færi best á því, er svona er komið, ekki beint að fella frv. á þskj. 11, heldur að víkja því til hliðar með rökstuddri dagskrá. Þá dagskrá hafði jeg að vísu ekki fullskráða, er hjer kom svo hastarlega að ræðulokum, að mjer vanst ekki tími til að fullgera hana. Samt skal þess freistað, áður en til atkv. kemur, og er þá um að ræða einskonar miðlun í málinu.

Um deilur þær, sem hjer hafa orðið, ætla jeg ekki að tala, en vil aðeins minna á það, er hv. þm. Mýr. tók fram, að á þessum tíma verður því eigi neitað, að kláðinn er í rjenun, vegna þrifabaðananna. Og þetta skiftir mestu máli. Ástæðan er því minni til þess að ráðast í umfangsmiklar og hættulegar ráðstafanir til útrýmingar, er menn vita, að ekki er að vænta öllu frekari árangurs af en þrifaböðunum, sem vel eru ræktar.

Jeg leyfi mjer því að bera fram svohljóðandi rökstudda dagskrá:

,.Með því að fyrir deildinni liggur annað frv., sem fer í líka átt og það, sem nú er til umræðu, og heimilar stjórninni að undirbúa útrýmingu fjárkláðans, þykir ekki full ástæða til að samþykkja á þessu þingi lög um útrýmingu fjárkláða, og tekur deildin því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Skal jeg svo ekki eyða fleiri orðum að þessu en leyfa mjer að afhenda hæstv. forseta dagskrána.