18.03.1927
Efri deild: 31. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í C-deild Alþingistíðinda. (2556)

89. mál, húsmæðraskóli á Hallormsstað

Flm. (Ingvar Pálmason):

Það er af sjerstökum ástæðum, að jeg er of seinn með þetta frv. En þar sem hv. deild hefir sýnt þann velvilja að veita afbrigði, þá ætla jeg ekki að afsaka það frekar.

Það er ekki með öllu nýtt mál, sem hjer kemur fram, þó að það sje að vísu nýtt á Alþingi. Það mun hafa verið rjett fyrir eða um síðustu aldamót, að einn af málsmetandi mönnum þarna eystra hóf fyrst máls á stofnun húsmæðraskóla á Austurlandi. Þetta er sjálfsagt sumum hv. þdm. kunnugt; og það var þá eftir nokkur ár orðið svo fast í hugum manna að hrinda þessu máli í framkvæmd, að byrjað var á fjársöfnun í þessu skyni. Mátti segja, að fjársöfnunin gengi vel, þangað til í stríðsbyrjun 1914. Þá dofnaði yfir þessu máli og lá það niðri að kalla, þangað til 1920, eða öllu heldur 1921. En þá reis upp aftur hinn upphaflegi forgöngumaður þessa máls og skrifaði að minsta kosti tvær greinar í blað eystra og hvatti til þess, að hafist yrði handa á ný um þetta áhugamál hans og Austfirðinga yfirleitt. Það virtist þá strax glæðast aftur áhugi fyrir þessu máli, og hefir þó sjersaklega glæðst nú á síðastliðnu ári og orðið almennur. Er það aðallega að þakka forgöngu kvenfjelaga þar eystra og Búnaðarsambands Austurlands.

Eins og oftar hefir reynst í þessum málum, þá má búast við því, að þá fyrst sje málið komið á rjettan rekspöl, þegar kvenþjóðin hefir tekið það í hendur sínar. Við höfum ekki langa reynslu í þessu efni, en við höfum góða reynslu. Þess vegna hefi jeg orðið við áskorun allmargra Austfirðinga að flytja þetta frv. Jeg vil líka minna á eitt atriði, sem er rjett að komi fram strax, sem jeg veit, að hefir töluvert lyft undir þann áhuga, sem þetta mál hefir vakið nú á síðasta ári, að það er sjerstök kona, sem rjettilega er talin sjálfkjörin til að takast á hendur forstöðu slíks skóla. Hún er landskunn orðin, og því ekki þörf fyrir mig að lýsa hennar hæfileikum til þessa starfs. Það hygg jeg flestum hv. þdm. sje kunnugt. Nægir í þessu sambandi að benda hv. þdm. á fyrirlestur þann, er hún flutti á búnaðarfjelagsfundi á Eiðum á síðasta sumri, sem vitnar ótvírætt um hennar góðu hæfileika á þessu sviði. Fyrirlesturinn er prentaður í „Tímanum“. Jeg hygg, að það finni hver og einn, að það er ekkert nýtísku prjál, sem andar á móti manni úr þessum fyrirlestri, heldur andar þar frjáls og hreinn blær íslenskrar sveitamenningar. Og það er einmitt slík menning, sem við höfum svo mikla þörf fyrir. Þessi kona er frú Sigrún Blöndal í Mjóanesi. Jeg veit fyrir víst, að það hefir eitt með öðru orðið til þess að vekja alvarlegan áhuga fyrir þessu máli, að menn sjá, hve mikilsvert það er fyrir slíkan skóla, að hann geti strax í byrjun fengið virkilega vel hæfa forstöðukonu, einmitt þessa konu, áður en aldur færist um of yfir hana. Jeg held því, að ganga megi að því vísu í þessu máli, að því verður áður langt líður, af hendi Austfirðinga, reynt að ráða til lykta á farsællegan hátt.

Jeg skal þá víkja örfáum orðum að frv. sjálfu. Skal jeg strax játa, að mig kann að bresta margt, sem til þess þarf að gera slíkt frv. frambærilegt. En jeg geri þó ráð fyrir, að gallarnir sjeu ekki meiri en það, að þeir verði lagaðir í meðferð málsins í þinginu. Það, sem jeg vil slá föstu, er það, að slíkur skóli sem þessi verði reistur á þann hátt, að hlutaðeigandi hjeruð legðu fram talsvert fje til skólabyggingarinnar. Í annan máta vildi jeg líka slá því föstu, að kröfurnar til þessa skóla verða að vera þær, að hann geti nokkurn veginn fullnægt þörfinni. Þess vegna er það, að jeg hefi í 2. gr. frv. ákveðið, að skólabyggingin skuli hafa kenslustofur, sem rúmi 40 nemendur, og að minsta kosti heimavist fyrir 30. Jeg býst við, að mönnum þyki þetta óþarflega stór bygging. En jeg er sannfærður um, að ef slíkur kvennaskóli á Austurlandi á að fullnægja þörfinni, má hann ekki vera minni en þetta. Hitt er annað mál, hvort það þykir alveg sjálfsagt að byggja alt í einu, þegar til framkvæmda kemur. Það er hugsanleg leið, að það mætti byggja minni byggingu, með því fyrirkomulagi, að auðvelt væri að auka svo við hana, að þetta takmark næðist. En mjer er það fullkomlega ljóst, að það er stórhættulegt fyrir svo stórar stofnanir, ef þeim er sniðinn svo þröngur stakkur strax í byrjun, að þær geti ekki náð tilgangi sínum fullkomlega. Læt jeg það því koma fram í frv. strax. En hitt finst mjer geta verið samningsatriði milli þeirra, sem kosta bygginguna, hvort hún yrði öll reist í einu eða ekki.

Jeg hefi nú skýrt tildrög þessa máls, og jeg hygg það þurfi ekki að skýra nauðsynina á slíkum skólum yfirleitt, og ekki síst á þessum stað; það ætti að vera öllum ljóst. Ef til vill kann ýmsum að þykja tímarnir ekki hentugir til þess að inna af hendi þau fjárframlög, sem slík stofnun hefir í för með sjer. En þess ber að gæta, að eins og frv. er borið fram, er ekki nein krafa um, að þetta sje gert að svo stöddu. Þá fyrst eiga lögin að komast í framkvæmd, þegar viðkomandi hjeruð eru viðbúin að leggja fram það, sem þeim er áskilið.

Jeg verð að segja, að mjer finst það ekki vera nema mjög smávægileg upphæð, þótt farið sje fram á að byggja slíkan skóla sem þennan og reka hann, í samanburði við þær fjárhæðir, sem við nú daglega verðum að ræða um og taka ákvarðanir um. Jeg get sagt það strax, að enn sem komið er hefi jeg ekki þær upplýsingar, sem til þess þarf, að segja neitt ákveðið um, hvað slík bygging kostar; en jeg hefi þó nokkra heimild fyrir því, að byggingin, með því fyrirkomulagi, sem jeg tala hjer um, muni ekki kosta meira en 45–50 þús. kr., með þeim stíl, sem jeg geri ráð fyrir í frv.

Þegar við athugum það, að 50 þús. fara í stofnkostnað og 3–4 þús. síðan í rekstrarkostnað á hverju ári, og berum slíkt saman við þær fjárhæðir, sem við óumflýjanlega verðum að greiða á næstu árum, þá er varla hægt að láta sjer blöskra slíkt. Jeg held, að þegar um það er að ræða, að þroska hina uppvaxandi kynslóð, þá sje það ekki sparnaður, að halda í fje til slíkra stofnana og fyrirtækja. Jeg held það sje þvert á móti. Við vitum þó fyrir víst, að þörf er fyrir það, að búa þær konur undir lífið, sem eiga í framtíðinni að stjórna innanhúss og gegna öllum húsmóðurstörfum í þessu landi. Og leiðin til að útvega sjer þennan undirbúning liggur nú aðallega gegnum kaupstaðina. Jeg hygg, án þess nokkuð að lasta þá fræðslu, að hún sje tæplega þess eðlis, sem verður að telja nauðsynlegasta fyrir hverja sveitakonu. Jeg held sem sagt, að það sem við gerum einna óhagstæðast fyrir eftirkomendurna, sje að spara fje til alþýðuskólanna í sveitum.

Jeg ætla að láta hjer staðar numið. Jeg vænti þess, að þetta mál fái góðar undirtektir. Jeg er svo heppinn, að þetta mál á hjer í hv. deild ýmsa góða vini, sem jeg veit, að vilja eitthvað fyrir það gera, og get því með fullu trausti til hv. þd. látið þessa ófullkomnu framsögu nægja.