13.04.1927
Efri deild: 52. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (2561)

89. mál, húsmæðraskóli á Hallormsstað

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Það er rjett hjá hv. frsm. (IHB), að nefndin gat ekki orðið sammála um frv. Vill meiri hl. vísa því til stjórnarinnar, en ekkert kemur fram um það hjá hv. meiri hl., hvert það framtíðarskipulag er, sem hann hefir hugsað sjer á húsmæðrafræðslunni í landinu. Þó býst jeg við, að hv. frsm. muni hafa eitthvert skipulag í huga, og þá langar mig til þess, að fá að vita, hvað hv. frsm. hefir hugsað sjer, að hjer yrðu margir húsmæðraskólar, hve stórir og hvar þeir eigi að vera. Sumir vilja hafa bara tvo húsmæðraskóla, eins og bændaskólana.

Jeg vil ekki bera hv. meiri hl. neitt misjafnt á brýn, en það verð jeg að segja, að það voru kaldar viðtökur, sem frv. fekk hjá honum. Þetta er því einkennilegra, þar sem annar nefndarmanna er fulltrúi fyrir Seyðisfjörð, er njóta mundi mikils góðs af þessum skóla, og hitt er fulltrúi kvenna hjer á Alþingi.

Um skólastofnunina sjálfa er það að segja, að ekki verður vefengt, að Hallormsstaður er einn sá staður, er mönnum þykir mest til koma vegna náttúrufegurðar og Austfirðingum þykir vænt um. Þar er loft mjög hreint og heilnæmt, skógurinn fyllir fjallshlíðina, en Lagarfljót er fyrir neðan, og hinumegin við það blasir hinn fagri Fljótsdalur. Samgöngur eru góðar þangað, bæði með bát á fljótinu, og þegar brú er komin á Grímsá, vantar ekki nema lítinn vegarkafla til þess, að akfær vegur sje frá Egilsstöðum að Hallormsstað. Það er að mínu viti mikill kostur, að skólinn verður ekki í þjóðbraut. Jeg held því, að hvort sem litið er á Hallormsstað sjálfan, afstöðu hans í sveitinni og fjórðungnum og samgöngurnar, þá held jeg, að ekki verði betur á kosið, enda virðist mikil ánægja meðal sýslubúa yfir staðnum. Jeg fekk nýlega skeyti frá Búnaðarsambandi Austurlands, þar sem það biður mig að útvega teikningar af skólanum, til þess að leggja það fyrir þingið, ef með þyrfti. En jeg vissi, að meiri hl. var á móti þessum skóla, og vildi jeg því ekki baka sambandinu kostnað að óþörfu. Að það sje of mikið fyrir Austfirði að fá skólann, getur ekki komið til mála, þar sem hjer er um tvær stórar sýslur að ræða, með mörgum kaupstöðum. Þegar litið er á tölu unglinga í báðum Múlasýslum, þá er stærð skólans ekki mikil, þó að honum verði ætlað að geta tekið á móti 40 stúlkum. Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa, að allur þorri kvenna geti fengið verklega mentun. Og þessi skóli mundi ekki hafa við að taka á móti stúlkum, sem vildu verða þar kenslu aðnjótandi. Þetta hlýtur hv. frsm. að vera vel kunnugt, þar sem árlega þarf að vísa frá hússtjórnardeild kvennaskólans hjer fjölda stúlkna.

Jeg hefi lagt áherslu á það, að hvernig sem skipulagi húsmæðrafræðslunnar verður háttað í framtíðinni, þá verður það með öllu óhugsandi, að ekki verði settur á stofn húsmæðraskóli á Austurlandi. Jeg vil í þessu sambandi benda hv. frsm. á, að þar sem hann hefir lagt áherslu á það, að gera kvennaskólann í Reykjavík að ríkisskóla, en þeir, sem hafa verið á móti því, hafa flutt fram þá mótbáru, að skólinn væri sjerskóli, þá getur hv. þm. ekki komið það á óvart, þó að við nú viljum standa við þetta í verki, að landið taki að sjer sjerskólana, og verða þannig við ósk hv. þm. (IHB).

Viðvíkjandi þeirri mótbáru hv. meiri hl., að betra hefði verið að hafa skólann á Eiðum, skal jeg taka það fram, að fyrst og fremst eru þar engin náttúruskilyrði, sem mæla með því. Þó að þarna hafi verið reist allstórt hús og sett í það miðstöð, þá er það víst, að skólinn hefði aldrei verið reistur frá byrjun á þeim stað. Það er enginn ánægður með þann stað. En þar sem búið var að reisa þarna steinhús, þótti ekki rjett að láta húsið ónotað. Nú hefir Eiðaskóli verið gerður að almennum unglingaskóla fyrir Austurland. Auk þess mundi það engan sparnað hafa í för með sjer, þó reist væri hús undir húsmæðraskóla á Eiðum, í stað þess að reisa það á Hallormsstað. Flutningskostnaðurinn yrði sá sami, og rekstrarkostnaðurinn yrði meiri á Eiðum. Á Hallormsstað þarf t. d. að grisja skóginn, og er þar því ótakmarkaður eldiviður rjett við húsið.

Hv. frsm. talaði um það, að það væri nær að hugsa um hressingarhæli á Austurlandi heldur en þennan skóla. Við höfum bæði verið með í því að undirbúa hressingarhæli í nánd við Reykjavík, en ennþá er það fyrirtæki ekki komið langt á stað. Þá hefir verið talað um hressingarhæli á Reykjum í Ölfusi, en jeg veit ekki til þess, að talað hafi verið um að setja á stofn hressingarhæli á Austurlandi, sem auðvitað væri mjög æskilegt að kæmist upp sem fyrst. En mjer er líka ant um, að hinir ungu og heilbrigðu fái hressingu, þegar þeir eru að byrja lífið, en jeg læt mjer ekki nægja, að þeir fái hressingu, þegar þeir hafa mist heilsuna. Það hefði ekki litla þýðingu fyrir heimilin á Austurlandi, ef um 40 ungar stúlkur væru á Hallormsstað á vorin, þegar allur gróður er að vakna aftur af vetrarsvefninum, og þær færu út í grænan skóginn og nytu fegurðarinnar um leið og þær teiguðu að sjer skógarilminn. Þau áhrif, sem þetta mundi hafa á þessar ungu stúlkur, má óhætt telja á tekjulið Hallormsstaðaskólans. Jeg er því í engum vafa um það, að stofna þennan skóla, og jeg get fullvissað hv. þdm. um það, að Austfirðingar yfirgefa ekki Hallormsstað sem skólasetur.

Hv. frsm. gekk fram hjá þeirri röksemd minni, að það er mjög mikils virði fyrir landið, að hafa góð húsakynni á stað eins og Hallormsstað.

Jeg tók eftir því í dag, að verið var að greiða atkv. í hv. Nd. um fjárstyrk til ísl. hjúkrunarkvenna til þess að taka á móti erlendum stallsystrum sínum. Og í sumar var tekið á móti embættismannafjelagi Norðurlanda, og svo stendur til bráðlega, að þingmannafjelag Norðurlanda heimsæki okkur. Þá koma sagnfræðingarnir o. s. frv. Það er ómögulegt að segja, t. d. eftir tuttugu ár, hvernig alþjóðafjelagsskapurinn snertir okkur. Þá getur svo farið, að við þurfum nauðsynlega að hafa húsakynni á fögrum stöðum, til þess að geta tekið á móti 10–20 útlendingum í nokkra daga. Það, sem hrífur útlendinga mest hjer á landi, er ekki fundir í Iðnó eða í Bárunni, og þeir verða ekki hrifnir af bæjarfegurðinni hjer, en mörgum þeirra verður ógleymanleg fegurð íslenskrar náttúru. En til þess að þessir menn geti notið fegurðarinnar til fulls, þurfa húsakynni að vera sæmilega góð fyrir þessa menn, sem flestir eru góðu vanir í þeim efnum. Af sömu ástæðu er það æskilegt, að reisa skóla á Laugarvatni. Með þessu móti væri hægt að fullnægja bæði hinni „praktisku“ þörf á góðum húsakynnum fyrir gesti landsins og framtíðarþörfinni um góðar mentastofnanir á þessum fögru stöðum, þar sem náttúran hrífur mest og best er að hafa þessar stofnanir. Jeg veit, að hv. frsm. er mjer sammála um þetta.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að mjer var það mikið gleðiefni, að hv. frsm. (IHB) viðurkendi það, sem jeg segi í nál. mínu, að ástæða sje til þess að hraða þessu máli, vegna þess að nú er völ á álitlegri forstöðukonu. Er það óneitanlega mikill kostur. Á Akureyri hefir nú húsmæðraskólamálið sofið rólegum svefni síðan 1917, en nú síðustu dagana hafa verið gerðar tilraunir til þess hjer á þingi og norðurfrá, að hindra nábúann í því efni að koma upp sínum skóla. Að þetta mál hefir dregist svo fyrir Akureyrarkonum er af því, að þær hefir vantað forystukonu til þess að fylkja sjer um. En það er engin ástæða til þess að láta Austfirðinga gjalda þess, því að þeir hafa í þessu máli ágæta forystu.

Á fjárlögum nú er 1500 kr. styrkur til þess að byrja húsmæðraskólahald í Mjóanesi. Okkur er það ljóst, að enda þótt frv. þetta yrði samþ., þá mundi skólahúsið ekki reist í sumar. En þó vildum við, að skólinn gæti tekið til starfa í haust. Benedikt Blöndal og frú Sigrún hafa haldið uppi skóla í Mjóanesi, er hefir getað tekið um 10 nemendur, en sá skóli er ekki útbúinn sjerstaklega til húsmæðraskóla. En með styrknum til frú Sigrúnar ætti húsmæðraskólinn að geta verið í Mjóanesi í vetur, þó að þar sjeu að vísu lítil húsakynni, og sá vísir mundi þá halda þar áfram, þangað til hann yrði fluttur að Hallormsstað.

Þar sem hv. frsm. dró það í efa, að frú Sigrún væri viðbúin að taka við forstöðu þessa skóla og virðist mjer kenna þar óþarfrar gagnrýni frá hv. þm. (IHB) á getu þessarar konu — þá skal jeg taka það fram, að jeg geri ráð fyrir, að frú Sigrún hafi ekki sjerstaklega lagt stund á matreiðslu, en hinsvegar hefir hún stundað ítarlega margskonar kvenlega iðn. Og við skóla, sem ætti að hafa um 40 nemendur, yrði að vera fleiri en einn kennari, og þá mundu þeir kennarar vitanlega skifta með sjer verkum. En það sem mælir með frú Sigrúnu í þessa stöðu er það, að þó að hún sje ekki sjerfræðingur í öllum greinum hússtjórnar, þá er hún kona óvenjulega gáfuð og vel ment og hefir þá persónueiginleika, sem nauðsynlegir eru þeim, er mannaforráð eiga að hafa.

Jeg lít svo á, að full ástæða sje til að samþ. frv. eins og það liggur fyrir, eða með lítilvægum brtt., er komið gætu fram við 3. umr. eða í hv. Nd. Allir þræðir þessa máls liggja þannig, að það er engin leið að stöðva það, þó að ef til vill verði hægt að tefja það í 1–2 ár. En jeg trúi því ekki, að hv. frsm. vilji vinna að því, að spilla þessu máli austfirskra kvenna.