20.04.1927
Efri deild: 54. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í C-deild Alþingistíðinda. (2565)

89. mál, húsmæðraskóli á Hallormsstað

Ingvar Pálmason:

Jeg hefi á þessu þingi flutt 3 frv., er öll snerta kjördæmi mitt. Þetta er hið síðasta þeirra, og varð það svo síðbúið, að liðinn var sá frestur, sem þingsköp heimila. En deildin sýndi þann velvilja að veita afbrigði frá þingsköpunum til þess það mætti koma fram. Jeg get verið hv. mentmn. þakklátur fyrir að hafa skilað áliti sínu um málið, en hinum nefndunum, sem hafa frv. mín til meðferðar, samgmn. og allshn., get jeg ekki tjáð þakkir, því að þær hafa engu áliti skilað. Hitt er annað mál, hvað ánægður jeg er með niðurstöðu hv. meiri hl. mentmn. í þessu máli.

Eins og þskj. 328 ber með sjer, leggur meiri hl. það til, að frv. verði vísað til stjórnarinnar, með þeim forsendum, að áður en meira verði aðhafst í húsmæðraskólamálinu, skuli það rannsakað og fenginn grundvöllur undir framtíðarskipulag þessarar mentagreinar. Í sjálfu sjer get jeg viðurkent, að þetta sje ekki ósanngjarnt, og jeg hefði ekki tekið þetta óstint upp fyrir hv. meiri hl., ef ræður hv. frsm. (IHB) hefðu ekki verið ein óslitin andmælakeðja gegn húsmæðraskóla á Hallormsstað. Mjer fanst þetta skjóta nokkuð skökku við það, sem felst í nál. Það er ekki nema rjettmætt að rannsaka, hvernig skipa skuli þessum málum. En ef bak við það liggur, að húsmæðraskóli á Austurlandi sje óþarfur og að á Hallormsstað eigi hann alls ekki að vera, þá get jeg ekki orðið með. Hv. 1. landsk. óskaði eftir, að hv. frsm. meiri hl. (IHB) gerði einhverja grein fyrir því, hvernig meiri hl. hugsaði sjer, að húsmæðrakenslunni skyldi skipað í framtíðinni. Þessi spurning virðist rjettmæt, þar sem hún var borin upp fyrir þingmanni, sem hefir helgað kvennafræðslunni lífstarf sitt. En svarið varð á þá leið, að á þessu stigi málsins væri ekki hægt að verða við þessari ósk. Það var þó ekki nema sanngjarnt að ætlast til, að þessi fulltrúi kvennanna hefði einhverja fasta áætlun um þetta mál, enda þótt ekki væri víst, að þær áætlanir næðu fram að ganga.

Af því jeg þóttist geta dregið það út úr ræðu hv. frsm. (IHB), að hann væri mótfallinn húsmæðraskóla á Hallormsstað, og efamál, hvort rjett væri að hafa nokkurn húsmæðraskóla á Austurlandi í framtíðinni (IHB: Ekki rjett!) — vil jeg, til þess að staðfesta orð mín, athuga nokkur atriði úr ræðu hv. frsm. meiri hl. (IHB).

Eitt af því fyrsta, sem fram kom hjá hv. frsm., var það, að Hallormsstaður væri síst betur fallinn til þess að vera skólasetur heldur en Eiðar. Þetta endurtók hv. frsm. í báðum ræðum sínum. Jeg ætla ekki að fara út í deilur um þetta atriði hjer. Samanburður á þessum stöðum er óþarfur, og sá, sem kemur á þá báða, sjer strax, hvað mælir með hvorum. Á Eiðum er nú annar skóli fyrir, og það skyldi þá helst vera, að í sambandi við hann mætti benda á eitthvað, sem gerði það æskilegt að hafa húsmæðraskólann þar líka. Nú er nýlokið við húsbyggingu á Eiðum, og er það öllum ljóst, sem sjeð hafa þá byggingu, að um sambyggingu getur ekki verið að ræða, svo að sparnaður við sambyggingu getur víst ekki komið til greina. Að því er snertir innlent byggingarefni er svipuð aðstaða á báðum stöðunum, en um aðflutninga alla er miklu hægara á Hallormsstað. Bílfær braut er alla leið að Lagarfljóti, og síðan opin leið eftir fljótinu sjálfu. Að Eiðum er vegurinn nú sem stendur ekki fær, og eftir þeim viðtökum, sem frv. mitt um breyting á vegalögunum hefir fengið, er ekki útlit fyrir, að úr því verði bætt að svo stöddu.

Eitt af því, sem Hallormsstaður hefir fram yfir Eiða, er eldiviðurinn. Jeg skal ekki um það dæma, hvort nægur eldiviður fengist í Hallormsstaðaskógi, en það yrði a. m. k. stór liður í eldiviðarsparnaði að nota þann möguleika. En það, sem mest mælir með Hallormsstað, er það, að allir Austfirðingar eru sammála um, að þar eigi skólinn að vera, og jeg verð að gera þá kröfu fyrir þeirra hönd, að þeir fái þessu ráðið, ekki síst þar sem hjer er um uppáhalds stað þeirra að ræða. Tilgangurinn með því að minna á Eiða, getur varla verið annar en sá, að vekja upp aftur gamla sundurlyndisdrauginn frá því að skólinn var bygður þar. En það er kunnugt, að um það var ekki óskiftur vilji. Aftur á móti er alveg óskiftur vilji um það, að hafa húsmæðraskólann á Hallormsstað.

Jeg hefi nú hrundið þeim staðhæfingum hv. frsm. meiri hl., að Hallormsstaður væri síst betri skólastaður en Eiðar. Þá mintist hv. frsm. á það, að Hallormsstaður væri til valinn staður fyrir hressingarhæli. Hjer er nú ekki um neitt slíkt að ræða. Og jeg segi fyrir mig, að jeg vil heldur vinna að því, að hægt sje að ala upp hraust og heilbrigt fólk, heldur en að koma upp hælum til að taka við því, þegar það er orðið sjúkt af óhollum lifnaðarháttum. En það er eitt af aðalatriðunum í því sambandi, að gera húsmæðurnar færar um að annast vel um heimili og ala upp börn sín og annara. Annars kynni að verða þörf á hressingarhæli í hverri sveit. En jeg vil fá skólana fyrst. — Hv. frsm. sagði, að þetta væri tilfinningamál hjá ýmsum. Látum svo vera. Tilfinningarnar verða líka altaf að ráða nokkru, og að því er þetta mál snertir, þá dregur það ekki úr gildi Hallormsstaðar, þó að tilfinning manna stefni þangað.

Jeg tel rjett að láta þess getið, að mjer virtist kenna nokkurs vantrausts hjá hv. frsm. til konu þeirrar, sem Austfirðingar vænta, að taki við forstöðu þessa skóla. Að vísu sagðist hv. frsm. viðurkenna ágæti frú Sigrúnar, en hún hefði ekki neitt öðrum fremur til þess að geta tekið að sjer stjórn slíks skóla. Það er að vísu rjett, að frú Sigrún hefir ekki numið mikið á útlendum skólum, en hún hefir sýnt í verkum sínum og ritum, að hún ber fult skyn á þessa hluti, og hún hefir líka sýnt, að hún er fullfær til þess að annast kenslustörf. Það getur vel verið, að hún hafi ekki lært að búa til góða snúða eða útlendar súpur, en hún mun samt reynast flestum konum hæfari til að koma ull í fat og mjólk í mat. Jeg vildi ekki láta þessu áliti hv. frsm. meiri hl. ómótmælt, fyrst það kom fram, enda þótt það væri sagt með fremur vægum orðum.

Um það eru allir sammála á Austurlandi, að komi þar húsmæðraskóli, þá eigi hann að vera á Hallormsstað.

Þá taldi háttv. frsm. meiri hl. óþarfa, að hafa skólann eins stóran og gert er ráð fyrir í frv. mínu, að hann rúmaði 40 nemendur. Jeg skal játa, að jeg er enginn sjerfræðingur í þessum efnum, og á að því leyti óhægt með að verja þessa uppástungu mína. En háttv. frsm. meiri hl., sem alla sína æfi hefir starfað að fræðslu kvenna, ætti þó að minsta kosti að geta gert sjer einhverja hugmynd um, hve stór skóli þessi þurfi að vera, en það hefir hún ekki leitast við að gera, og engin rök hefir hún fært fyrir því, hvers vegna hún telji skólann of stóran, þó að hann rúmi 40 nemendur. Jeg vil nú leyfa mjer að benda á, að það er ekki svo lítið svæði, sem kemur til með að nota skóla þennan, þar sem eru Múlasýslurnar báðar. Auk þess má gera ráð fyrir, að hann verði sóttur úr Austur-Skaftafellssýslu og víðar. Í Múlasýslunum einum eru um 10 þús. íbúar, og hefir mjer talist svo til, að af þeim væru um 800 konur á aldrinum frá 15–25 ára, en það er einmitt sá aldur, sem námsmeyjarnar myndu flestar vera á. Koma þá á hvert námstímabil (2 ár) 160 stúlkur á þessum aldri. Og geri maður svo ennfremur ráð fyrir, að ¼ af þessum stúlkum sæki námið, þá get jeg ekki annað sjeð, en að tillögunni um, að skólinn rúmi 40 nemendur sje fullkomlega í hóf stilt.

Þá gat háttv. frsm. meiri hl. þess í ræðu sinni, að konur þyrftu að fá aðra og meiri mentun en húsmæðrafræðsluna. Þetta hjelt jeg að allir skildu, og því var óþarfi af háttv. frsm. að taka það fram. Það hefir víst engum dottið í hug, að allar austfirskar konur sæktu skólann að Hallormsstað. Mjer finst því allur þessi efi háttv. frsm. meiri hl., vægast sagt vera skraf út í loftið, því að það verður ekki sjeð, á hverju hún byggir það, að skólinn á Hallormsstað verði of stór, þó að honum sje ætlað að rúma 40 nemendur. Hitt er annað mál, að vel er hugsanlegt, að byrja mætti með minna húsrúm, en þar fyrir þarf það ekki að vera nein fjarstæða, að takmarkið sje það, að skólinn nái þessari stærð.

Að síðustu spurði háttv. frsm. (IHB), hve stór kvennaskólasjóður Múlasýslnanna væri nú. Jeg skal fúslega svara þessari spurningu, enda þótt hún komi þessu máli ekkert við, því að í frv. er svo ákveðið, að skólinn skuli ekki bygður, fyr en nægilegt fje sje fyrir hendi. En svo jeg svari spurningunni, þá er sjóðurinn nú rúmlega 5 þús. kr., og er sennilegt, að honum aukist fje hröðum skrefum, því að Austfirðingar hafa mikinn áhuga fyrir þessu húsmæðraskólamáli. Peningar þessir eru í sparisjóðsbók í Íslandsbanka á Seyðisfirði. Jeg skal ekki segja um það með vissu, hvenær fært verður að ráðast í þessa byggingu eða hve langan tíma tekur að afla nægilegs fjár af hendi hjeraðanna. En mjer finst sanngjarnt, að þegar Austfirðingar geta lagt fram fje til byggingarinnar, að svo miklu leyti sem til er tekið í frv., þá megi þeir vænta stuðnings frá ríkissjóði. En hinsvegar skal jeg viðurkenna, að ákvörðun um rekstur skólans þarf að taka strax. Að neita Austfirðingum um þessa sanngjörnu kröfu, nær engri átt, enda þótt það væri, sem ekki er, að benda megi á einhvern stað á Austurlandi, sem að einhverju leyti væri betur fallinn til skólareksturs en Hallormsstaður.

Það gladdi mig að heyra, að háttv. frsm. meiri hl. taldi það gleðja sig, að nú væri kominn inn í fjárlög dálítill styrkur handa frú Sigrúnu Blöndal, til þess að halda uppi húsmæðrafræðslu í Mjóanesi. Þetta verður vitanlega í smáum stíl, en það er spor í áttina, þó örðugleikar sjeu miklir, einkum að því er húsrúm snertir.

Þó að mál þetta nái ekki samþykki þingsins nú, þá er jeg viss um, að ekki líður á löngu þangað til það verður vakið upp aftur, og þá borið fram til sigurs. Og þó að Austfirðingar sjeu aldrei nema olnbogabörn þings og stjórnar nú og hafi verið um nokkurt skeið, þá veit jeg það fyrir víst, að þetta mál verður ekki stöðvað til langframa.

Nenni jeg svo ekki að rökstyðja þetta frekar. Háttv. frsm. meiri hl. mun halda áfram að hamra á fjarstæðum sínum og meinlokum. En jeg býst við, að það hafi lítil áhrif á þá, sem á þetta mál líta með sanngirni og fullum skilningi.