05.03.1927
Neðri deild: 22. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í C-deild Alþingistíðinda. (2574)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Flm. (Halldór Stefánsson):

Í greinargerð þessa frv. er vikið að aðalástæðunum fyrir því. En þær ástæður eru alkunnar, með því að þetta mál hefir verið mjög á dagskrá, bæði hjer á Alþingi og eins með þjóðinni. Jeg tel því ekki þurfa neina verulega framsögu fyrir málinu, á því stigi, sem það er.

Svo eru ástæður nú hjer á landi, að sveitirnar eru smám saman að leggjast í auðn. Býlum hefir farið fækkandi um langan undanfarinn tíma. Á þrengingartímum þjóðarinnar fyrir og um aldamótin 17–1800 voru miklu fleiri býli en nú eru. Þá voru 7537 býli talin. Við næstu aldamót á eftir eru þau talin 7401, og við síðustu aldamót eru þau 6796.

Það er líka alþekt, að víða um land er fjöldi af eyðijörðum. í jarðabók Árna Magnússonar eru talin 3200 eyðibýli. Það er nú kannske ekki svo mikið um það að segja, þótt afskektustu býlin hafi fallið í auðn, ef fjölgað hefði býlum að sama skapi í aðalsveitum landsins. En svo hefir það ekki verið. Nú vitum við hinsvegar, að fólkinu fjölgar altaf í landinu. Fjölguninn nemur nú orðið frá 1–1½ þús. á ári. Þessu fólki verðum við að sjá fyrir einhverju verkefni til framfæris. Undanfarinn tíma hefir að vísu verið sjeð fyrir því af sjálfu sjer á þann hátt, að næg verkefni hafa fengist handa fólkmu í bæjum. það er ekki svo mikið um það að segja, á meðan þau verkefni eru næg, og ef álitið er, að þjóðlífinu sje það holt, að fólk flytjist sem mest að sjónum. En það virðast nú vera horfur á því, að lífsskilyrði fólks við sjóinn sjeu að tæmast. Jeg vil benda á það til dæmis, að stórútvegurinn okkar er nú rekinn með nýtísku tækjum, á þann hátt, sem yfir höfuð er talið arðvænlegast; en þó er svo komið, að í góðum aflaárum, eins og t. d. 1925, eru frekar taldir krepputímar fyrir þennan atvinnuveg. Ástæðan er ef til vill sú, að fiskimiðin sjeu farin að tæmast — eyðist það, sem af er tekið. Um það hefir verið rætt hjer í hv. deild á þinginu í fyrra, í öðru sambandi, og við vitum, að það er farið að tala um að leita fiskimiða fyrir okkar útgerð í öðrum heimsálfum. Og slíkt mundi ekki gert, ef gnægð væri fiskjar við strendur landsins.

Það virðast þess vegna vera nokkrar líkur fyrir því, að þau skilyrði geti tæmst, sem til þessa hafa veitt fólkinu lífsframfæri sitt af sjónum. Og þótt ekki sje kannske alveg að því komið, þá muni að því reka eftir ekki langan tíma, með þeirri fólksfjölgun, sem á sjer stað í landinu.

Þá verður spurningin: Hvar eigum við að leita lífsskilyrða fyrir fólkið?

Nú vitum við, að landið er langsamlega strjálbygðasta land álfunnar; og þess vegna m. a. liggja hjer möguleikar fyrir því, að það geti fleytt miklu fleira fólki en nú er, með því að auka bygð í landinu og nema land á ný. Það verður ekki sjeð, að þetta verði gert á annan hátt en að býlum sje fjölgað í landinu, auðvitað er það einnig gert með því að vinna að aukinni ræktun. En það nægir þó ekki eitt út af fyrir sig, ef býlum ekki fjölgar.

Það hefir áður komið fram uppástunga um þetta, en þær uppástungur hafa ekki náð nógu samfeldu fylgi. Þær uppástungur, sem jeg legg fram í þessu frv., ganga í sömu átt að vísu, en eru bornar fram í nokkuð öðru formi og með annari tilhögun, ef vera kynni, að menn gætu frekar sameinað sig um þær. Jeg skal hjer aðeins benda á það, að eins og þessar uppástungur liggja fyrir, þá eru trygðar þó nokkrar framkvæmdir í þessa átt. Það er sem sje trygt, að það verði bygð nýbýli árlega fyrir þá upphæð, sem til er tekin í 1. gr. frv. Það getur verið álitamál, hvort þar er hæfilega til tekið. En slíkt eru ekki nema uppástungur, og þeim má breyta og yrði breytt, eftir því sem menn álitu ástæðu til.

Þá er annað atriði, sem jeg vil benda á, að hjer er ekki gert ráð fyrir, að framlag ríkissjóðs verði honum eyðslufje, heldur er aðeins breytt um eign. Ríkið eignast býli fyrir framlag sitt, ýmist til fullrar eignar, eða í sameign með landeiganda, og fær — að vísu lága — vexti af framlagi sínu. Yfir höfuð legg jeg þetta fyrst og fremst fram sem form, en ekki að jeg geti búist við, að allir geti endilega fallist á tillögur þær óbreyttar, sem jeg geri um einstök fyrirkomulagsatriði.

Jeg geri mjer vonir um, að menn vilji líta á þetta mál og það fái að ganga til nefndar til athugunar. Skal jeg svo ekki fjölyrða um málið að svo stöddu, en leyfa mjer að óska, að frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. landbn.