05.03.1927
Neðri deild: 22. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í C-deild Alþingistíðinda. (2580)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vildi aðeins með örfáum orðum láta í ljós ánægju mína, eins og fleiri við þessa umr. Jeg vil láta í ljós mikla ánægju yfir því, að nýbýlamálinu er nú svo vel tekið. Því að vitanlega er formið aukaatriði; það, að koma því í framkvæmd, að ríkið geri sjerstakar ráðstafanir til að fjölga hinum sjálfstæðu býlum, það er aðalatriðið. Jeg verð að láta í ljós ánægju mína yfir því, að sú barátta, sem staðið hefir undanfarið um þetta mál, með skírskotun til þess, sem gert hefir verið í nágrannalöndunum, hefir borið svo góðan árangur, að svo margir verða til þess loks nú að lýsa fylgi sínu við þetta mál.