29.04.1927
Neðri deild: 62. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (2584)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Frsm. (Halldór Stefánsson):

Álit landbn. má sjá á þskj. 350, og eins og hv. þdm. munu hafa tekið eftir, mælir hún með frv. með breytingum.

Jeg vil byrja með að gera leiðrjettingu á nál. Þar stendur, að brtt. á þskj. 189 sjeu frá hv. 4. þm. Reykv.; það á að vera 3. þm. Reykv. (JÓl), og er annaðhvort ritvilla eða prentvilla.

Nefndin hefir fallist á bæði grundvallarhugsun frv. og sömuleiðis á aðalatriðin í brtt. hv. 3. þm. Reykv., um hækkun á framlagi ríkissjóðs til sjóðsins. — Einn nefndarmanna hefir óbundið atkv. og hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, og er það hv. þm. Barð. (HK)

Eins og frv. var, náði verkefni sjóðsins ekki til annars en bygginga nýbýla, en brtt. eru um bæði hækkun á framlagi til sjóðsins og eins útfærslu á verkefni hans. Nefndin felst á hvorttveggja, eins og áður er sagt, og telur þessi tvö verkefni, sem um er að ræða, bygging nýbýla og endurbygging á bygðum býlum, jafn brýn og aðkallandi. En hinu síðarnefnda verkefni áleit nefndin nauðsynlegt að setja allþröng takmörk, því miður, verð jeg að segja, vegna þess, hve fjármagn sjóðsins verður takmarkað, og er það gert í 11. gr. í nál. Eins og gefur að skilja, með þessari útfærslu á verkefni sjóðsins, varð nefndin að gera breytingar til viðauka á frv., og koma þær aðallega fram í 10.–12. gr. í nál.

Á þessum meginþáttum, sem jeg nú hefi lýst, eru till. nefndarinnar bygðar. Nefndin hefir hugsað sjer framlag til nýbýla og endurbyggingu á bygðum býlum sitt með hverju móti. Framlög til nýbýla hugsar nefndin sjer sem stofnfje, er ríkið eigi í býlinu, þangað til ef það verður leyst inn; gildir það jafnt, hvort sem landið er í einkaeign eða eign hins opinbera. En aftur á móti um framlag til endurbygginga á bygðum býlum hefir nefndin hugsað sjer sem lán með lágum vöxtum, eins og tekið er fram í 10. gr. í nál., þannig, að lánin ávaxtist og endurgreiðist með jöfnum greiðslum, og sje árlegt gjald 5% af lánsupphæðinni í 42 ár.

Brtt. nefndarinnar er þar nokkuð öðruvísi framsett en hjá háttv. 3. þm. Reykv. (JÓl), en lánskjörin raunverulega hin sömu. Viðvíkjandi öðrum brtt. nefndarinnar skal jeg taka fram þetta:

Við fyrstu umr. kom fram nokkur vafi á því, hvort sjóðnum væri ætlað að ná til býla, sem væru reist á ræktuðu landi, eða til eyðibýla. Þetta var hugsað þannig frá upphafi, en til þess að taka af allan vafa, hefir nefndin í viðauka við 2. gr. sett skýr ákvæði um þetta og gert um leið nokkurn mun á þeim tíma, sem framlögin mega vera afgjaldslaus, eftir því hvort bygt er á ræktuðu landi eða óræktuðu. Vegna innlausnarrjettar á framlagi ríkissjóðs, bæði til nýbýla á landi, sem er í einkaeign og opinberri eign, sbr. 8. gr., þótti nefndinni rjett að setja skorður við óeðlilegri verðhækkun á býlum þessum og vill því setja á þau hámarksverð, miðað við mat skattanefndar. Þar með er það trygt, að býli þessi komist ekki í óeðlilega hátt verð, en geti þó hækkað eðlilega í hlutfalli við þær umbætur, sem gerðar verða á þeim.

Þá setti nefndin ákvæði um það, gegn hvaða tryggingum mætti lána, og eru þau ákvæði tekin fram í 12. gr. og eru sniðin eftir samsvarandi ákvæðum ræktunarsjóðslaganna.

Viðvíkjandi yfirstjórn sjóðsins felst nefndin á brtt. hv. 3. þm. Reykv. (JÓl) og ber hana fram sem sína.

Jeg hefi þá í stuttu máli rakið hugsun og brtt. nefndarinnar og þarf þá litlu við að bæta.

Eftir þeim góðu undirtektum, sem frv. fjekk þegar við 1. umr., leyfi jeg mjer að gera mjer hinar bestu vonir um undirtektirnar nú og um góðan vilja hv. þdm. til þess að vinna í einlægni að úrlausn þessa mikla og nauðsynlega verkefnis. Þetta verkefni er það, að skapa hinni eðlilegu fólksfjölgun í landinu eðlileg og holl skilyrði til þess að afla sjer lífsnauðsynja til framfæris beint úr skauti náttúrunnar sjálfrar og með beinum viðskiftum við hana.

Þetta mikla verkefni hafa allar þjóðir orðið of seinar til að leysa. Fyrir því hefir fólkið hrúgast saman í borgirnar og bæina, við meira og minna óeðlileg framfærsluskilyrði. Og þaðan má telja að stafi að miklu leyti hinn sívaxandi rígur og ágreiningur, ekki aðeins á milli þjóðaheilda, heldur einnig á milli stjetta og einstaklinga. Menn leitast við að lifa hver á öðrum, hver á annara sveita, og berjast um brauðið í stað þess að styðja hver annan. Og með því er í raun og veru verið að grafa stoðirnar undan þjóðskipulagi og stjórnarfari nútímans.