30.04.1927
Neðri deild: 63. fundur, 39. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (2588)

60. mál, landnámssjóður Íslands

Tryggvi Þórhallsson:

Það mætti ætla, að miklar umræður yrðu um þetta mál. Því að það er eitt allra stærsta málið, sem nú er á dagskrá þjóðarinnar, ekki síst frá sjónarmiði þeirra manna, sem álíta, að framtíð landsins verði að byggjast fyrst og fremst á landbúnaðinum. Það þarf enginn að ímynda sjer, að landbúnaðurinn geti orðið öflugur stólpi undir þjóðfjelagsbyggingu nútímans, með því að endurvekja hið gamla fyrirkomulag, stór bú með mörgum vinnuhjúum. Það verður að vinna að því, að fjölga heimilunum bæði út um sveitir og í nánd við kaupstaðina, og ekki síst þar. Þar er aðstaðan best, atvinna og markaður við hendina, og með því er mikið fengið.

Það þarf ekki að búast við endanlegri afgreiðslu þessa máls nú þegar. Það mun fullráðið að skipa milliþinganefnd, er rannsaki þetta og önnur mál landbúnaðarins. Með ekki fullkomnari undirbúningi verður það ekki leitt til lykta á þessu þingi. Til þess er það of yfirgripsmikið. Jeg get í sambandi við þessa nefndarskipun látið þess getið, að Búnaðarfjelag Íslands hefir, sumpart í samráði við hæstv. atvrh. (MG), ákveðið að styrkja Sigurð Sigurðsson búnaðarmálastjóra til utanferðar til þess að kynna sjer löggjöf um þetta efni í nágrannalöndunum, til þess að búnaðarfjelagið geti veitt sem fylstar upplýsingar.

En þó að málið verði ekki afgreitt, væri mjög gott að atkvæðagreiðsla færi fram hjer í deildinni, til þess að nefndin gæti haft eitthvað til að halda sjer

við, og hægt sje að vita um afstöðu þingsins, þótt ekki sje hjer sem fjölmennast í svipinn. Af þeim ástæðum, hve fátt manna er hjer í deildinni, get jeg ekki farið út í einstök atriði þessa máls. Það hefir að minsta kosti þau áhrif á mig og máske fleiri, að mig langar ekki til að hefja langar umræður. Jeg vil aðeins nota tækifærið til þess að lýsa ánægju minni og gleði yfir brtt. hv. 3. þm. Reykv. (JÓl). Mjer þótti mjög vænt um að hlýða á ræðu hans og verða var slíks skilnings af hans hálfu, kaupstaðarmanns og elsta útgerðarmannsins í deildinni. Jeg vonast til að það viti á, að gott samkomulag allra aðila fáist um að leiða þetta mál farsællega til lykta.

Að lokum vil jeg beina því til hæstv. forseta, að hann láti ekki, hvað sem öðru líður, fara fram atkvæðagreiðslu að svo stöddu. Þetta mál er þess vert, að sem flestir þm. sjeu viðstaddir.